Þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður

Þriðjudaginn 19. október 2010, kl. 17:10:21 (0)


139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. Birki Jóni. Ég tel það, enda hóf ég mál mitt á því að segja að þetta væri einstakt starf.

Ég baðst nú afsökunar á því, virðulegi forseti, að ég notaði orð eins og „víla og díla“ í ræðustól, það þýðir ekki að verið sé að tala um baktjaldamakk eða svoleiðis. Þetta er orðfæri sem notað er um þá sem eru í forustu og hafa meiri völd. Þeir hafa meiri áhrif. Það er staðreynd.

Af því að ég notaði eins konar götustelpumál í því sambandi í ræðustól Alþingis get ég ekki annað, virðulegi forseti, en beðist afsökunar á því. Ég vona að hv. þm. Birkir Jón skilji hvað ég á við.

Ég vil líka segja að ég ber mikla virðingu fyrir þessu starfi, mjög mikla. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi nefndarformanna. Ég ber mikla virðingu fyrir starfi þingmanna í stjórnarandstöðunni. Ég er bara þeirrar skoðunar að við eigum öll að fá fyrir það sama kaup.