Frjálsar veiðar á rækju

Miðvikudaginn 13. október 2010, kl. 15:01:15 (0)


139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

frjálsar veiðar á rækju.

[15:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur verið en ég þarf samt sem áður að ítreka aðalspurningar mínar til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í lok þessarar tveggja mínútna ræðu minnar.

Hæstv. ráðherra talar um að heimilt sé að gera þetta samkvæmt lögum. Það finnst mér passa illa við það sem stendur í fréttatilkynningu ráðuneytisins þegar kvótar voru gefnir upp þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Um allverulega kerfisbreytingu yrði að ræða sem krefðist breytinga á löggjöf.“

Virðulegi forseti. Fyrst ráðuneyti segir það hlýtur þetta að vera ólöglegt og þá á að koma með frumvarp, sem ég gagnrýni, sem á að vera afturvirkt. Það gengur ekki upp að mínu mati og þess vegna vil ég biðja hæstv. sjávarútvegsráðherra að upplýsa okkur um hvort það sé ekki rétt sem stendur í fréttatilkynningunni.

Hitt atriðið sem mér þótti athyglisvert hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, sem mikið vit hefur á sjávarútvegsmálum, þegar hann talar um mun á takmarkalausum veiðum og frjálsum veiðum. Það er stórt atriði í þessu sambandi. Hér hefur verið talað um frjálsar úthafsrækjuveiðar. Eru þær takmarkalausar? Ef þær eiga að vera takmarkalausar er ég á móti þeim vegna þess að þá vinnum við gegn sjálfbærni. Þá getum við ekki selt rækjuna út og þá þjónar það ekki markaðshagsmunum okkar.

Því ítreka ég það sem fram kom í spurningum mínum áðan og bið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka nú vel eftir þeim og svara þeim á eftir: Hvað á að veiða mikið af rækju? Eru það 7 þús. tonn, sem Hafró gefur út, eða má fara umfram það? Ég er á móti því. Hvað verður gert þegar búið er að veiða þann rækjutonnafjölda sem ráðherra og Hafró hyggjast gefa út?

Segjum nú sem svo að búið verði að veiða það magn (Forseti hringir.) í febrúar eða mars á næsta ári ef veiðar ganga vel og mörg skip fara til veiða. Hvað verður gert þá (Forseti hringir.) og við hvað á þá að vinna í rækjuverksmiðjum landsins frá þeim tíma fram á næsta fiskveiðiár?