139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Fyrr í umræðunni í dag var minnst á það að þeir sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslu nú hefðu einfaldlega orðið undir í atkvæðagreiðslu í þinginu síðastliðið sumar og þetta væri örvæntingarfull aðferð hjá ESB-andstæðingum til að klekkja á stefnu sem réttilega hefði verið samþykkt á Alþingi. Ég benti á það í fyrri ræðu minni að margir teldu að um aðlögun væri að ræða en ekki aðildarviðræður.

Af því að minnst var á þessa atkvæðagreiðslu fyrir einu og hálfu ári langar mig að ræða þá atkvæðagreiðslu. Ég veit að þar voru margir, eða einhverjir, sem ekki vilja ganga í Evrópusambandið sem studdu það að sótt væri um aðild en þar var beitt þrýstingi. Það var beitt þrýstingi á báða bóga því að ég veit að margir, einhverjir, voru beittir þrýstingi að segja nei en sögðu hins vegar já hér í þingsal, þeir hinir sömu voru mjög sterkir einstaklingar.

Mig langar aðeins að rifja upp þessa atkvæðagreiðslu. Ég man eftir því, þegar ég ætlaði að taka þátt í að flytja breytingartillögu við Evrópusambandsumsóknina, um þjóðaratkvæðagreiðslu, að ég fékk þau skilaboð úr samstarfsflokki í ríkisstjórn að ef þetta yrði gert og ef þetta yrði samþykkt yrði ríkisstjórninni slitið, að ég væri með líf fyrstu vinstri stjórnarinnar í höndum mér. Þá var ég að koma inn nýr þingmaður og ég brást þannig við að ég fór út af þessu máli en studdi það hins vegar heils hugar og gekk hér úr þingsal. Þetta var ekki allt saman. Það var haldið áfram með sama hætti.

Daginn sem atkvæðagreiðslan var í þinginu var það enginn annar en hæstv. forsætisráðherra sem sat hér og kallaði hvern þingmann Vinstri grænna á fætur öðrum inn á teppið til sín og sagði þeim hinum sömu að ef þeir samþykktu það að fram færi tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla og það yrði samþykkt væri fyrsta vinstri stjórnin sprungin. Þá hlýtur maður að spyrja sig, þegar samið var um málið, að það færi inn í þingið, fengi lýðræðislega umfjöllun þar, hvort þetta sé mjög lýðræðislegt. SMS-sendingar áttu sér stað hér í þingsalnum meðan á atkvæðagreiðslunni stóð þar sem þingmenn Vinstri grænna voru látnir vita að ef málið yrði ekki samþykkt í þinginu væri fyrsta vinstri stjórnin fallin.

Þetta gekk meira að segja svo langt að einum hæstv. ráðherra, Jóni Bjarnasyni, sem hafði þegar ákveðið að styðja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og ætlaði ekki að styðja aðildarumsókn — og það hafði ekki gerst að ég held frá 1974 að ráðherra styddi ekki ríkisstjórnarmál — var tjáð, og hann getur ugglaust staðfest það sjálfur, að hann gæti átt á hættu að vera ekki lengur ráðherra í þessari ríkisstjórn, að ekki sé talað um ef atkvæði hans yrði til þess að þessi umsókn yrði ekki samþykkt.

Maður hlýtur því að velta því fyrir sér, þegar kemur tillaga eins og þessi, og menn tala um að ekki sé meiri hluti fyrir henni, hvort beita eigi sömu vinnubrögðum aftur. Maður hlýtur að velta því fyrir sér. Það yrði gríðarlega alvarlegt. Hins vegar hafa ákveðnir þættir breyst sem kann að verða í þá veru að menn muni greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni í þessu máli. Grasrót Vinstri grænna hefur risið upp á afturlappirnar. Það var málþing hér fyrir hálfum mánuði sem var algjör einstefna. Áskorun frá hundrað flokksmönnum, lykilfólki innan raða Vinstri grænna, formönnum svæðisfélaga, fyrrum alþingismönnum, varaþingmönnum, fyrrum ráðherrum, sveitarstjórnarfulltrúum, flokksráðsfulltrúum og fleirum.

Ég var á ágætum fundi fyrir ári í Noregi þar sem Kristín Halvorsen, formaður SV, fjallaði um málefni Evrópusambandsins. Hún sagði á þeim fundi — hún situr þar í ríkisstjórn með Senterpartiet, sem er systurflokkur Framsóknarflokksins, og Arbeiderpartiet, sem er systurflokkur Samfylkingarinnar — að það væri algerlega klárt af hennar hálfu að á þeim degi sem Arbeiderpartiet mundi gera kröfu um að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu væri þessi vinstri græna ríkisstjórn í Noregi fallin. Vegna þeirrar andstöðu sem nú er í grasrót Vinstri grænna kann að vera að slíkt andrúmsloft sé að myndast hér á landi. Ég vonast svo innilega til þess að menn láti þetta ekki (Forseti hringir.) þvælast fyrir sér með þessum hætti og tryggi að hver og einn þingmaður fái að greiða atkvæði (Forseti hringir.) án þess að eiga yfir höfði sér hótanir um stjórnarslit og annað því um líkt.