Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 14:15:26 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp sem er þess eðlis að það sem stendur hér, að ábyrgðargjald skuli svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, leiðir til þess að það skiptir eiginlega ekki máli fyrir viðkomandi fyrirtæki hvort það tekur lán á markaði eða nýtur ríkisábyrgðar. Þetta er jákvætt. Þetta mun væntanlega leiða til þess að lítið sem ekkert verður um ríkisábyrgðir.

Eftir stendur vandi sem ég ræddi í andsvari rétt áðan með ríkisábyrgð á innstæðum, sem eru að mínu mati ekki tryggðar nema í innlánstryggingarsjóðnum og hann er galtómur eftir þá útreið sem Icesave olli fyrri innlánstryggingarsjóði. Samkvæmt Evróputilskipunum, eftir því sem ég les þær, er í reynd ekki ríkisábyrgð á innstæðum almennt. Það er spurning hvort þetta mætti leysa þar sem maður heyrir dálítið í fólki og fólk er mismunandi hrætt, sumir treysta á að bankarnir hafi gott eigið fé. Eiginfjárkrafan er nokkuð sterk og Fjármálaeftirlitið á að gæta þess að ekkert komi fyrir, ekki aftur. En það eru alltaf einhverjir sem forða sér yfir í ríkisskuldabréf, þar er ríkisábyrgð og sú ábyrgð nær svo langt sem ríkið getur staðið við. Það vill nú svo til að skuldatryggingarálagið, sem er mælikvarði á það hversu langt ríkið getur staðið við skuldbindingar sínar, hefur farið lækkandi, þ.e. úti í heimi treysta menn ríkissjóði betur og betur, sem er jákvætt. En það er spurning hvort ríkissjóður mundi mæta þeim hópi fólks sem óttast að eitthvað komi fyrir bankana eða sinn banka með því að bjóða út ríkisábyrgðir, fái heimild í fjárlögum til þess að veita ríkisábyrgð fyrir segjum 100 milljarða — innstæður eru um 2.000 milljarðar — og þessir 100 milljarðar yrðu boðnir út í milljarðspökkum og eftir viðurkenndum útboðsleiðum. Ríkið gæti þannig fengið dágóðar tekjur með því að veita ríkisábyrgð með þessum hætti fyrir takmarkaða upphæð sem yrði þá 100 milljarðar. Þetta yrði boðið út og þeir bankar og þau fyrirtæki sem standa vel — það verður að gera kröfu um það — gætu fengið ríkisábyrgð, þar á meðal Landsvirkjun o.fl. Fyrirtæki sem standa vel gætu boðið í þessa pakka. Fyrst yrði boðinn út einn milljarður með ríkisábyrgð og menn bjóða í það og síðan eftir því sem eftirspurnin vex eða lækkar mundi verðið hækka eða lækka. Þannig mundum við hámarka tekjur skattgreiðenda eða ríkissjóðs af slíkri ríkisábyrgð og þeir aðilar, innlánseigendur, sem óttast um stöðu síns banka gætu keypt sér ríkisábyrgð á innlán sín og sætt sig við töluvert lægri vexti eftir því hvað ríkisábyrgðin kemur til með að kosta.

Þetta held ég að sé miklu betri þróun en sú að einstaklingar flýi yfir í ríkisskuldabréf sem eru oft miklu stærri einingar, það er óhönduglegra, því fylgir áhætta, áhrif vaxta á gengi o.s.frv. Menn gætu náttúrlega farið í ríkisvíxla en þetta eru allt mikil umsvif. Það væri miklu betra ef bankarnir gætu boðið reikninga sem væru með ákveðinni ríkisábyrgð. Þeir gætu boðið fyrir það t.d. 1%, ég hugsa að það færi jafnvel upp í það. Þá mundi ríkissjóður fá miklu meiri tekjur af svoleiðis sölu og þeir sparifjáreigendur sem eru uggandi gætu fengið það öryggi sem þeir sækjast eftir.

Ég vildi gjarnan skoða þetta og að í hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar verði þetta skoðað og um leið reynt að meta hvaða áhrif þetta gæti haft á tekjur ríkissjóðs strax á næsta ári þar sem ekki er vanþörf á að afla tekna þar. Þarna væri ríkið í rauninni að veita traust og sparifjáreigendur að kaupa traust.