Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 16. nóvember 2010, kl. 15:34:22 (0)


139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað þau grunnrök í dómunum sem hv. þingmaður spyr um sem ég reifaði í framsöguræðunni, að dómstóllinn telur ekki að það sé hafið yfir vafa að um sjálfstæðan úrskurð dómstóls sé að ræða við upphaf slitameðferðar, heldur að mælt sé fyrir um hana með almennum hætti í lögum. Slíkt telur dómstóllinn ekki standast orðalag tilskipunarinnar og við viljum taka af allan vafa um að svo sé.

Ástæðan er mjög einföld. Hún er auðvitað sú að ef við verjum ekki þær eignir sem hér liggja undir og þá sérstaklega í tilviki Landsbanka Íslands veldur það gríðarlegri hættu fyrir þjóðarhagsmuni. Við höfum verið að horfa til þess að eignir í búi Landsbanka Íslands skipta máli fyrir endurheimtur til að standa undir Icesave-skuldbindingum og það skiptir auðvitað miklu máli að við gerum allt sem mögulegt er til að verja þessar eignir og koma í veg fyrir óvissu um þær eða ráðstöfunarheimildir á þeim.

Að öðru leyti skýrir málið sig sjálft, þ.e. það liggja engin önnur sjónarmið að baki, engin annarleg sjónarmið liggja að baki þessu frumvarpi. Það eina sem þarf að gera að okkar áliti er að taka af allan vafa í þessu efni. Það er ófært að búa við það að hægt verði að fara fram á kyrrsetningargerðir gagnvart afmörkuðum eignum þrotabúa bankanna og sérstaklega út frá þjóðarhagsmunum í tilviki Landsbanka Íslands.