Fjárlög 2011

Fimmtudaginn 09. desember 2010, kl. 14:58:59 (0)


139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þegar breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu voru kynntar fyrir okkur í menntamálanefnd var talað um að verið væri að gera umfangsmiklar breytingar á þeirri stofnun sem ætti að hafa eftirlit með fjölmiðlum. Þegar við fórum hins vegar að lesa frumvarpið betur kom í ljós að þessar umfangsmiklu breytingar fólust fyrst og fremst í því að nafninu var breytt úr Fjölmiðlastofu í fjölmiðlanefnd. Að öðru leyti breyttist ekki stafur í frumvarpinu um verkefni stofunnar.

Þetta finnst mér mjög ámælisverð vinnubrögð. Frumvarpið er illa unnið, illa skrifað og ég er mjög ósátt við það. Ég tel að þau verkefni sem hugsanlega væri hægt að fela Fjölmiðlastofu gætu fallið vel undir Póst- og fjarskiptastofnun og þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að sjá að hér leggjum við til að skera niður framlag til Póst- og fjarskiptastofnunar. Við vitum öll hvernig staðan er á íslenskum fjölmiðlum í dag, þeir mega ekki við því að fá á sig aukakostnað frá (Forseti hringir.) ríkisvaldinu. Þvert á móti eigum við að byggja upp sterkan og öflugan fjölmiðlamarkað sem fjórða valdið.