139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki, þingmaðurinn hefur kannski spurt forustu Evrópusambandsins hvort hún sé orðin þreytt á ríkisstjórninni, en ég vek athygli á því að í skjali sem kom frá Evrópusambandinu fyrir nokkrum dögum stendur að stjórnmálaástandið á Íslandi sé stöðugt og ríkisstjórnin hafi góð tök á málum. Það finnst mér vera nokkuð góð umsögn (VigH: Og trúirðu því?) um störf ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu trúi ég því.

Varðandi kosningastefnu eða málflutning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í síðustu kosningum bendi ég bara á að á landsfundi flokksins í mars 2009 var gerð samþykkt er lýtur að Evrópusambandsmálum. Þar voru þrjú atriði tilgreind: Í fyrsta lagi að flokkurinn ítrekaði að hann teldi hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan, í öðru lagi að það ætti að fara fram opin og lýðræðisleg umræða um ESB-málin í samfélaginu og í þriðja lagi að þjóðin ætti að ráða þessu máli til lykta.

Hvarvetna þar sem ég kom í kosningabaráttunni, sem var allvíða í mínu kjördæmi hér í Reykjavík, lét ég nákvæmlega þessa skoðun í ljós, þetta væri það sem ég vildi beita mér fyrir. Það er sannfæring mín að það sé best gert með því að þjóðin ráði því til lykta (Forseti hringir.) með því að hafa í höndunum samning sem ótvírætt segir hvað fylgi aðild og hvað ekki.