Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Þriðjudaginn 09. nóvember 2010, kl. 14:44:13 (0)


139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[14:44]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var mikið ánægjuefni að hlusta á hæstv. ráðherra og ástæða til að óska ríkisstjórn og Alþingi til hamingju með að þessi samningur sé kominn í frumvarpsgerð eftir miklar deilur um framtíð þessa liðlega 44 ára gamla fyrirtækis sem hefur skapað íslensku þjóðinni gríðarleg verðmæti ásamt Búrfellsvirkjun frá því að þau tímamót urðu í atvinnuháttum okkar að álverið í Straumsvík var byggt sem varð til þess að breikka mjög grunninn undir íslenskri atvinnustarfsemi á þeim erfiðleikaáratug síldarbrests og ýmissa erfiðra atburða. Það er mjög ánægjulegt að þetta stóra mál sem, eins og ráðherra sagði, er upp á 60 milljarða kr. og 620 ársverk skuli loks í höfn og framtíð álversins í Straumsvík þannig tryggð í bili og að fyrirtækið stækki og auki framleiðslu sína um að ég held 45 þús. tonn á ári. Eins er mjög mikið ánægjuefni að raforkusamningurinn skuli alfarið ótengdur sveiflum á álmörkuðum sem gefur von um mun betra og stöðugra verðmæti af grundvallarfjárfestingum okkar í orkuvinnslunni þar sem stóru tækifæri okkar eru.

Síðastliðnar vikur höfum við þingmenn Suðurkjördæmis og sveitarstjórnarmenn þar fundað með fulltrúum frá HS Orku og Norðuráli. Norðurál er búið að fjármagna tvo fyrstu áfangana af uppbyggingu álvers í Helguvík en vantar örugga staðfestingu á því að fyrirtækið fái alla þá orku sem þarf frá HS Orku, OR og Landsvirkjun. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort Landsvirkjun og/eða Orkuveitan kæmu á næsta leiti tímabundið eða varanlega að raforkuöflun þannig að fyrstu áfangar álvers í Helguvík gætu farið af stað þar sem um væri að ræða þúsundir starfa (Forseti hringir.) á byggingartímanum.