Sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 18:52:54 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina frá hv. þingmanni sem lýtur að því hvort hér sé verið að etja saman landshlutum í ljósi þess að það er sjávarútvegur víðar en á Vestfjörðum. Ég fagna því tækifæri að fá að svara því: Að sjálfsögðu ekki. Sérstöðu landshlutanna verður ekki breytt. Sjávarútvegur er sérstaða fleiri landshluta en Vestfjarða og það er ekkert að því að skilgreina þá landshluta sem slíka.

Eins og fram kemur í tillögunni sjálfri er bent á að fyrir norðan er líka sjávarútvegur. Þar er fyrir rannsóknar- og kennsluvettvangur í fiskeldisfræðum og búnaðarfræðum í Háskólanum á Hólum og Háskólanum á Akureyri. Það vill svo vel til að það er ljómandi gott samstarf milli Háskólans á Akureyri og Háskólaseturs Vestfjarða einmitt vegna þess að á báðum stöðum er ákveðin sérþekking. Það er það sem þessi tillaga gengur út á, að sérstaða landshlutanna, hver svo sem hún er, verði nýtt og skilgreind. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að sama sérstaða sé skilgreind á fleiri en einum stað. Það lýtur fyrst og fremst að stefnumótun og ráðstöfun fjármagns.

Nú stöndum við frammi fyrir miklum niðurskurði á næsta ári vegna hrunsins sem varð hér fyrir tveimur árum og það eru aðstæður sem við erum einfaldlega stödd í. Það breytir engu um að þegar fjármagn er takmarkað er enn meiri ástæða til þess að virkja það vatn sem þó er í pípunum og beina því í réttar áttir. Það snýst nefnilega ekki endilega um að auka fjárframlögin heldur að vinna úr þeim fjárframlögum sem við höfum og að samhæfa þá krafta sem fyrir eru.