Áframhaldandi samstarf við AGS -- gagnaver -- kostnaður við þjóðfund o.fl.

Þriðjudaginn 09. nóvember 2010, kl. 14:01:25 (0)


139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Í umræðum hér í þinginu í gær þar sem hæstv. forsætisráðherra svaraði fyrirspurn frá hv. 5. þm. Norðvest. um efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom fram að framlenging á samkomulagi við AGS hefði ekki komið til umræðu í þingflokki VG og ekki verið borið undir hann. Nauðsynlegt er að fram komi að framlenging á samkomulaginu var rædd á tveimur fundum þingflokksins í septembermánuði og gafst þingmönnum kostur á að lesa, kynna sér og ræða efni samkomulagsins og fóru fram hreinskiptnar umræður um það. Efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ákveðin áður en Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók sæti í ríkisstjórn og flokkurinn lagðist gegn áætluninni á sínum tíma.

Þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók sæti í ríkisstjórn var ákveðið að starfa í samræmi við þær skuldbindingar sem þegar höfðu verið gerðar og kemur það m.a. fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna sem samþykkt var í þar til bærum flokksstofnunum. Íslensk stjórnvöld hafa jafnan, á þeim tíma sem samstarfið hefur varað, lagt sig fram um að gera á því nauðsynlegar breytingar og betrumbætur, oft í nánu samstarfi við sjóðinn en á köflum einnig þrátt fyrir afstöðu sjóðsins. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þingmenn Vinstri hreyfingarinnnar – græns framboðs vilja gjarnan að unnt verði að ljúka samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrst. Að því er að sjálfsögðu unnið. Standa vonir til þess að samstarfinu geti lokið upp úr miðju næsta ári.

Ég taldi nauðsynlegt, frú forseti, að þetta kæmi fram hér í þinginu í tilefni að þeim ummælum sem féllu í gær og ég gat um í upphafi. (Gripið fram í.)