Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 18. nóvember 2010, kl. 18:12:07 (0)


139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[18:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef við gerumst bjartsýn og lofum okkur að trúa því að hagkerfið hafi vaxið á þriðja ársfjórðungi munar nú ekki miklu að það sé staðfest í formúluna að menn geti yfirleitt gert sér vonir um að viðsnúningur eftir svona kreppur verði á kannski einu og hálfu til tveimur og hálfu ári. Og þá verður maður kannski aðeins að muna hvað gerðist á Íslandi. Það er ekki eins og það sé hversdagslegur viðburður að land lendi í þvílíkum ósköpum og hér gerðust. Til hvers horfa menn m.a. þegar þeir reyna að mæla það hvort árangur sé að nást í glímu við erfiðleika af þessu tagi? Menn horfa á trúverðugleika ríkisfjármálanna. Ég held að þeir sem tala niður eða finna allt til foráttu þeim aðgerðum sem hér er verið að reyna að fara með í gegn ættu aðeins að velta því fyrir sér. Þetta er kannski sá mælikvarði sem skiptir hvað mestu þegar við erum metin út í frá: Erum við að ná tökum á hinum opinberu fjármálum og komast út úr hallarekstri og skuldasöfnun? Svarið er já. Við erum að ná miklum árangri í þeim efnum og höfum þegar gert það. (Forseti hringir.) Takist okkur í grófum dráttum að landa því sem hér er undir er Ísland komið mjög langa leið og komið í miklu betri stöðu hvað það varðar að ná tökum á hallarekstri (Forseti hringir.) t.d. ríkisins en fjölmörg Evrópuríki.