Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu

Miðvikudaginn 20. október 2010, kl. 14:36:17 (0)


139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Í kjölfar þess að ríkisstjórnin birti fjárlagafrumvarp sitt fyrir árið 2011 ráku margir upp stór augu þegar niðurskurður gagnvart heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni um allt að 40% varð staðreynd. Fólk vítt og breitt um landið hefur staðið fyrir baráttufundum, haldið samstöðufundi og slegið skjaldborg í kringum heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið í örvæntingu sinni til að reyna að stuðla að því að í þeim byggðarlögum verði áfram sú grunnþjónusta sem verið hefur á undangengnum árum.

Þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin viðhafði í þessu máli eru forkastanleg. Ekkert samráð virðist hafa verið haft við forustu heilbrigðisstofnana, starfsmenn þeirra, og niðurstaðan er eftir því. Við höfum á undangengnum vikum fengið ábendingar frá læknum og sérfræðingum sem þekkja vel til á þessum stöðum sem hafa bent á annmarka þessara hugmynda sem lagðar hafa verið fram í fjárlagafrumvarpinu og reyndar stefnubreytingar sem ríkisstjórnin hefur nú áformað.

Það er kannski ekki að undra að miklar athugasemdir séu gerðar við þessar fyrirætlanir ef marka má hvernig unnið var að þessum breytingum vegna þess að það var ekkert samráð haft við þá aðila sem hvað best þekkja til á þessum stöðum. Við skulum hafa í huga að við erum að tala um undirstöðu byggðarlaganna. Ef þessi áform ganga eftir er augljóst að sjúklingar verða í síauknum mæli fluttir burt úr hinum dreifðu byggðum inn á Akureyri eða til Reykjavíkur, jafnvel til að eiga sínar hinstu stundir fjarri sínum nánustu vinum og vandamönnum.

Það getur vel verið að þær tölur sem við horfum á í fjárlagafrumvarpinu líti vel út á excel-skjölum í heilbrigðisráðuneytinu en þetta mál er flóknara en svo. Við erum að tala hér um málefni er snertir viðkvæmustu mál fólks og fjölskyldna í landinu. Það er því eðlilegt að hæstv. ráðherra sé spurður að því hvernig í ósköpunum hafi verið staðið að undirbúningi þessara fyrirætlana. Er það svo hjá þessari ríkisstjórn að samráðið eigi ekki að vera neitt þegar kemur að grunnstoðþjónustu í þessum samfélögum, heldur sé þessu kastað fram í andlit íbúanna án nokkurs samráðs?

Við hljótum líka að spyrja að þessu vegna þess að þetta tengist öryggi sjúklinga og tengist líka stöðugleika í þessum byggðarlögum. Þegar fólk velur sér búsetu spyr fólk í fyrsta lagi: Er góður skóli á svæðinu? Já. Í öðru lagi: Er góð heilbrigðisþjónusta svæðinu? Nei. Obbobbobb, hvað gerir maður þá? Ef öryggi manns nánustu, þó að maður sé ekki veikur í dag getur það gerst á morgun, er ekki tryggt er vegið að undirstöðu byggðarlaganna. Þetta eru gömul sannindi og ný.

Mig langar, í ljósi þess að margir íbúafundir hafa verið haldnir vítt og breitt um landið, að spyrja ráðherrann einnar mikilvægrar spurningar, vegna þess að forstöðumenn stofnana hafa lýst því yfir á þessum fundum að til standi að segja jafnvel hverjum einasta starfsmanni sjúkrahúsanna upp um næstu mánaðamót vegna þessara hörðu aðhaldsaðgerða: Er hæstv. ráðherra, í ljósi þess að mikil óvissa er um hversu mikinn stuðning þetta mál á hér í sölum Alþingis, reiðubúinn til að beita sér fyrir því og beina þeim tilmælum til forustumanna og framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnana að þessar uppsagnir komi ekki til framkvæmda um næstu mánaðamót heldur verði þeim frestað þangað til að raunverulegur vilji Alþingis kemur í ljós? Við höfum heyrt frá fulltrúum allra flokka að miklar efasemdir eru um þessi áform. Við þurfum að fara miklu betur ofan í þessi mál, við þurfum að gera það í samráði við starfsfólk heilbrigðisstofnana, við íbúa viðkomandi svæða og við þurfum líka að fá að sjá hver sparnaðurinn er raunverulega. Hvað mun það kosta að flytja fólk hreppaflutningum með sjúkraflugi eða með sjúkrabílum? Hvað mun það kosta aðstandendur og vini umræddra sjúklinga að ferðast til Reykjavíkur eða inn á Akureyri til að heimsækja viðkomandi? Það þarf að hafa allar breytur í þessu máli undir. Við þurfum að fara vel yfir málið hér. Og ég bið hæstv. ráðherra um að gefa (Forseti hringir.) forustumönnum þessara stofnana tækifæri til að segja ekki fólki upp í stórum stíl um næstu mánaðamót (Forseti hringir.) því að ef það verður gert er það örlagaríkt skref.