Málefni fatlaðra

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 14:15:42 (0)


139. löggjafarþing — 51. fundur,  17. des. 2010.

málefni fatlaðra.

256. mál
[14:15]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að ljúka lofsorði á vinnu félags- og tryggingamálanefndar í þessu máli sem hafði ekki mikinn tíma til verksins en hefur unnið þarft og gott verk við lagabreytingar til að tryggja yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.

Mig langar líka að nota tækifærið til að hrósa hæstv. félagsmálaráðherra fyrir aðkomu hans að þessu máli sem hefur verið til fyrirmyndar í viðkvæmum en merkum málaflokki.

Hér er stigið mikið heillaspor að mati þess sem hér stendur. Málefni fatlaðra eru í eðli sínu nærþjónusta og eiga heima í héraði. Það er mikill áfangi í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks að þessum áfanga sé nú náð.

Saga fatlaðs fólks á Íslandi, rétt eins og í nágrannalöndum okkar, hefur verið þyrnum stráð á undanliðnum áratugum og öldum og þarf reyndar að skrá hana til hlítar því að hún er vægast sagt dramatísk á köflum. Sá sem hér stendur ólst upp við aðskilnað fatlaðs fólks og þeirra hinna sem telja sig til heilbrigðs hluta samfélagsins. Sá sem hér stendur man eftir Sólborg þar sem fatlað fólk og þroskahamlað var geymt á stofnun sem þá var í útjaðri bæjarins og sá sem hér stendur man jafnframt eftir kvörtunum verslunarmanna sem vildu ekki að þetta fólk sæist á ferli á meðal almennings. Höfðu þeir uppi kvartanir vegna þess að verið væri að fara í gönguferðir með þetta fólk niður í bæ. Það gerist á líftíma mínum og er ég þó ekki orðinn gamall maður en það er e.t.v. til marks um þær gríðarlegu breytingar sem orðið hafa á viðhorfi fólks til fatlaðra einstaklinga á undanförnum árum og áratugum.

Breytingar í þessum málaflokki hafa verið miklar á undanliðnum árum og eru enn að taka breytingum sem fela í sér miklar mannréttindabætur til handa fötluðum einstaklingum. Ef við horfum bara til síðustu örfárra ára er merkilegt hvað hefur í sjálfu sér áunnist. Sólborg á Akureyri var nefnd sem dæmi um þjónustuúrræði fyrir nokkrum árum þar sem þroskahömluðum einstaklingum var komið fyrir á einu og sama heimilinu eins og þeir ættu að geta sammælst um eina ríkisþjónustu sem ætti við um alla einstaklinga þvert á þarfir sem þar voru á þeim tíma. Þar áður voru fatlaðir og þroskahamlaðir einstaklingar einfaldlega geymdir á bak við rimla á þar til bærum hælum fyrir fávita, eins og það hét samkvæmt ríkisviljanum á þeim tíma. Lög um fávitastofnanir Íslands voru þá við lýði.

Hvað búsetuúrræðin á síðustu árum varðar eftir að fatlað og þroskahamlað fólk var leitt úr fjötrum sínum og komst blessunarlega út í samfélagið hefur sá hluti af þjónustu við fatlaða breyst gífurlega. Nú er svo komið að fatlað fólk býr eins víða í samfélaginu og hver annar og er það vel. En það þarf ekki að fara nema 10–15 ár aftur í tímann til að finna tillögur um úrræði eins og hjá þáverandi félagsmálaráðherra sem benti á laust húsnæði úti í Hrísey fyrir fatlað fólk af höfuðborgarsvæðinu þar sem það gæti búið, ungt fatlað fólk. Fyrir aðeins 10–15 árum voru slík gripaúrræði, með leyfi frú forseta, til tals í þessu samfélagi. Það er ekki lengra síðan.

Þess vegna fagna ég þessum einum merkasta áfanga í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks alveg sérstaklega og kem upp til að ljúka lofsorði á vinnu félags- og tryggingamálanefndar vegna þessa máls og hún hafði í sjálfu sér ekki mikinn tíma til verksins. Því miður var það svo að þessi málaflokkur kom heldur seint inn til þings og þurfti að hafa hraðar hendur en mér sýnist að nefndin hafi unnið málið í þaula og lagt gríðarlega mikið á sig til að ná viðeigandi sáttum í þessum málaflokki svo hann flytjist með sóma frá ríki til sveitarfélaga.

Það er meginmarkmið yfirfærslunnar að vinna að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og stuðla þannig að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda. Hér má margt fara betur ef duga skal og er nærtækast að minna á úttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum fatlaðra sem er nýlega komin fram. Þar kom fram að heildarstefnu vanti fyrir málaflokkinn, fjárveitingar taki ekki mið af reglubundnu mati á þjónustuþörf, eftirlit með þjónustu sé ófullnægjandi, ekki sé fylgt samræmdum verklagsreglum og að ekki sé unnt að bera saman einstaka útgjaldaliði málaflokksins á raunhæfan hátt, eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var nokkuð dökk skýrsla um þennan málaflokk. Við yfirfærsluna ber að sjálfsögðu að taka tillit til óska Ríkisendurskoðunar um bata í þjónustunni en jafnframt þurfum við að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er í rauninni ekki liður í þeirri réttarbót sem hér fer fram. Því verður að taka tillit til þeirra krafna í komandi þjónustu við fatlað fólk þegar málaflokkurinn verður kominn yfir til sveitarfélaga.

