Greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

Mánudaginn 29. nóvember 2010, kl. 17:21:30 (0)


139. löggjafarþing — 38. fundur,  29. nóv. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga o.fl.

152. mál
[17:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé á því nefndaráliti sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur mælt hér fyrir að undir það rita fulltrúar allra flokka fyrirvaralaust sem þýðir að góð sátt hefur náðst um afgreiðslu málsins í nefndinni, sem er gott, en málið varðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga meðal annars.

Nú vill svo til að fyrir skömmu féll dómur í Hæstarétti sem sneri að ábyrgðarmönnum og heimildum kröfuhafa til þess að ganga að ábyrgðarmanni aðalskuldara sem leitað hafði eftir greiðsluaðlögun. Dómurinn hafði a.m.k. þau áhrif að umboðsmaður skuldara sendi frá sér tilkynningu þess efnis að lög um greiðsluaðlögun væru nú, eftir að dómurinn féll, komin í uppnám.

Ég verð að játa að ég hef ekki lesið þetta frumvarp saman við dóm Hæstaréttar varðandi mál ábyrgðarmanna. En mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort þessi hæstaréttardómur hafi einhver áhrif á ákvæði þessa frumvarps og hvort taka þurfi tillit til niðurstöðu Hæstaréttar í því máli við meðferð þessa máls og þá hvernig það verði gert, hvort málið verði tekið til nefndar á milli 2. og 3. umr. eða hvernig hyggst hv. þingmaður sem formaður nefndarinnar taka á því máli?