Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 16:31:31 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með að þetta frumvarp skuli vera komið fram enda er ég flutningsmaður að því. Ég þakka hv. framsögumanni, Eygló Harðardóttur, fyrir ágæta framsögu.

Við tölum á tyllidögum mikið um nýsköpun og að fjölga þurfi störfum. Svo að ég kannski rifji það upp hvernig þetta frumvarp var til komið þá var það lagt fram í fyrra og var vísað til efnahags- og skattanefndar og eins og frumvarpið var þá búið var kveðið á um að það yrðu að vera mörk og fyrirtækin hefðu þurft að verja a.m.k. 20 millj. kr. til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili. Þetta ákvæði, þ.e. um þessar 20 millj. kr., hlaut mikla gagnrýni utan úr samfélaginu og frá okkur úr stjórnarandstöðunni. Það var því ánægjulegt, og stjórnarmeirihlutanum til mikils sóma, þegar við afgreiddum þetta mál, að þá voru samþykktar fjölmargar breytingartillögur sem ég lagði m.a. fram þegar málið kom úr nefnd og þannig eigum við að vinna.

Ein breytingartillagan var sú að lækka þetta mark úr 20 millj. kr. niður í 5 millj. kr. og fannst mér við ná heilmiklum árangri í þeim efnum þá. Það er þess vegna skrýtið að standa uppi nokkrum mánuðum seinna og mæra það frumvarp sem við ræðum hér.

Ég er sammála hv. flutningsmanni tillögunnar um að það er mikilvægt að skapa þessum fyrirtækjum eins mikið svigrúm og mögulegt er. Og ég get vel fellt mig við að fella þetta lágmark burt þannig að ekki verði kveðið á um neitt slíkt enda lít ég svo á að í fyrra höfum við náð ákveðnum áfangasigri með því að breyta frumvarpinu eins og það kom frá hæstv. ríkisstjórn.

Nú er það svo að við tölum um að við þurfum að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og má það til sanns vegar færa. Með frumvarpinu sem hefur verið flutt hér munum við stuðla að því að veita nýsköpunarfyrirtækjum aukið svigrúm til að ráðast í aukið rannsóknar- og þróunarstarf. Það skiptir miklu máli.

Það hefur verið sagt um Framsóknarflokkinn að hann sé eins máls flokkur og sjái ekkert nema ál og álver. Við höfum reyndar stutt atvinnuuppbyggingu fyrir austan, á Grundartanga, í Straumsvík, þar sem slík atvinnuuppbygging hefur farið fram, og vonandi munum við að einhverju leyti geta haldið áfram á þeirri braut. En ég er sammála þeim sem tala fyrir því að við eigum að auka fjölbreytileikann í atvinnulífinu. Þetta frumvarp sem hefur verið lagt fram mun, ef það verður samþykkt, stuðla að því að mun meiri gróska verður í nýsköpun hér á landi.

Mig langar aðeins að taka undir það sem hv. þm. Eygló Harðardóttir lagði út af í orðum sínum áðan, um að samræma menntastefnu og atvinnustefnu. Mér finnst hún vera komin að ákveðnu grundvallaratriði hvað þetta varðar. Ef við horfum á það hvernig þjóðin hefur verið að mennta sig síðustu 10–15 árin þá hefur nær öll áhersla verið lögð á bóknám en verknám hefur setið á hakanum, iðnmenntun og fleira. Við vitum að á þeim sviðum er mikil nýsköpun og ungt fólk kemur úr því námi með margar hugmyndir. Ég tel því að rétt væri að fara í heildarskoðun á því hvernig þessir tveir þættir raðast saman.

Ég sakna þess reyndar í þessari umræðu um þetta merkilega mál að enginn stjórnarliði hefur kvatt sér hljóðs. Ég sé reyndar að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er kominn í salinn en ég þykist gefa mér það að hv. þingmaður sé sammála okkur framsóknarmönnum í þeim efnum að nauðsynlegt sé að efla nýsköpun í íslensku atvinnulífi og vænti ég þess að hv. þingmaður styðji þá viðleitni sem hér kemur fram.

Hér er líka mættur í salinn einlægur áhugamaður um nýsköpun í íslensku atvinnulífi sem situr með mér í efnahags- og skattanefnd, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem mun væntanlega koma með málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Ég hlakka því til að taka þetta mál aftur upp í efnahags- og skattanefnd, fara yfir það með aðilum utan úr samfélagi. Það er nauðsynlegt að hafa augun opin þegar kemur að því að auka nýsköpun og fjölga störfum í íslensku samfélagi. Það eru 13–14 þúsund manns án atvinnu á Íslandi í dag og hafi einhvern tíma verið þörf fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem hafa skilning á stöðu atvinnulífsins og hvernig við byggjum upp atvinnu þá er það á tímum sem nú. Þarf ég þá ekki að minna hv. þingheim á hversu gríðarlega mikla áherslu Framsóknarflokkurinn hefur alltaf lagt á millistór fyrirtæki og smáfyrirtæki og almenna uppbyggingu í íslensku atvinnulífi.

Ég fagna þessu, hlakka til að takast á við þetta mál í hv. efnahags- og skattanefnd og þakka hv. 1. flutningsmanni, Eygló Harðardóttur, fyrir gott frumkvæði. Vonandi munum við geta afgreitt þetta mál með fljótum og skjótum hætti enda var farið mjög ítarlega ofan í þetta frumvarp á síðasta vetri, og þetta er ekki stórvægileg breyting, í ágætri samvinnu allra flokka á vettvangi efnahags- og skattanefndar.