Sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 18:36:22 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja í upphafi máls míns að ég held að ég og hv. þingmaður Mörður Árnason verðum nú ekki sammála um þetta. Niðurstaðan verður þá bara sú að við verðum ósammála um að ákveðnar stofnanir megi í raun og veru „ekki vera“ úti á landsbyggðinni. Hv. þingmaður sagði að Reykjavík væri miðstöð þjóðlífsins. Ég skilgreini það nú ekki svo þröngt.

Ég hnaut líka um það í máli hv. þingmanns þegar hann sagði að færsla ríkisstofnana út á landsbyggðina hefði yfirleitt gefist illa. Mig langar sérstaklega að nefna tvær stofnanir. Það er til að mynda fæðingarorlofssjóður á Hvammstanga. Sú aðgerð heppnaðist mjög vel og eru allir sammála um það. Svo er það útibú Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Það hefur heppnast mjög vel og vakið mikla aðdáun, svo ég nefni bara þetta tvennt. Þannig að það er hvorki hollt fyrir mig né hv. þm. Mörð Árnason að alhæfa í þessu máli.

Ég nefndi sérstaklega þessar tvær stofnanir, þær tengjast sjávarútveginum í heild sinni. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sjávarútvegi sem er í Reykjavík. En manni finnst þetta vera þannig að það þurfi alltaf að vera einhver risavaxin stofnun hér og svo einhverjar litlar úti á landsbyggðinni. Við getum tekið dæmi um náttúrustofurnar og það allt saman. Það er þetta sem ég er að kalla eftir. Auðvitað eigum við að reyna að styrkja þetta. Við skulum ekki gleyma því að á uppgangsárunum, þegar menn voru hér í þessari froðu allri, þá var öll uppbyggingin hérna og atvinnuleysið utan af landi var flutt til Reykjavíkur með því að íbúarnir færðu sig um set.

Ég er ósammála hv. þingmanni að ríkisstofnanir geti ekki verið með höfuðstöðvar á landsbyggðinni. Ég er algjörlega ósammála því og tel þetta mjög gott dæmi um stofnanir sem mættu klárlega vera þar.