139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í gær varð við svipaða umræðu nokkurt tal um nóbelsverðlaunahafann kínverska, Liu Xiaobo, baráttumann og ljóðskáld sem fékk friðarverðlaun fyrir skömmu og það gerðist svo hér í salnum að það var eiginlega ákveðið að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu þar sem þeirri verðlaunaveitingu væri fagnað og skorað á stjórnvöld í heimalandi hans að leysa hann úr haldi. Við höfðum, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, Þráinn Bertelsson, Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir og Skúli Helgason, samið slíka tillögu og það átti að dreifa henni hér á eftir. Mig langar að lesa hana eins og hún átti að vera:

„Alþingi fagnar því að kínverska ljóðskáldinu Liu Xiaobo hafi verið veitt friðarverðlaun Nóbels vegna mannréttindabaráttu sinnar. Alþingi skorar á kínversk stjórnvöld að leysa Liu Xiaobo þegar úr haldi og gefa honum tækifæri til að ganga til sinna starfa. Með því geta þau í verki sýnt þá virðingu fyrir mannréttindum sem þau hafa gengist við í orði, m.a. með aðild sinni að Sameinuðu þjóðunum, og legðu um leið nýjan grunn að margs konar samstarfi við lýðræðisríki veraldar.“

Nú hefur komið upp áhugi innan utanríkismálanefndar á að taka við þessari tillögu eða flytja hana, væntanlega eitthvað breytta eða lagaða, og ég vil fyrir hönd fyrrverandi væntanlegra flutningsmanna hennar lýsa því yfir að það er okkur mjög að skapi. (BirgJ: Heyr, heyr.)