Sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar

Miðvikudaginn 10. nóvember 2010, kl. 18:59:06 (0)


139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:59]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ef ekki er tími fyrir tíu mínútna langa ræðu í umfjöllun (Gripið fram í.) um þessa þingsályktunartillögu og hæstv. forseti vill að ég tali skemur en tíu mínútur, tíu mínútur er nú ekki langur tími fyrir þetta mál, reikna ég nú með því að ég muni nota upp undir allan þann tíma sem mér er ætlað í þetta.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun heimila að farið verði aðeins fram yfir þann tíma sem áætlaður var. Hv. þingmaður hefur orðið.)

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta.

Í þingsályktunartillögunni sem ég vil ræða hér og fjallar um Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða, m.a. á sviði atferlis- og veiðarfærarannsókna og þorskeldis. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum. Þetta verði gert í tengslum við þá heildarstefnumótun sem fram undan er af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins í málefnum háskóla landsins […].“

Síðan segir, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Vestfirðir eru náttúruleg rannsóknastofa á sviði sjávarlíffræði, fiskeldisrannsókna, veiðarfærarannsókna, sjávarvistkerfa og stranda, hafstrauma og annarra umhverfisþátta sem tengjast hafinu.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í nágrannalöndum okkar er að finna dæmi þess hvernig öflugar háskóla- og rannsóknastofnanir hafa orðið til á grundvelli skilgreiningar sérstöðu af því tagi sem hér er lögð til. Má til dæmis nefna háskólann í Tromsö, sem hefur skilgreint sig á alþjóðavísu sem miðstöð rannsókna og kennslu í málefnum haf- og strandsvæða á norðurslóð, m.a. varðandi lífríki sjávar, veiðar, vistkerfi, loftslag, vatna- og sjávarlíffræði, lífsskilyrði sjávardýra, fæðuval og fæðuframboð, auðlindastjórnun og umhverfishagfræði svo að nokkuð sé nefnt.“

Allt er þetta gott og gilt og á við um nokkur landsvæði á Íslandi, eins og hér hefur fram komið.

Svo vill til að á 113. löggjafarþingi árið 1990 var flutt þingsályktunartillaga af þeim sem hér stendur, sem er nánast samhljóða þeirri sem hér er flutt. Tillagan var síðan endurflutt og samþykkt á 115. löggjafarþingi og var 1. flutningsmaður Steingrímur J. Sigfússon. Sú þingsályktunartillaga fjallaði um, eins og segir í henni:

„Alþingi ályktar að á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu skuli byggja upp miðstöð fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs. Alþingi felur því ríkisstjórninni að láta gera tímasetta áætlun sem miði að uppbyggingu sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsbrautarinnar á Dalvík og eflingu hvers kyns rannsóknar- og þróunarstarfsemi á svæðinu.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Fiskveiðar og vinnsla hafa lengi verið ein mikilvægasta undirstaða atvinnulífs við Eyjafjörð líkt og annars staðar í landinu. Hvergi hefur þó vöxtur sjávarútvegsfyrirtækja orðið meiri á síðustu árum en á þessu svæði, þrátt fyrir að ástand sjávar út af Norðurlandi hafi verið mjög óhagstætt um árabil.“

Síðar í greinargerðinni er vísað til nýja háskólans á Akureyri, í Eyjafirði og segir, með leyfi forseta:

„Nýhafin er kennsla við Háskólann á Akureyri í sjávarútvegsfræðum og eru miklar vonir bundnar við þessa deild háskólans meðal þeirra sem starfa við sjávarútveginn í landinu.“

Áfram segir í greinargerðinni um tillöguna:

„Þessi tillaga felur það í sér að á Akureyri og í Eyjafirði verði í framtíðinni höfuðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs og framtíðaruppbygging á vegum ríkisins hvað þetta varðar fari hér eftir fram í Eyjafirði. Það er mjög mikilvægt að slík miðstöð sjávarútvegsins verði byggð upp þar sem þekking og reynsla er til og allar ytri aðstæður sem með þarf eru fyrir hendi..“

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að vita að tillagan var samþykkt á 115. löggjafarþingi og hún hefur svo sannarlega haft áhrif eins og sjá má í dag. Fljótlega eða stuttu áður en tillagan var samþykkt hófst kennsla við Háskólann á Akureyri, m.a. í sjávarútvegsfræðum. Allt frá þeim tíma hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu á þessu sviði hjá Háskólanum á Akureyri, í samstarfi við aðra landshluta og stofnanir á sviði sjávarútvegs. Meðal annars var fljótlega upp úr þessu opnað útibú frá Hafrannsóknastofnun og starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins er nú orðin rótgróin á þessu svæði ásamt fleiri stofnunum sem hafa skotið rótum á svæðinu í kjölfar þingsályktunartillögunnar og í kjölfar þess að háskólinn setti á fót þetta nám.

