Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 15:59:37 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að meginmarkmiðið núna ætti að vera að skapa atvinnu, atvinnu, atvinnu. Það þýðir að fólk mundi haldast í landinu, það sem núna flytur til Noregs, Svíþjóðar og annarra landa, okkar kannski menntaðasta fólk oft og tíðum. Við fengjum skatta af því eftir eitt eða tvö ár þegar atvinnulífið er komið í gang. Skattlagning út úr kreppu er eiginlega það versta sem menn gera. Menn geta búið til spíral þar sem þeir fara alltaf lengra og lengra ofan í stöðnun, stöðnun vegna þess að menn tala um það sem draumaveröld að hér sé atvinna handa fólki. Það er að sjálfsögðu ekki draumaveröld en það er búið að benda á nokkra leiðir, ég gerði það í andsvari mínu áðan. Landsvirkjun, séreignarsparnaðurinn og ýmsar eignir sem ríkið á. Ríkið getur t.d. farið að virkja á fullu. Það er ekki gert. Kvótinn er heldur ekki aukinn. Það er búið að benda á allar þessar leiðir en það er ekkert hlustað á þetta og menn fara lengra og lengra beint í stöðnun.