Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 13:52:09 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[13:52]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við stöndum í dag og um þessar mundir á ákveðnum tímamótum sem ég tel mikilvægt að taka tillit til og fagna. Við erum að flytja afar jákvætt mál í þinginu, við erum að stíga skref í átt til réttindabóta, við erum að bæta mannréttindi, við erum að flytja þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna og gera þjónustu við þá einstaklinga að nærþjónustu eins og við höfum hingað til talið eðlilegt fyrir aðra sem búa í sveitarfélögunum. Þetta tel ég afar mikilvægt og stórmerkilegt skref.

Það samkomulag sem liggur fyrir milli sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um flutninginn og þá fjármuni sem fylgja er gott samkomulag og ég held að báðir aðilar geti vel við unað. Ég tel að sveitarfélögin eigi eftir að njóta góðs af þessu samkomulagi og ekki minnst þeir sem þjónustunnar munu njóta, þ.e. það fatlaða fólk sem lögin ná til. Það er mikilvægt að vel takist til því að í sömu andránni og við ræðum þetta mál erum við líka að velta fyrir okkur að í næsta skrefi verði annar þáttur þjónustu við fólk, þ.e. þjónusta við aldrað fólk, einnig fluttur til sveitarfélaganna. Það er næsta skref og þess vegna er mikilvægt að núna takist vel til.

Það samstarf sem tókst í hv. félags- og tryggingamálanefnd þingsins er til sannkallaðrar fyrirmyndar. Það sést á ræðum nefndarmanna, þ.e. að nefndarmenn hafa ákveðið að taka fyrir tiltekna liði hver og einn þannig að málið allt fái umfjöllun. Ég mun nú snúa mér að þeim liðum sem ég ætla sérstaklega að taka til umfjöllunar.

Nokkuð var fjallað um þjónustusamninga og starfsleyfi í nefndinni. Það eru atriði sem fjallað er um í 7. gr. frumvarpsins. Nefndin leggur til vegna þeirrar umræðu sem fram fór í nefndinni að gerðar verði nokkrar breytingar á 7. gr. frumvarpsins en þar er sérstaklega fjallað um það með hvaða hætti starfsleyfi eru veitt til handa félagasamtökum, sjálfseignarstofnunum og einkaaðilum sem vilja taka við rekstri eða sjá um rekstur á þjónustu þar sem fötluðum einstaklingum er sinnt. Þær breytingar sem nefndin leggur til á þessari grein koma fram í 9. og 10. tölulið breytingartillagna frá nefndinni á þskj. 551. Nefndin telur mikilvægt að á eftir orðunum „er heimilt að veita starfsleyfi“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. að það verði lögð til grundvallar einhver tiltekin skilyrði til að starfsleyfi fáist. Og í 10. tölulið er lagt til eftirfarandi sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum þessum.“

Þetta telur nefndin vera afar mikilvægt vegna þess að þarna er samkvæmt orðanna hljóðan leitast við að beina hugsunarhættinum inn á þær brautir að fatlað fólk sé eins og hvert annað fólk í samfélaginu og það eigi fremur að heyra til undantekninga að sú þjónusta sem samfélagið veitir líti til þessara einstaklinga sem eitthvað öðruvísi en fólks almennt og að leitast eigi við að lög sem fjalla um almennan rétt og almenna þjónustu við borgarana nái einnig yfir fatlaða einstaklinga.

Í nefndinni var líka fjallað töluvert um ákvæði sem fram koma í nokkrum greinum frumvarpsins, um að ráðherra setji svokallaðar leiðbeinandi reglur. Það komu athugasemdir frá m.a. fulltrúum sveitarfélaganna annars vegar um að þarna væri seilst of langt í forræðishyggju ráðuneytisins og hins vegar að þarna væri settur of víður rammi í anda málamiðlana. Og í þeim anda að reyna að ná farsælli lendingu gerir nefndin eftirfarandi breytingu á 16. gr. frumvarpsins, þ.e. b-liður breytingartillögunnar sem ég les, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja.“

Aðeins til skýringar þá er þetta ákvæði sett þarna inn til að ná betra utanumhaldi um að það sé samræmi á milli þeirra ákvæða frumvarpsins sem fjalla um leiðbeinandi reglur.

