139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

18. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta utanríkismálanefndar um frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

Það er skemmst frá því að segja að hér er um að ræða frumvarp sem hefur alloft verið flutt á Alþingi. Ég hygg að þetta hafi verið í tíunda sinn sem það var lagt hér fram og það hefur í gegnum tíðina notið stuðnings þingmanna frá flestum stjórnmálaflokkum.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið en markmið frumvarpsins er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorkuvopnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorkuóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

Um þetta mál urðu allnokkrar umræður innan nefndarinnar og skoðanir voru nokkuð skiptar á afgreiðslu þess. Í umsögn utanríkisráðuneytisins kemur fram að markmið frumvarpsins sé að meginstefnu til í samræmi við yfirlýsta stefnu íslenskra stjórnvalda eins og hún hefur birst í yfirlýsingum stjórnvalda en einnig í samþykkt Alþingis um stefnu Íslands í afvopnunarmálum. Á hinn bóginn geti ýmis ákvæði frumvarpsins farið í bága við skuldbindingar Íslands á alþjóðavettvangi og því þurfi að huga betur að því hvort og þá hvernig meginstefnan yrði bundin í lög. Meiri hlutinn telur liggja fyrir að gera megi nokkrar breytingar á frumvarpinu ef það eigi að verða að lögum enda um margflókið mál að ræða sem hefur snertifleti við mikilvæga og viðkvæma hagsmuni. Hafa þegar verið unnar nokkrar breytingartillögur í þessu skyni sem varða meðal annars afmörkun svæðisins, nánari skilgreiningu á undanþáguheimildum, tilvísun í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna o.fl.

Á undanförnum árum hefur utanríkisráðuneytið unnið að greiningu á öryggi og vörnum Íslands. Þar má nefna skýrslu áhættumatsnefndar frá árinu 2009 sem er ítarlegt plagg. Það er mat meiri hlutans að þar sem nú stendur fyrir dyrum mótun þjóðaröryggisstefnu, samanber næsta dagskrármál á þessum fundi, sé eðlilegt að nefnd sú sem fyrirhugað er að verði sett á laggirnar til að móta þjóðaröryggisstefnu taki efnisatriði þessa frumvarps til meðferðar. Í því efni ber einnig að benda á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lýst yfir að Ísland skuli friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og nefnd um þjóðaröryggisstefnu hlýtur þar af leiðandi einnig að fjalla um hvernig hrinda megi því markmiði í framkvæmd.

Við mat á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands komi m.a. til skoðunar ályktun Alþingis um stefnu í afvopnunarmálum frá árinu 1985, 30 ára samfelld stefna og yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda um bann við staðsetningu kjarnavopna hér á landi og lög og alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að, svo sem um allsherjarbann við notkun og tilraunum með kjarnorkuvopn, bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðan sjávar, bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gjöreyðingarvopna á hafsbotni og í honum, o.s.frv. Meiri hlutinn telur ljóst að ekki verði komist hjá því að taka framangreind mál til skoðunar með heildstæðum hætti við mat á þjóðaröryggisstefnu Íslands.

Í ljósi alls þessa og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég hef nú þegar reifað leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið fái frekari vinnslu í fyrirhugaðri nefnd um þjóðaröryggisstefnu og í því augnamiði verði málinu vísað til ríkisstjórnarinnar. Og það er tillaga meiri hluta utanríkismálanefndar að þessu frumvarpi verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Valgerður Bjarnadóttir.