Gjaldþrotaskipti

Fimmtudaginn 21. október 2010, kl. 15:04:05 (0)


139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:04]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal trúði okkur fyrir því að hann væri ekki með lögfræðipróf en vel læs á íslensku. Mér finnst þetta mjög skýrt í þeim texta sem hér liggur fyrir í greinargerð með frumvarpinu. Það er hins vegar alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að síðan taka þessi undantekningartilvik sem vikið er að á sig ýmsar myndir. Ef dómstóllinn þekkir útgangspunktinn sem löggjafinn skilgreinir þá kemur það í hans hlut að taka afstöðu til sérhvers máls sem upp kemur þannig að ég fæ illa séð að við sem löggjafi getum skilgreint út í hörgul það sem tæki til allra einstakra mála sem upp kæmu þannig að ég tel að við séum að gera rétt. Við erum að skapa almennan lagaramma um fyrningu skulda á tveimur árum, að taki til allra krafna gagnstætt því sem hefur gilt hingað til, að þurfa að fara fyrir dómstól til að rjúfa þessa fyrningu. Þetta er hin almenna regla en við gerum á henni ákveðnar undantekningar og við segjum að það eigi að líta á þær sem undantekningar. Hverjar eru þær? Jú, það á að horfa til þess hvernig skuldbindingin er til orðin. Ef hún er orðin til vegna saknæms, refsiverðs eða ámælisverðs atferlis þá ber dómstólnum að skoða það. Að öðru leyti á fyrningin að vera algild.