Viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis

Mánudaginn 18. október 2010, kl. 17:20:43 (0)


139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

35. mál
[17:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, þetta er stórt og mikilvægt mál sem hún vekur máls á en ég ætla þó að reyna að fara hratt yfir sögu.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um þátt fjölmiðla í aðdraganda bankahrunsins og er fjallað sérstaklega um það lykilhlutverk sem fjölmiðlar leika í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning og vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er sú að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki staðið sig nægilega vel í þessu hlutverki og dreginn er sá lærdómur af, sem mig langar til að nefna stuttlega: Að í fyrsta lagi verði að leita leiða til að efla sjálfstæða og hlutlæga fjölmiðlun með því að styrkja bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði, í öðru lagi þurfi að styrkja sjálfstæði ritstjórna, setja eignarhaldi einkaaðila á fjölmiðlum hófleg mörk og skylt eigi að vera að upplýsa hverjir séu eigendur fjölmiðla á hverjum tíma, í þriðja lagi að efla þurfi menntun blaða- og fréttamanna og skapa þeim skilyrði til sérhæfingar og í fjórða lagi koma á faglegu eftirliti með fjölmiðlum með það að markmiði að þeir ræki hlutverk sitt af ábyrgð.

Ég vil byrja á því að upplýsa að við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum brugðist við þeim þætti skýrslunnar sem lýtur að fjölmiðlum, bæði í talsverðri innanhúsvinnu við að lesa og draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og líka með því að boða forstöðumenn allra menningarstofnana, þar á meðal Ríkisútvarpsins, á fund í ráðuneytinu til að ræða efni skýrslunnar hvað þær varðaði.

Í frumvarpi um fjölmiðla, sem ég nefndi áðan, er að sumu leyti brugðist við þeim athugasemdum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þar er m.a. kveðið á um að eignarhald skuli ávallt upplýst. Þar er kveðið á um að við framlagningu skuli skipuð þverpólitísk nefnd til að gera tillögur um takmarkanir á eignarhaldi, að fjölmiðlar skuli setja sér og birta opinberlega reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og skuli þær reglur samdar í samráði við viðkomandi starfsmenn og eftir atvikum starfsmannafélög og þar eru ákvæði um skýrari vernd heimildarmanna.

Verði frumvarpið að lögum er að sumu leyti komið til móts við þær ábendingar sem settar eru fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar en það eitt og sér leysir ekki þá erfiðu stöðu sem fjölmiðlar á Íslandi eru í. Eftir standa stórar spurningar um fjárhagsleg og fagleg skilyrði íslenskra fjölmiðla og hvernig þau verði tryggð til framtíðar.

Ég hef sent öllum þeim fjölmiðlum sem eru starfandi á Íslandi bréf til að kanna hvernig þeir brugðust við þeim athugasemdum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, hvort þeir hafi skoðað það að setja sér siðareglur, verklagsreglur, haldið fundi með starfsmönnum o.s.frv. Svör fengust frá eftirfarandi 7 fjölmiðlum af þeim 15 sem fengu þetta bréf og kann það að skýrast af því að ekki hafi verið gefinn nægur tími til svara en ég ætla ekki að fara út í það. Þeir sem svöruðu voru 365 miðlar, DV, Fréttatíminn, ÍNN, Pressan, Ríkisútvarpið og Útvarp Saga.

Í svari 365 miðla kemur fram að þeir hafi sett sér siðareglur sem voru staðfestar í júní 2009 og að stöðugt sé unnið með þær reglur hjá fjölmiðlum fyrirtækisins, bæði á fundum og með almennum verklagsreglum starfsmanna. Að mati forsvarsmanna 365 miðla gefur ekkert í skýrslunni til kynna að fjölmiðlar hafi staðið sig illa í því sem þeir kalla áþreifanleg mál sem tengjast til að mynda eignarhaldi en almennt hafi skort á að fjölmiðlar hafi veitt nægilegt aðhald og verið nægilega öflugir að gagnrýna þá stemningu og þau viðhorf sem uppi voru í samfélaginu.

Í svari DV segir að samkvæmt niðurstöðum úttektar rannsóknarnefndar Alþingis hafi umfjöllun DV um bankana í aðdraganda bankahrunsins verið sú gagnrýnasta. Það hafi hins vegar verið álit ritstjórnar strax í kjölfar bankahrunsins að blaðið hefði ekki sinnt hlutverki sínu sem eftirlitsaðili og gagnrýnandi í samfélaginu nægilega vel og því hafi siðareglum DV verið breytt fljótlega í kjölfar hrunsins með það að markmiði að efla rannsóknarheimildir blaðamanna og tryggja að umfjöllun blaðsins leiði til aukins gegnsæis í samfélaginu.

Í svari Fréttatímans segir að fjölmiðillinn sé einungis nokkurra vikna gamall — nokkuð rétt ábending það — og því væri erfitt fyrir hann að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar um starfsemi fjölmiðla fyrir bankahrun en að fjölmiðillinn starfi eftir eigin siðareglum sem hafi verið samdar eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Sjónvarpsstöðin ÍNN svaraði því til að engar athugasemdir hefðu verið gerðar við störf sjónvarpsstöðvarinnar.

Í svari Pressunnar kemur fram að fjölmiðillinn hafi ekki starfað fyrir hrun en tekið er fram að fjölmiðillinn muni að sjálfsögðu leitast við að taka mið af þeim ábendingum og þeirri umræðu sem er í skýrslunni og hafi skapast í framhaldi af henni.

Í svari Ríkisútvarpsins kemur fram að á þeim ritstjórnum RÚV sem vinna með fréttir og fréttatengt efni hafi farið fram umfangsmikil og ítarleg umræða um athugasemdirnar. Ritstjórnirnar telja unnt að samsinna skýrsluhöfundum um þá almennu lærdóma sem þeir telja að fjölmiðlar geti dregið af bankahruninu en að flestu öðru leyti telur Ríkisútvarpið afar varhugavert að setja alla fjölmiðla á Íslandi undir einn hatt þegar rætt sé um framgöngu þeirra í aðdraganda hrunsins. Ríkisútvarpið telur að sá lærdómur sem það dregur helst af framgöngu sinni í hruninu sé að það skorti á tortryggni hjá fréttamönnum og of rík tilhneiging hafi verið til að (Forseti hringir.) trúa þeim aðilum sem héldu um taumana í viðskiptalífinu, þeim fjármálastofnunum og sérfræðingum sem leitað var til. (Forseti hringir.) Einnig er ljóst að á ritstjórnum RÚV skorti sjálfstæða sérfræðinga (Forseti hringir.) með þekkingu á sviði fjármála- og viðskiptalífs.

Ég mun kannski fara ítarlegar (Forseti hringir.) yfir þessar niðurstöður í seinna svari mínu.