Sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 18:56:51 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Takk fyrir, frú forseti. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er mikilvægt og dýrmætt þegar ungt fólk vill snúa aftur heim í hérað og neyta krafta sinna og lífsorku þar, byggðarlaginu til gagns og gleði. Til þess þurfa náttúrlega að vera atvinnutækifæri og þar þarf að vera þjónusta. Þetta er vandi landsbyggðarinnar. Þetta er það sem við tökumst á um m.a. í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir. En ég ætla ekki að gefa neinar yfirlýsingar á þessu stigi um hvernig niðurskurðurinn mun endanlega koma niður eða hvernig ég mun greiða atkvæði við endanlega afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ég treysti því bara að það muni taka farsælum breytingum. Við vitum að ramminn er knappur og um rammann erum við sammála. Það eru hins vegar áherslurnar og innviðirnir sem við ræðum um hvort við getum kannski deilt niður með öðrum hætti. Það á eftir að koma í ljós.

En af því að hv. þingmaður spurði sérstaklega um hvort úthýst verði einhverjum verkefnum eða fræðastarfi frá Háskólanum á Akureyri vegna þeirra tillagna sem lagðar eru hér fram, get ég ekki séð hvernig það ætti í ósköpunum að vera. Markmiðið með tillögunum er ekki að plokka frá einum til að afhenda öðrum, heldur þvert á móti að styrkja háskóla- og rannsóknarstarf úti um landsbyggðina með markvissum og stefnuföstum hætti, að efla háskólastarf og rannsóknir á Vestfjörðum en auðvitað líka á Norðurlandi. Um það snýst málið, að virkja kraftana og fjármagnið.