Frá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks komu fram áhyggjur um dagvistun fatlaðra ungmenna. Nefndin hefur verið fullvissuð um í samtölum sínum við fjölmarga gesti, bæði frá ráðuneyti félagsmála sem og fulltrúum sveitarfélaganna, að sú dagþjónusta sem í dag er við fötluð ungmenni muni starfa áfram. Engar forsendur eru til þess, hvorki í þessum flutningi né í lögunum, að sú þjónusta eigi að breytast á nokkurn hátt nema ef vera skyldi að sveitarfélög á þeim svæðum þar sem slík þjónusta hefur ekki verið vildu taka hana upp og væri það vissulega vel og ekki mikið yfir því að kvarta nema síður sé.

Nefndin talaði um verkefni svæðisskrifstofanna og með hvaða hætti þau falla í rauninni niður og flytjast yfir til félagsþjónustu sveitarfélaganna í flestum tilfellum, en hluti af verkefnum svæðisskrifstofanna verður eftir flutninginn hjá hinum svokölluðu þjónusturáðum. Þau hafa nú verið skipuð a.m.k. á nokkrum þjónustusvæðum og nefndin væntir þess að þessi ráð verði hluti af eftirlitskerfi sveitarfélaganna með þjónustunni og nefndin mun vissulega og væntanlega ráðuneytið einnig ganga eftir að það haldi.

Til að þétta starfsemi þjónusturáðanna gerir nefndin breytingartillögu, sem er 6. töluliður breytingartillagnanna, við 4. gr. sem ég ætla ekki að lesa, enda er hún allítarleg en ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta ákvæði. Það er mikilvægt og snýr að réttindum fatlaðra einstaklinga.

Nokkuð var rætt um ferðaþjónustu fatlaðra einstaklinga í starfi nefndarinnar. Þar var m.a. komið inn á það að sú þjónusta sé ekki í dag samræmd á milli sveitarfélaga. Nefndin ræddi einnig þau sjónarmið sem hagsmunasamtök fatlaðra einstaklinga hafa talað fyrir, þ.e. að notendur ættu að greiða fyrir þessa þjónustu eins og um almenningssamgöngur væri að ræða. Því er beint til ráðuneytisins m.a. við setningu leiðbeinandi reglna að slík ákvæði verði nefnd þar.

Um húsnæðismál varð töluvert mikil umræða, þ.e. með hvaða hætti þeim yrði hagað hér eftir, og kannski ekki síst um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Nefndin fékk staðfestingu á því hjá fulltrúum ráðuneytisins og sveitarfélaganna að inni í þeirri útsvarsprósentu sem flyst yfir til sveitarfélaganna þegar málaflokkurinn verður fluttur sé gert ráð fyrir þeim framlögum sem hingað til hafa runnið í framkvæmdasjóðinn. Hluti þessara framlaga rennur nú í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þar er gert ráð fyrir að þessum málum verði sinnt. Það er mikilvægt í þessu sambandi að fram komi að nefndin ræddi ítarlega um það að þarna væru ekki alveg allir endar hnýttir og þetta er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem stýrihópur um flutninginn á vegum heilbrigðisráðuneytisins mun þurfa að fylgjast með og gaumgæfa á komandi ári og árum.

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni hve góð samstaða hefur náðst í þessum viðkvæma málaflokki innan nefndarinnar og full ástæða til að taka undir þær þakkir sem hafa verið fluttar í dag til nefndarformanns og allra nefndarmanna. Samstaðan hefur verið mikil í nefndinni. Hver einasti nefndarmaður hefur sett sín fingraför, ef svo má orða það, á frumvarpið og nefndarálitið og má segja að hvert einasta orð í nefndarálitinu sem og hver einasta grein og breytingartillaga hafi verið gaumgæfð af hverjum einasta nefndarmanni og í góðri sátt. Hér er um að ræða mikla réttarbót fyrir fatlað fólk og nú er það sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna, samtaka fatlaðs fólks, ráðuneytisins og þingsins að tryggja að næstu missiri verði framfaraskeið fyrir málaflokkinn fötluðum einstaklingum og samfélaginu öllu til heilla.