Aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin

Þriðjudaginn 09. nóvember 2010, kl. 16:36:36 (0)


139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:36]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns um tillögur Sjálfstæðisflokksins segja að það er margt gott í þeim hugmyndum sem hér eru komnar fram. Ég ætla að hlaupa á einhverjum tillögum og þá kannski þeim helst sem fjalla um atvinnumál og skattamál en aukinheldur hlakka ég til að takast á við þessar tillögur í meðförum þingnefndar. Við þurfum allar góðar hugmyndir upp á dekk núna þegar við stöndum frammi fyrir því vandamáli sem stærst er.

Það segir í fyrstu tillögu að Sjálfstæðisflokkurinn leggi til að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar verði dregnar til baka á næstu tveimur árum. Menn horfa þá á tekjuskatt einstaklinga. Á næsta ári verði 10 milljörðum varið til þess að lækka tekjuskatt einstaklinga og á árinu 2012 skuli skattahækkanir ríkisstjórnarinnar ganga að fullu til baka.

Ég tel að þetta sé eilítið óábyrgt tal því að mér finnst heildarsvipurinn á þessum hugmyndum vera sá að hér vantar í raun og veru grundvöll eða að grundvöllur tekjuaukningar ríkissjóðs sé heldur veikur, en menn eru algerlega tilbúnir til að segja í hvað þeir muni eyða peningunum þannig að útgjaldaforsendurnar liggja hér klárt fyrir. Meira um það síðar.

Ég vil svo segja að ég er ósammála því eins og ég skil hugmyndir þeirra um breytingar á tekjuskattinum. Menn ræða einungis um stighækkandi tekjuskatt og að þeir séu ósammála honum en ég held að einmitt hugmyndir okkar um stighækkandi tekjuskatt með þeim tekjuskattsbreytingum sem ríkisstjórnin lagði til hafi gengið vel upp. Við látum áfallið koma til þeirra sem geta betur staðið undir því þannig að þeir sem hafa meiri tekjur borga hærra hlutfall af tekjum sínum til samneyslunnar. Það er vel og ég mundi vilja standa á bak við slíkt tekjuskattskerfi. Þess vegna er ég ósammála þessum hugmyndum eins og þær eru lagðar upp hér, ef ég skil þær rétt.

Þeir tala um það, sjálfstæðismenn, í sínum hugmyndum að þeir vilji nýta auðlindirnar skynsamlega. Mér finnst þessar lausnir eilítið gamaldags. Mér finnst t.d. engin áhersla vera á þá vaxtarbrodda sem við horfum til í íslensku atvinnulífi og ég sakna þess eilítið. Engu að síður ber að fagna hugmyndum. Ég er ekki neikvæður í þá veruna.

Hér vilja menn leggja til aukinn þorskkvóta upp á 35 þúsund tonn. Ég er sammála því að við skoðum það ítarlega að auka við þorskaflann, þó get ég ekki alveg tekið undir það að við eigum að fara svo langt. Hins vegar er ég ósammála þeim hugmyndum að víkja beri frá fyrningarleið í sjávarútvegi. Sú andstaða er vel þekkt á milli þessara stjórnmálaflokka. (Gripið fram í.)

Hér segja menn í c-lið að framkvæmdir við álver í Helguvík verði hafnar. Ég hélt að við værum með það fullkomlega á hreinu að sá þröskuldur sem stendur í vegi fyrir álveri í Helguvík snýst um orkusölusamninginn sem er í gangi á milli orkusalans og orkukaupandans. Það mál er nú fyrir gerðardómi í Svíþjóð og stendur þessari framkvæmd fyrir þrifum. Það er ekki í beinu valdi okkar þingmanna eða ríkisstjórnar að ýta því máli áfram.

Ég er sammála d-lið um að lagalegri og stjórnmálalegri óvissu vegna fjárfestinga í orkufyrirtækjum verði eytt og að arðbærum framkvæmdum verði komið af stað í samvinnu við lífeyrissjóðina.

