Orkuveita Reykjavíkur

Miðvikudaginn 24. nóvember 2010, kl. 16:03:23 (0)


139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

Orkuveita Reykjavíkur.

205. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lenti í ákveðinni mótsögn við sjálfan sig þegar hann sagði að ábyrgðarsalan gæti orðið vaxandi tekjustofn hjá Reykjavíkurborg vegna þess að hann sagði jafnframt að fyrirtækið mundi fara meira út á markað og jafnvel ekki nota ábyrgðina þegar um er að ræða álag sem á að jafna þann mun sem er á markaðsvöxtum og því að vera með borgarábyrgð. Ég held nefnilega að þessi tekjustofn, þ.e. þetta ábyrgðargjald, muni hverfa. En auðvitað gæti Reykjavíkurborg, ef henni sýnist svo, farið að stunda ábyrgðarverslun og veitt t.d. Magma Energy borgarábyrgð. Það gæti örugglega gefið ágætlega af sér og er sennilega alveg jafnöruggt og ábyrgð til Orkuveitunnar. Menn gætu þannig farið að selja borgarábyrgð út um allt en ég tel það nú ekki vera gott hlutskipti fyrir borg að gera slíkt og legg það ekki til. Í rauninni er það þannig í dag að Reykjavíkurborg veitir borgarábyrgð til orkuframleiðslufyrirtækis sem heitir Orkuveita Reykjavíkur og ætti náttúrlega, eins og hv. þingmaður benti á, að breyta í ohf. — opinbert hlutafélag. Svo mætti selja það.