139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að hann sé óþreytandi við að bera út skoðun hans eigin flokks. Ég vil minna á að í síðustu kosningum hét flokkur vinstri grænna, flokkur ræðumanns, því að Ísland mundi ekki ganga inn í Evrópusambandið og hlaut nokkurn kosningasigur fyrir, en hv. þm. Árni Þór Sigurðsson talar algjörlega í öndverða átt við það.

Mig langar að benda á að það kom fljótlega í ljós eftir að þessi umsókn var send að aðeins ein leið væri inn í Evrópusambandið og það væri leið aðlögunar. Um það geta menn lesið á vef sambandsins og hvet ég hv. þingmann til að kynna sér þau mál því að ég veit að hv. þingmaður veit að við erum í aðlögunarferli en ekki umsóknarferli.

Það var líka eitt enn, þingviljinn. Evrópusambandið fer fram á að æskilegt sé að þingviljinn sé ótvíræður og einnig að ótvíræður vilji sé hjá viðkomandi ríkisstjórn til að sækja um. Hann er ekki til staðar (Forseti hringir.) enda er maður kannski ekki hissa á því að fulltrúar Evrópusambandsins séu orðnir frekar þreyttir á núverandi ríkisstjórn eins og við öll.