Mig langar að spyrja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvað þeir meina þegar þeir segja að leitað skuli, af fullri alvöru, leiða til að koma af stað orkufreku atvinnuverkefni að Bakka. Ég veit ekki betur en þessi vinna sé í gangi. Ég veit ekki betur en það hafi verið skipaður sérstakur starfshópur sem aflaði upplýsinga um hverjir hefðu áhuga á því að koma að orkufrekri starfsemi á þessu svæði og menn séu að skoða þetta af fullum krafti. Eru sjálfstæðismenn að tala hér um að þeir vilji álver? Erum við að tala um enn eina gamaldagslausnina, eða hvað?

Hins vegar verð ég að segja að ég er mjög sáttur við þær hugmyndir sem koma fram um að beita hvötum til þess að örva hagkerfið og án þess að ég ætli að fara að telja upp alla þá liði sem þar eru er ég mjög ánægður með þá, nema kannski a-liðinn því að þar er talað um að óhagkvæmir skattar sem letja verðmætasköpun verði afnumdir. Hvaða skatta eru sjálfstæðismenn að tala um þar? Það væri gaman að fá það fyrir umræðuna.

Við eigum að auka skattafslætti vegna rannsókna- og þróunarstarfs. Það er þessi sjóðahugmynd sem hefur verið rædd á vettvangi efnahags- og skattanefndar.

Við eigum að gefa afslátt af tryggingagjaldi þeim fyrirtækjum sem geta sýnt fram á að störfum hafi fjölgað á árunum 2011 og 2012, mjög góð hugmynd. Við skulum fara í hana saman.

Við skulum innleiða skattafslætti vegna hlutafjárkaupa. Við höfum gert þetta í nýsköpunarfyrirtækjum. Ég held að það sé íhugunarefni að fara að stækka þetta net.

Veita undanþágu frá tryggingagjaldi fyrir ný fyrirtæki. Áhugavert.

Endurskoða skattkerfið. Undir það tek ég sömuleiðis.

Þeir tala hér um í 4. lið að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja og því verkefni verði lokið fyrir vorið. Sú vinna er í gangi á vettvangi ríkisstjórnar í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og það er vel. Um það erum við sammála.

Að sjálfsögðu er maður sammála setningu eins og: „Unnið verði markvisst að því að aflétta þrýstingi af gjaldmiðlinum og þannig tryggt að gjaldeyrishöftin verði afnumin innan skamms tíma.“

Hér eru sjálfstæðismenn að tala um óvissu vegna skattaframkvæmda næstu ára, svo sem virðisaukaskatt í tengslum við byggingu gagnavera. Sú umræða fór fram fyrr í dag og þar erum við sammála.

Hallalaus rekstur 2013. Breytt verklag við fjárlagagerð. Aukin hagræðing í grunn- og framhaldsskólum. Að forðast flatan niðurskurð á háskólastigi. Endurskoða og samræma lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Undir þetta tek ég allt sem og endurskipulagningu og frekari hagræðingu í heilbrigðiskerfinu til að auka hagkvæmni og auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila. Undir það tek ég sömuleiðis.

Þá leggja sjálfstæðismenn til að tekið verði sérstakt gjald, svokallað innstæðugjald sem nemi 0,25% af stofni allra innstæðna. Það væri athyglisvert að heyra hvernig þessar hugmyndir falla við svokallaðar hugmyndir um bankaskatt, sem undirritaður og fleiri hafa viðrað og frumvarp fjármálaráðherra er núna í farvegi á leiðinni inn í þingið.

Ég ítreka það að ég óttast heildarsvip þessara tillagna vegna þess að menn eru hér með það fullkomlega á hreinu hvernig eyða beri tekjum ríkissjóðs en mér finnst það hvernig menn ætla sér að afla teknanna vera heldur veikara.

Það segir í greinargerð að tillögurnar muni leiða til 31 milljarðs króna verri afkomu ríkissjóðs en menn ætli að bæta það upp með fjölgun starfa og menn muni bæta stöðu ríkissjóðs um 36 milljarða á næsta ári og 33 milljarða árið 2012.

Fyrr í greinargerðinni er svo farið sérstaklega ofan í það hvernig menn ætla að skapa þessi störf. Það segir hér:

„Með því að gera umhverfi um atvinnulíf vinsamlegra en nú er og snúa af þeirri braut hafta og afturhalds sem núverandi stjórnvöld viðhalda er áætlað að um 8.000 ný störf verði til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum á næsta ári og 6.000 á árinu 2012.“

Ég verð að segja að ef þetta er forsendan fyrir því að ná upp í það gat sem menn eru að leggja til að verði stækkað með þessum útgjöldum, finnst mér þetta heldur veikt. Mér finnst þetta óábyrg nálgun, svo ég segi fyrir mig. Menn ætla að gera umhverfi um atvinnulíf vinsamlegra og þess vegna á að skapa 8.000 ný störf. Ég er sammála því að við eigum að gera það. Við eigum að stefna að því en mér finnst óábyrgt af Sjálfstæðisflokknum að leggja til útgjöld og vera með svona veikar forsendur fyrir tekjuöfluninni. (TÞH: Hvað með séreignarsparnaðinn?)

Víkjum að séreignarsparnaði, vegna þess að ég ætlaði einmitt að fara í hann næst. Ég ætla samt að klára þessa atvinnuumræðu, hv. þingmaður. Hér er ég kominn upp í 14.000 störf, 8.000 á næsta ári og 6.000 árið 2012. Sjálfstæðismenn leggja svo til að vegna þess að þeir segja hér: „Beita á öllum ráðum til að flýta framkvæmdum við nýtt álver í Helguvík, orkufrekt verkefni að Bakka og tilheyrandi virkjanaframkvæmdir“ — og skapa þannig 4.000 bein störf. Ég spyr: Hvað ætla menn að gera á Bakka sem fjölgar svona störfum? Það væri gaman að fá svar við því.

Menn tala hér um skattlagningu séreignarsparnaðar. Í fjárlagaumræðu síðasta árs lögðu sjálfstæðismenn mikla áherslu á skattlagningu séreignarsparnaðar og sögðu að menn þyrftu ekki að fara í skattahækkanir, menn þyrftu ekki að fara í svona mikinn sparnað vegna þess að menn mundu sækja svo mikla peninga með skattlagningunni. Ég var svo sem sammála því en ég var ekki sammála þeirri nálgun að við ættum að fresta því að fara í nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir á ríkissjóði. Við eigum að nota þessa fjármuni til fjárfestinga ef við ætlum að sækja þá.

Nú ætla menn að leggja til að farið verði í skatttekjurnar til þess að, hvað? Á bls. 14 segir:

„Þær tekjur [úr séreignarsparnaðinum] sem ekki yrðu notaðar til að fjármagna tillögurnar á árunum 2011 og 2012 skulu nýttar til að greiða niður skuldir …“

Þannig að menn ætla að nota séreignarsparnaðinn til að fara í þessa frestun á nauðsynlegu aðhaldi, t.d. með hækkun á sköttum og aðhaldsmálum í útgjöldum. (Gripið fram í.)

Ég er sammála mörgum þeim hugmyndum sem hér hafa komið fram en ég ítreka að gagnrýni mín snýst fyrst og fremst um það að mér finnst óábyrg nálgun hvernig menn ætla að ná í tekjurnar. Mér finnst hún áhættusöm og þess vegna set ég nokkra fyrirvara, en ég fagna því að menn hafa lagst í þá vinnu að koma hér með hugmyndir um hvað mætti betur fara.

Ég legg til að efnahags- og skattanefnd og aðrar þingnefndir taki þessar tillögur til ítarlegrar umfjöllunar svo við getum séð eitthvað af þeim verða að veruleika.