Ríkisábyrgðir

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 14:20:12 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ríkisábyrgðir.

187. mál
[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara aðeins gera þá athugasemd eða minna á að annars vegar erum við að tala um fyrirkomulag hefðbundinna ríkisábyrgða eins og gengið er frá þeim í lögum um ríkisábyrgðir og gjald fyrir þær og hvernig því er fyrir komið. Það er svo sem hægt að hugsa sér ýmislegt fyrirkomulag í þeim efnum en grundvöllur þessa máls er algjörlega skýr, það á bara að reikna gjaldið út frá þeim mun sem sannarlega er þá á lánskjörum í skjóli ríkisábyrgðarinnar og jafna hann upp með gjaldtökunni þannig að í því felist ekki samkeppnisbjögun, að fyrirtækið er í eigu þess sem raun ber vitni og að eigandinn veitir þessar ábyrgðir á lánunum.

Hins vegar er svo öll hin umræðan um fjármálakerfið og tryggingar innstæðna og spurningar um beina eða óbeina bakábyrgð ríkja þegar fjármálakreppur verða og menn sjá ekki fært að láta fjármálakerfin öllsömul fara á hliðina. Veruleikinn er þá sá að víðast hvar hafa menn gripið til einhvers konar aðgerða annaðhvort til reyna að bjarga fjármálastofnunum og verja þær falli og/eða að takast á við það ástand sem hlýst af því að einhverjar þeirra komist í þrot. Lönd hafa farið þar mismunandi leiðir eins og kunnugt er og þarf ekki annað en nefna stöðuna á Írlandi í dag og mætti telja þar og tilgreina þar fleiri.

Innstæðutryggingarfyrirkomulagið er í endurskoðun og er að breytast og þar stefnir í að fjárhæðarmörkin, þær lágmarksfjárhæðir sem eiga að vera tryggðar í bönkum og sparisjóðum og öðrum innlánsstofnunum verði til muna hærri en þær hafa verið fram að þessu, eða 100 þúsund evrur í staðinn fyrir hinar frægu 20.887. Norðmenn eru með enn hærri mörk, 250 þúsund evrur, ef ég veit, og eru að reyna að fá Evrópusambandið til að fallast á að þeir megi viðhalda þeirri háu tryggingu á innstæðum. Við erum væntanlega (Forseti hringir.) samningsbundin til að elta þessi fjárhæðarmörk innan tilskilins aðlögunartíma upp á við og fjármálastofnanirnar greiða sjálfar þau gjöld sem til þess fara. Þetta mál er auðvitað algjörlega óskylt ríkisábyrgðum sem slíkum eða hinum pólitíska veruleika sem upp kemur í fjármálakreppum og hvað ríki (Forseti hringir.) gera til að verja kerfin falli.