Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 23. nóvember 2010, kl. 16:37:19 (0)


139. löggjafarþing — 33. fundur,  23. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[16:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það kom fram í ræðu hans að hann hefði skilning á því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á, þ.e. að það væri ekki í raun sama hvort menn væru að tala um landsbyggðina eða höfuðborgarsvæðið. Ég hjó hins vegar líka eftir því, sem er alveg rétt og ég vil taka fram að ég er ekki á móti því, alls ekki, að við reynum að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og eigum að taka okkur á í því. Það er alveg ljóst, hvort sem um er að ræða bíla, fiskiskip eða annað. En þetta verður samt að vera raunhæft og þetta verður að vera sanngjarnt og framkvæmanlegt. Það er því ekki hægt að mínu viti, frú forseti, að segja að maður hafa skilning á því að það gildi kannski aðrir hlutir um landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið og vísa í það að brátt verði hægt að breyta bensín- eða dísilbílum í metanbíla. Það er því miður enn þá mjög langt í að það sé t.d. hægt, ef við tökum einhver dæmi, lengst úti á Langanesi eða í Norðurfirði á Ströndum eða jafnvel bara hreinlega úti á Skagatá. Þetta er ekki svona einfalt. Það eru stór svæði á landinu þar sem fólk býr sem hefur ekki um annan kost að velja en vera á bílum sem eyða meiru en smábílar.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn þá þeirrar skoðunar að það geti verið eðlilegt að mismuna í rauninni landshlutum með þessum hætti þar sem hreinlega náttúrulegar aðstæður, íslenskt veðurfar og þetta land okkar, kalla á slíka mismunun. (Forseti hringir.) Þetta er ekki það sama að vera á Íslandi og í Belgíu eða eitthvað slíkt.