Ég vil koma sérstaklega inn á einn þáttinn er lýtur að þjónustu við fatlað fólk og hann snýr að umönnunarbótum sem eru gríðarlega mikilvægar fyrir foreldra og aðstandendur fatlaðra ungmenna og barna. Með umönnunarbótakerfinu hefur tekist að halda fötluðum ungmennum og börnum eins lengi heima hjá sér og nokkur kostur er. Það hlýtur að vera gífurlegt mannréttindaatriði fyrir fatlað fólk, ungmenni og börn, að þurfa ekki að yfirgefa foreldra sína og systkini langt um aldur fram eins og dæmi eru um frá fyrri tíð þegar fötluðum einstaklingum var komið fyrir á barnsaldri á lokuðum stofnunum. Ísland er í fararbroddi þeirra landa sem geta leyft fötluðum ungmennum og þroskahömluðum börnum að vera eins lengi heima hjá sér og þau vilja vegna þess að umönnunarbótakerfið hefur komið til móts við foreldra og aðstandendur þessara barna. Það er sérlega ánægjulegt að lesa í gögnum er tengjast vinnu félagsmálanefndar að þessi þáttur í þjónustu við fatlaða einstaklinga hefur verið hafður í heiðri og sérstökum fagráðum hjá sveitarfélögum verður gefið sjálfdæmi um að meta umönnunarþörfina en umönnunarbótagreiðslurnar verða eftir sem áður hluti af almannatryggingakerfinu og hvergi verður slakað á umönnunarréttindakerfinu eins og það hefur verið á undanliðnum árum. Það er að mati þess sem hér stendur gífurlega mikilvægt atriði í yfirfærslu málefna fatlaðs fólks yfir til sveitarfélaganna að þessi þáttur týnist ekki milli tveggja kerfa og er það vel.

Að lokum vil ég segja almennt um þessa yfirfærslu að hún verður að lúta eins að öllum þeim formum sem eru til staðar í þjónustu við fatlað fólk, hvort heldur sem þau eru þjónustuúrræði frá sveitarfélögum, einstaklingum eða frjálsum félagasamtökum og öðrum slíkum aðilum.

Hér hafa málefni Sólheima verið nefnd og sá sem hér stendur hefur talað fyrir því að tilfærsla á málefnum fatlaðra lúti einum og sömu rökunum þannig að eitt skuli yfir alla ganga, þar á meðal Sólheima, enda verður það tryggt og hefur verið lýst yfir af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra og reyndar þingmanna kjördæmisins, að fjármunir til þeirrar góðu starfsemi sem þar hefur verið við lýði um áratugaskeið verði áfram veittir til þeirrar starfsemi sem þar hefur verið í jafnríkum mæli og verið hefur, þannig að öllum efa í þeim efnum hefur verið eytt. Sá sem hér stendur getur ekki séð að þær málsbætur sem þeir sem reka Sólheima nú um stundir hafa viljað fá með einhvers konar millistigi í málaflokkinn á milli ríkis og sveitarfélaga með aðkomu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, hafi raunverulegt gildi í þessari yfirfærslu og vísar þeim hér með á bug. Ég tel að eitt skuli yfir alla ganga í þessu efni og að með sómasamlegum fjárveitingum til málaflokksins eigi öllum rekstrarformum að vera tryggð góð þjónusta á þessu sviði.

Að endingu, frú forseti, þakka ég enn og aftur hv. félags- og tryggingamálanefnd fyrir vandaða vinnu á þessu sviði. Ég óska málaflokknum góðs gengis hjá sveitarfélögunum á komandi ári og tel jafnframt að fari svo að yfirfærslan takist með sóma, eins og mér sýnist að hún geti gert, verði hún eins konar ísbrjótur fyrir enn frekari flutning málefna frá ríki til sveitarfélaga. Málefni grunnskólans eru þegar komin þar yfir, málefni fatlaðs fólks eru nú að fara yfir til sveitarfélaganna, málefni aldraðra fara á næstunni þangað og ég tel að þar á eftir muni málefni framhaldsskólans sömuleiðis fara yfir til sveitarfélaganna og jafnvel málefni heilsugæslunnar líka. Svo mætti reyndar nefna enn fleiri málaflokka og er mér þar efst í huga allur sá eftirlitsiðnaður sem á heima heima í héraði fremur en hjá ríkisvaldinu suður í Reykjavík þar sem menn virðast vera að safna flugpunktum til að komast sem mest um landið.