Fjárlög 2011

Fimmtudaginn 16. desember 2010, kl. 11:29:02 (0)


139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:29]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Stefnumótun ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi ársins 2011 er í molum og hér sannast hið fornkveðna um að aldrei hafi þjóð sem lotið hefur tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum komið undan því öðruvísi en með gríðarlega slæmum afleiðingum fyrir allan þorra almennings. Það sorglega er að hjá slíkum þjóðum hefur samt aldrei skort stjórnmálamenn sem eru tilbúnir að framfylgja stefnu sjóðsins. Hér á landi eru það þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar. Hreyfingin hefur ávallt lagt til að staða ríkissjóðs verði bætt með tekjum frá þeim sem nýta auðlindir þjóðarinnar en ekki með aukinni skattbyrði á almenning. Á það hefur ekki verið hlustað hjá þessari ríkisstjórn, ekki frekar en hjá fyrri ríkisstjórnum þessarar þjóðar sem oftar en ekki létu sérhagsmuni ráða ferðinni.