Ný Vestmannaeyjaferja

Mánudaginn 22. nóvember 2010, kl. 17:49:23 (0)


139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:49]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg rétt sem fram kom við umræðuna, við megum ekki fara fram úr okkur í þessu máli. Á næstu mánuðum þurfum við að sjá hver framvindan verður og taka ákvörðun í ljósi hennar. Við skulum hafa í huga að við erum að tala um umtalsverðar fjárhæðir og í samanburðarskyni kostar ferja í kringum 4 milljarða kr. Stofnframkvæmdir í vegakerfinu eru núna á ári um 6 milljarðar kr. Þetta eru stærðarhlutföllin og við skulum hafa þau í huga og stíga varlega til jarðar Við skulum læra af reynslunni á næstu mánuðum — (EyH: 4 milljarðar kr. deilt í 20 ár.) Það eru 4 milljarðar kr. sem við erum að tala um þar og við erum að tala um stofnframkvæmdir í vegakerfinu upp á u.þ.b. 6 milljarða kr. á ári, kannski rúmlega. Það er hollt að hafa þessar stærðir í huga þegar við setjum fram kröfur um fjárfestingar.

Ég er alveg sammála þeim meginsjónarmiðum sem hér koma fram, (UBK: Hvenær …?) við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að gera eins gott úr þessu og mögulegt er og tryggja sem bestar samgöngur við Vestmannaeyjar úr Landeyjahöfn. Ég er á því. Varðandi tímasetningu á nefndina hef ég hreinlega ekki ákveðið það, en vænti þess að því starfi verði ýtt úr vör á fyrri hluta næsta árs.