139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að þessi tillaga til þingsályktunar sé komin fram og til umræðu þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela hæstv. ráðherra að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Af hverju segi ég að eðlilegt sé að tillagan komi fram? Jú, vegna þess að þegar lögð var fram tillaga um að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu, sigldu ýmsir þeir sem töluðu fyrir þeirri tillögu og báru hana fram, fyrst og fremst fulltrúar stjórnarflokkanna, undir fölsku flaggi að mínu mati. Þeir gáfu í skyn að viðræðurnar, sem mundu eiga sér stað í kjölfar þess að tillagan yrði samþykkt, yrðu samningaviðræður í venjulegum skilningi þess orðs þar sem tveir jafnsettir aðilar kæmu saman og mundu semja sig að niðurstöðu í málinu.

Eftir að tillagan var samþykkt og viðræðurnar hófust hefur komið í ljós að engar samningaviðræður eiga sér stað á milli Íslands og Evrópusambandsins heldur aðlögunarviðræður. Þetta eru viðræður um hversu langan tíma íslensk stjórnsýsla og íslenska lagasetningarvaldið, Alþingi, ætla að taka sér í að laga íslenska löggjöf og íslenska stjórnsýslu að reglum Evrópusambandsins og stofnanakerfi þess.

Nú er þetta, sem margir höfðu haldið fram, loksins runnið upp fyrir sumum þeim sem greiddu tillögunni atkvæði sitt á þingi. Stuðningsmenn tillögunnar sem rædd var og samþykkt eru farnir að átta sig á að ekki er allt sem sýnist í þessu. Þeir sem töluðu fyrir því að Ísland sækti um aðild að Evrópsambandinu fóru ekki rétt með. Samningaviðræðurnar eru ekki samningaviðræður heldur aðildarviðræður.

Við höfum orðið vör við það, bæði hér í þingsalnum og sömuleiðis í þjóðfélaginu að viðhorfin gagnvart aðildarferlinu eru gjörbreytt. Og ekki síst innan þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem stór hluti þingflokksins setur sig upp á móti aðlögunarferlinu.

Í því sambandi er mikilvægt að halda því til haga að árið 1995 urðu verulegar breytingar á þessum málum innan Evrópusambandsins. Þá lauk þeirri stækkunarlotu sem staðið hafði um nokkurt skeið og leiddi til að Svíþjóð, Austurríki og Finnland gengu í Evrópusambandið en Norðmenn höfnuðu aðildarsamningi. Þær atkvæðagreiðslur áttu sér stað í kjölfar samningaviðræðna í eðlilegum skilningi þess orðs. Árið 1995 var haldinn fundur á vegum Evrópusambandsins í Madrid, tel ég að ég muni rétt, þar sem aðlögunarferlið var tekið upp. Af hverju var það gert? Jú, vegna þess að hin nýfrjálsu ríki Austur-Evrópu, gömlu kommúnistaríkin, sóttu mjög fast að komast inn í Evrópusambandið og verða partur af Vestur-Evrópu, lagahefð hennar og réttarríki.

Þessi ríki voru á þeim tíma miklu vanþróaðri en þau lönd sem áður höfðu sótt um aðild að Evrópusambandinu, eins og Svíþjóð, Noregur, Austurríki og Finnland. Vegna þessa ákvað Evrópusambandið á fundinum í Madrid 1995 að breyta reglum sínum. Í stað þess að hefja samningaviðræður við þau lönd sem óskuðu eftir aðild að sambandinu var tekið upp aðlögunarferli. Það felur í sér að ríki þurfa að laga sig að löggjöf og stjórnsýslu Evrópusambandsins áður en þau ganga inn í sambandið. Þannig var þetta ekki áður fyrr þegar eiginlegar samningaviðræður áttu sér stað.

Frá þessum tíma hefur það verið alveg ljóst frá sjónarhóli Evrópusambandsins, sem er auðvitað höfundurinn að ferlinu öllu, að ferlið snýst fyrst og fremst um aðlögun, þ.e. hvernig löndin geti aðlagast kröfum sambandsins á sviði stjórnsýslu og lagasetninga og hversu hratt. Það eru ekki við Íslendingar sem ákveðum hvernig aðildarferlið að Evrópusambandinu er, það er Evrópusambandið sjálft.

Í ljósi þessa er mjög einkennilegt að hlusta á íslenskan ráðamann eins og hæstv. utanríkisráðherra lýsa því yfir í morgunútvarpi Rásar 2 þann 25. október síðastliðinn að engin aðlögun sé í gangi. Þetta apar hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, upp eftir hæstv. utanríkisráðherra og segir að engin aðlögun sé í gangi. Ef hæstv. utanríkisráðherra og formaður utanríkismálanefndar eru þeirrar skoðunar að ekkert aðlögunarferli sé í gangi, legg ég til að þessum tveimur ágætu herramönnum verði flogið nú þegar til Brussel þar sem þeir geta tilkynnt Evrópusambandinu að Ísland sé ekki þátttakandi í aðlögunarviðræðum, því Evrópusambandið sjálft stendur í þeirri trú að slíkar aðlögunarviðræður séu í gangi.

Af hverju segi ég það? Vegna þess að Evrópusambandið sjálft er höfundurinn að aðlögunarferlinu og það kemur fram í öllum gögnum sem frá Evrópusambandinu koma að sæki ríki um aðild að Evrópusambandinu þurfi það að fara í slíka aðlögun. Þetta kemur t.d. fram í bæklingi sem ég er með hérna, Understanding Enlargement, sem Evrópusambandið gaf út. Formála ritar enginn annar en Olli Rehn, finnskur framsóknarmaður, sem var stækkunarstjóri Evrópusambandsins á árum áður. Í bæklingnum á bls. 9 segir, með leyfi forseta:

„First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading.“

Fyrst og fremst er mikilvægt að undirstrika að hugtakið samningaviðræður má misskilja. Svo er rakið í bæklingnum í hverju slíkar viðræður felast, þ.e. að um aðlögun sé að ræða. Hið sama má lesa af heimasíðu Evrópusambandsins þar sem ferlinu við inngöngu nýrra ríkja inn í sambandið er lýst. Þar segir, svo ég snari því nú á íslensku, að samningaviðræður eigi sér stað við hvert og eitt ríki og hraðinn ráðist af því hversu langan tíma hvert ríki þarf til að ráðast í úrbætur og aðlögun að Evrópurétti. Með leyfi forseta:

„Negotiations are conducted individually with each candidate country, and the pace depends on each country's pace of reforms and of alignment with the EU laws.“

Þetta er kjarni málsins. Hér er um aðlögunarviðræður að ræða en ekki eiginlegar samningaviðræður eins og við kjósum venjulega að tala um. Þetta er ástæðan fyrir því að tillagan er lögð fram, forsendur eru brostnar, sérstaklega hjá þeim sem greiddu tillögunni um að sækja um aðild að Evrópusambandinu atkvæði sitt. Þeir hafa áttað sig á að nú hafa forsendur gjörsamlega breyst. (Gripið fram í.) Gjörsamlega breyst.

Því er eðlilegt að mínu mati að þingið taki tillöguna til umfjöllunar og gefi þingmönnum tækifæri, nú þegar þetta liggur fyrir, að vega og meta hvort þingið eigi að breyta um stefnu (Forseti hringir.) varðandi Evrópusambandsmálin eða hvort rétt sé að senda hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson til Brussel til að tilkynna Evrópusambandinu að þær (Forseti hringir.) aðlögunarviðræður sem þeir telja sig vera í, séu ekki í gangi.