Fjárlög 2011

Miðvikudaginn 08. desember 2010, kl. 17:32:30 (0)


139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:32]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það. Við þurfum að setja okkur skýr markmið og átta okkur á því að það er ekki hægt að gefa því endalausan tíma að sjá árangur af samrunaferli og sameiningu háskóla. Þess vegna er það mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðherra hefur forgangsraðað þannig að það fari 300 milljónir kr. í samstarfsnet opinberu háskólanna á næstu tveimur árum. Það á að tryggja að það skili raunverulegum árangri inn á þetta tímabil, reyndar helst miklu fyrr. Ég tel að það þurfi líka að setja kraft í að fá einkaskólana til þess að stíga ákveðin skref í því efni. Því miður hefur flosnað upp úr tilraunum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst að sameinast, en það er von mín að þar verði tekinn upp þráður fyrr en síðan. Síðan þarf að hugsa skólana á landsbyggðinni inn í þessi net, bæði samstarf opinberu háskólanna og samstarf (Forseti hringir.) einkaaðila. Þannig endum við með markvissari og kröftugri háskólastarfsemi í landinu en raun ber vitni í dag.