Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 14. október 2010, kl. 14:15:50 (0)


139. löggjafarþing — 11. fundur,  14. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[14:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og formanni hv. félags- og tryggingamálanefndar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir framsögu hennar. Þegar við afgreiddum þetta mál frá þinginu, og ég held að það skipti mjög miklu máli að menn horfist í augu við það, var það ekki nógu vel undirbúið og við gengum ekki nógu vel frá því. Það er það sem ég var að ræða við hv. efnahags- og viðskiptaráðherra í morgun, sem áður var hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ég held að það skipti afskaplega miklu máli að menn horfist í augu við það. Það þýðir lítið fyrir okkur að tala á tyllidögum um að mikilvægt sé að vanda til verka hér ef við göngumst síðan ekki við því þegar við gerum mistök.

Í örstuttu máli er það þannig að á meðan fólk leitaði eftir þessu úrræði var það í biðröð og á meðan var það ekki í neinu skjóli fyrir því að verða boðið upp. Það er það sem menn eru að reyna að gera hér, menn eru að reyna að koma í veg fyrir að svo verði, þ.e. að um leið og viðkomandi aðili leitar eftir þessu úrræði sé hann kominn í skjól.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli að menn séu meðvitaðir um að við unnum þetta í miklu hraði. Við skoðuðum þetta á fundi í gær og síðan á nokkrum mínútum fyrir þingfund í dag og ég hafði ákveðnar áhyggjur af því að við mundum kannski búa til aðra biðröð sem mundi bara færast framar, en fólk mundi lenda í sömu vandræðum þó svo það væri í annarri biðröð en áður, þ.e. þá væri fólk í biðröð eftir því að umsóknin yrði móttekin í staðinn fyrir biðröð eftir því að fá greiðsluaðlögunina. Þá væri náttúrlega til lítils að fara í þetta verk ef sú yrði niðurstaðan.

Á bls. 2 í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Nefndin ræddi verklag við móttöku umsókna hjá umboðsmanni skuldara og fékk þær upplýsingar að umsókn væri móttekin þegar frumgögnum hefði verið skilað, svo sem upplýsingum um tekjur og skuldir og aðgangsheimild að vef ríkisskattstjóra sem og leyfi til handa umboðsmanni til að afla frekari nauðsynlegra gagna. Öflun slíkra frumgagna væri ekki tímafrek og kæmi skuldari með nauðsynleg gögn með sér væri mögulegt að taka á móti umsókn hans samdægurs.“

Með öðrum orðum: Það á ekki að verða nein biðröð og fólk á að geta gengið frá þessu á einum degi.

Það er á þessum forsendum sem ég er með á nefndarálitinu. Ég vil trúa því að þetta sé alveg rétt og við séum þá að gera gagn og ekki að skapa önnur vandamál. En það er algjörlega ljóst að það er verkefni þingsins að einfalda þau úrræði sem eru til staðar. Það er algjörlega ljóst í mínum huga. Við höfum búið til allt of flókið kerfi sem gerir það að verkum að þau úrræði sem voru sett á laggirnar hafa ekki nýst því fólki sem þarf á því að halda. Við höfum með öðrum orðum ekki vandað okkur nógu vel. Ef við skoðum hvernig við höfum gengið frá þessum málum, það var nú kannski sérstaklega í október fyrir ári og einnig í sumar, hafa vinnubrögðin ekki verið nógu skýr og skipulögð og afleiðingarnar eftir því.

Svo að því sé til haga haldið, virðulegi forseti, er ég ekki hér að gagnrýna einn eða neinn. Ég er ekki að gagnrýna forustuna í hv. félags- og tryggingamálanefnd, alls ekki, ég er bara að vekja okkur til umhugsunar um þetta. Ég vil hins vegar vonast til þess að við höfum rétt fyrir okkur og það verði ekki neinn flöskuháls. Ég get svo sem alveg gengist við því að ég er ekkert alveg viss og ég hefði viljað fara betur yfir þetta. En ég vona hins vegar að hér séum við að leysa vanda sem er brýnn og mjög mikilvægt að leysa. Ég lýsi mig einnig tilbúinn til þess, og veit að allir þingmenn eru tilbúnir í það, að fara í það nauðsynlega verkefni að einfalda verklag og einfalda þau úrræði sem eru til staðar. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um það að þau virka ekki sem skyldi. Hér eru nú tveir hæstv. ráðherrar og hvet ég þá til að útskýra það fyrir þeim hæstv. ráðherrum sem eru ekki alveg með það á hreinu núna.