Landsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 12:18:06 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem okkur gefst tækifæri til að fara yfir þessi lög en við gerum það núna. Ég held, sérstaklega í ljósi sögunnar, að öll skynsemisrök hnígi að því að við ættum að gera fleiri breytingar. Ég vil bera það undir hæstv. ráðherra hvaða skoðun hann hefur á því. Ég er þá að vísa í setningu sem er í lögum um bæði fyrirtækin og kom inn á elleftu stundu og hefur reynst Íslendingum ansi dýr. Setningin er á þann veg að tilgangur fyrirtækjanna sé að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Það þýðir að fyrirtækin hafa getað farið nákvæmlega í það sem þeim dettur í hug.

Landsvirkjun hefur að mestu sloppið við fjárfestingaævintýri en það sama er ekki hægt að segja um Orkuveitu Reykjavíkur. Eins og við þekkjum er búið að setja gríðarlega fjármuni í Línu Net. Síðan voru settar lægri upphæðir í alls konar dægurverkefni; það átti að setja 200–300 sumarbústaði við Úlfljótsvatn á kostnað Orkuveitunnar og nefna má ljósmyndabanka, risarækjueldi og ýmislegt annað. Þetta var allt gert á þeirri forsendu að þingið setti þessa setningu inn. Mér sýnist að ef hún væri tekin út ættum við að geta sloppið nokkurn veginn við slík ævintýri í framtíðinni. Ég vildi heyra sjónarmið ráðherrans hvað þetta varðar.