Þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður

Þriðjudaginn 19. október 2010, kl. 17:37:43 (0)


139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. Þráni Bertelssyni að menn sinna sínu starfi mjög misvel á þessum vettvangi. Það er auðvitað erfitt að ætla að mæla misgóða frammistöðu manna til launa en það er ekki það sem ég er að tala um. Ég er að tala um eitthvað sem við köllum ábyrgð og álag. Við köllum hér ákveðinn hluta þingheims til ríkari ábyrgðar eða verkstjórnarábyrgðar getum við sagt. Ég sé í prinsippinu ekkert athugavert við það að virða fólki það til launa, vegna þess að þar með er náttúrlega líka lögð ákveðin áhersla á það eða gerð ákveðin krafa um það að menn rísi vel undir þeirri ábyrgð sem þeim er falin, þeim trúnaði sem þeim er falinn.

Jöfnuður í mínum huga er nefnilega ekki það að allir fái það sama undir öllum kringumstæðum. Það er ekki þannig. Jöfnuður er miklu frekar það að menn uppskeri á einhvern hátt í samræmi við vinnuframlag og það sem þeir leggja af mörkum.

Auðvitað er þetta mjög viðkvæm og erfið umræða. Það er erfitt að ætla mönnum að fara í slíkan mannjöfnuð á þessum vettvangi. Eins og ég sagði áðan held ég að kosturinn við þetta frumvarp sé fyrst og fremst sá að það vekur okkur öll til umhugsunar um eðli þeirra starfa sem við gegnum og þá ábyrgð sem fylgir þeim störfum sem við gegnum hér. Það er gott.

Ég vona að þetta fái málefnalega og góða umræðu í allsherjarnefnd og síðan skynsamlegar lyktir í atkvæðagreiðslu í þinginu, hverjar sem þær verða.