Skortur á heimilislæknum -- gagnaver -- efnahagsspár o.fl.

Þriðjudaginn 07. desember 2010, kl. 14:20:44 (0)


139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:20]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég er því miður ekki þjakaður af Pollýönnu-heilkenni sumra hér inni en leyfi mér að tæpa á því sem mikilvægt er. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson í síðdegisútvarpi Rásar 2 föstudaginn 3. desember, viðtali sem var tekið í tilefni nýjasta útspils ríkisstjórnarinnar í skuldavanda heimilanna, að ekki væri hægt að tala lengur um réttlæti eða jöfnuð. Orðrétt sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Ég held að í þessu skelfilega hruni sem þjóðin varð fyrir þá sé aldrei hægt að tala um neinn jöfnuð eða réttlæti. Ég held bara að við stöndum frammi fyrir því.“

Frú forseti. Það hlýtur að vera einsdæmi að forsætisráðherra þjóðar eða hvaða æðsti ráðamaður sem er lýsi því yfir að ekki sé hægt að tala um réttlæti til handa fólkinu í landinu og segi einfaldlega beint að ekki sé hægt að tala um jöfnuð eða réttlæti. Hér talar forsætisráðherra Íslands og formaður hins svokallaða jafnaðarmannaflokks sem heitir Samfylkingin. Það er greinilegt að ríkisstjórnin með forsætisráðherra í broddi fylkingar hefur gefist upp við að stjórna landinu, gefist upp fyrir sumum fjármálaöflum og sömu embættismönnum og keyrðu hér allt í þrot fyrir rúmum tveimur árum. Ríkisstjórn og forsætisráðherra sem neitar þjóð sinni um réttlæti á að sjálfsögðu ekki að vera við völd deginum lengur. Þó að þingmenn í þingsal hafi ekki dug í sér til að víkja þessu fólki frá vona ég svo sannarlega að almenningur láti sér ekki segjast og hafni því að fá ekki að búa í réttlátu samfélagi.

Hér er við völd vanhæft fólk sem nær ekki að sinna þeirri grundvallarskyldu sinni að viðhalda réttlæti undir sinni stjórn. Það á að fara frá, og það strax.