Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 17:19:16 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Síðastliðið haust, um þetta leyti, benti ég á að verið væri að flækja skattkerfið óhemjumikið. Bara orkuskattarnir — sturtuskatturinn er greiddur í hverjum mánuði. Ég kíkti á einhvern mánuðinn hjá mér á heimili mínu, þá borgaði ég 63 kr. í orkuskatt, annars vegar fyrir rafmagnið og hins vegar man ég ekki hvort það var 92 kr. í heita vatnið. Heimili mitt borgar sem sagt tvær upphæðir í orkuskatt í þessum eina mánuði. Það eru 120 þúsund heimili í landinu. Þá getur maður ímyndað sér hvaða gagnaflóð er í gangi. Í rauninni ætti að athuga hvert einasta gjald, hvort það sé rétt reiknað.

Það er búið að flækja skattkerfið óhemjumikið, t.d. bara persónuskattana. Það er orðið mikið vandamál að reikna út hvað menn borga í tekjuskatt eða staðgreiðslu vegna þess að það er búið að flækja það, það er viðhorfið aðallega. Þegar menn lesa athugasemdir frá hæstv. fjármálaráðherra um að þeir hafi nú ekki séð allt enn þá — á ensku meira að segja svo útlendingar skilji það nú fullkomlega — og horfa svo á þróun t.d. fjármagnstekjuskattsins, 10, 15, 18, 20% er það eins og hreyfimynd og hún virðist ekki ætla að stoppa. Hvar ætla menn að stoppa í fjármagnstekjuskattinum? Það er það sem grefur undan trausti, fyrir utan það hvernig menn hafa meðhöndlað einstaka fjárfesta eins og Magma og fleiri og hvernig menn hafa meðhöndlað kröfuhafa í sambandi við Sparisjóðabankann, Icebank, og öll þau gjaldþrot sem orðið hafa þar sem mjög mikið er kvartað undan viðhorfum og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar.

Ég tel að það sé stórhættulegt sem verið er að gera gagnvart erlendum fjárfestum. Þeir hafa tapað óhemjufé. Það þarf að byggja upp traust þeirra aftur. Það er ekki verið að gera það, engan veginn.