Það má hafa langt mál um nauðsyn þess að verja það starf sem þarna hefur skapast á Akureyri og sjávarútvegsnámið og sjávarútvegsfræðin sem þar hafa skotið rótum þó svo að komið hafi fram hjá flutningsmönnum tillögunnar að hér sé ekki verið, ef segja má sem svo, að etja landshlutum eða menntastofnunum saman. Þetta er, eins og ég las upp áðan, kannski ekki algjörlega orðrétt úr tillögunni frá árinu 1990 en efnislega eru færð sömu rök fyrir því að skilgreina Vestfirði sem miðstöð sjávarútvegs og rannsókna á því sviði eins og gert var fyrir þessum árum varðandi Akureyri og Eyjafjörð. Við erum því auðvitað að tala um sömu hlutina. Það getur ekki annað gerst en þarna verði tos á milli og það sé í besta falli verið að skapa tvöfalt kerfi um sömu verkefni að stærstum hluta. Ég held að það sé ekki sú þróun sem við viljum sjá í menntakerfinu á Íslandi, sérstaklega í háskólasamfélaginu þar sem við erum að reyna að fara í hina áttina og fækka háskólum, sameina háskóla og auka samstarf þeirra á milli.

Á þeim tíma frá því tillagan var flutt hefur í nokkur skipti verið getið um sjávarútvegsnám og mikilvægi þessara tilrauna sem ráðist var í, í Eyjafirði árið 1990. Nokkrum sinnum hefur verið getið um það í skýrslum iðnaðarráðherra um byggðamál, m.a. í skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunar fyrir árið 2002–2005. Þar er ítarlegur kafli um mikilvægi sjávarútvegsfræðanna og sjávarútvegsnámsins á Eyjafirði og undirstrikað mjög ítarlega og margsinnis að það beri að verja og það beri að efla með öllum hætti.

Með sama hætti hefur Byggðastofnun nokkrum sinnum fjallað um mikilvægi þessa háskólastarfs á Akureyri, sérstaklega sjávarútvegsnámsins. Í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaþróun fyrir árin 2010–2013 er talsvert ítarlegur kafli um sjávarútvegsnámið, mikilvægi Eyjafjarðar sem miðstöðvar sjávarútvegsfræða og mikilvægi þeirrar þekkingar sem orðið hefur þar til eftir að háskólinn hóf þar starf og sérstaklega þegar sjávarútvegsnámið var tekið þar upp. Einnig er rætt um mikilvægi þess að efla frekar háskólasamfélagið þar og þann háskóla sem byggði á sjávarútvegsnámi og efla þann grunn frekar heldur en dreifa kröftunum.

Það segir í skýrslu Byggðastofnunar um byggðaþróun frá árinu 2010–2013 að á Norðausturlandi sé Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið áberandi sterk miðja. Á Eyjafjarðarsvæðinu búi um 24.000 manns og 5.000 manns austan Eyjafjarðar. Störfum í iðnaði hafi fækkað en sjávarútvegur hafi eflst. Síðan er rökstutt hvers vegna eigi að efla þar háskóla varðandi auðlindafræði, sjávarútvegsfræði og fiskverkfræði. Segir að lokum um opinberar rannsóknir varðandi Háskólann á Akureyri:

„Víðtæk reynsla er t.d. úr ráðuneytum og stofnunum á vegum ríkisins, sveitarstjórnarmálum og rannsóknum og fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.“

Landfræðilega séð er Eyjafjörður sömuleiðis, að mínu viti og flestra sem að þeim málum hafa komið, langbest settur varðandi nálægð við önnur sjávarútvegsfyrirtæki, líftæknifyrirtæki og rannsóknir í sjávarútvegi, eins og sjá má í fylgigögnum og umsögnum sem fylgdu varðandi þetta sama mál þegar það var borið upp á þingi síðasta vetur.

Ég vara við því að verið sé að dreifa kröftunum hvað þetta varðar. Okkur veitir svo sannarlega ekki af því að þétta frekar raðirnar, efla það starf sem fyrir er og byggja út frá því í stað þess að dreifa kröftunum með þeim hætti sem mér finnst að gert sé í þessari (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu.