Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 15:14:13 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ákaflega brýnt að öryrkjar og aldraðir, lífeyrisþegar í þessu landi, njóti sömu kjarabóta og aðrir hópar. Sannarlega hafa nær allir hópar orðið fyrir kaupmáttarskerðingu en sumir hafa fengið einhverjar hækkanir og ég held að við getum ekki bara horft til þeirra kjarasamninga sem nú eru fram undan, heldur hljótum við líka að skoða með hvaða hætti kjaraþróun hefur verið frá hruni hjá öðrum hópum og þá auðvitað líka að skoða aðrar millifærslur. Það sker nokkuð í augu að ekki eru allar millifærslur frystar eða lækkaðar, heldur eru dæmi um millifærslur í fjárlagafrumvarpinu nú annað árið í röð sem öndvert við allar aðrar millifærslur taka hækkunum.

Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann telji ekki að hér eigi allir hópar að sitja við sama borð.