Áframhaldandi samstarf við AGS -- gagnaver -- kostnaður við þjóðfund o.fl.

Þriðjudaginn 09. nóvember 2010, kl. 14:33:48 (0)


139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

áframhaldandi samstarf við AGS -- gagnaver -- kostnaður við þjóðfund o.fl.

[14:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp vegna orða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um þjóðfundinn góða sem haldinn var á laugardaginn var, mikið heillaskref í sögu þjóðarinnar og mikið ánægjuefni að hann skyldi haldinn og gerður eins góður rómur að honum og framkvæmd hans og niðurstöðu og raun ber vitni. Við vitum öll að það á eftir að vinna úr niðurstöðunum. Við kjósum til stjórnlagaþings 27. nóvember nk. og síðan munu niðurstöður þess berast hinu háa Alþingi með tíð og tíma.

Það er rétt að rúmar 90 millj. kr. er stór upphæð og ég tala ekki um á krepputímum. En ég man ekki betur — mig kann að misminna — en hugmyndin og tillagan um þjóðfund sem undanfara stjórnlagaþingsvinnunnar hafi komið frá Sjálfstæðisflokknum og verið studd af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Mig minnir þó að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi setið hjá við afgreiðslu málsins í heild. Þessi góða tillaga og mjög vel lukkaða framkvæmd held ég að muni skila okkur miklu og hafi gert meira en margt annað í því að byggja upp traust og trúnað á milli fólks í samfélaginu þannig að við og almenningur öðlumst trú á að við getum skrifað nýja stjórnarskrá og byggt upp betra samfélag. Ég held að hugmyndin verði alveg 90 millj. kr. virði þegar upp er staðið.

Ég vil nota tækifærið og þakka sjálfstæðismönnum fyrir að hafa farið fyrir því í þinginu að þessi þjóðfundur skyldi verða haldinn.