Fjárlög 2011

Miðvikudaginn 08. desember 2010, kl. 18:28:23 (0)


139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessi orð. Það eru náttúrlega heiftarleg átök í fjárlaganefnd um skiptingu safnliða, ótrúleg átök. Grínlaust þigg ég þetta boð með þökkum, ég geri ráð fyrir því að við munum ræða þessar tillögur sjálfstæðismanna milli 2. og 3. umr. jafnhliða öðrum tillögum sem koma frá ríkisstjórn inn á borð fjárlaganefndar. Umræðu um fjárlög ríkisins er ekki lokið, við erum hér einungis við 2. umr. um fjárlögin og 3. umr. er eftir.

Í ljósi yfirlýsinga varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, um þann ramma sem búið er að draga, ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hann hafi sagt að að sínu mati væri búið að draga línu í sandinn, einhvern veginn þannig, að til frekari útgjalda mundi ekki koma en orðið væri í þeim tillögum sem hér lægju fyrir. Ég held að megininntakið í því sem hv. þingmaður sagði hafi verið þetta. Þá liggur fyrir að ýmis óafgreidd mál eru eftir sem ég nefndi í framsöguræðu minni, t.d. um úrlausn í skuldamálum heimilanna, Íbúðalánasjóður og svo þetta makalausa Icesave-mál sem ætlar að hanga yfir landsmönnum eins og mara. Aðrir þættir eiga eftir að koma, og ber að skilja orð hv. varaformanns nefndarinnar þannig að varðandi þessi atriði sem ég nefndi komi ekki til frekari útgjalda fyrir 3. umr. frá fjárlaganefnd? Ég held að það sé mjög mikils um vert að fá svör hv. þingmanns við því.