Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 17:03:50 (0)


139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og málefnalegt og gott samstarf á vettvangi nefndarinnar. Það er nú einu sinni þannig að það er stjórnarmeirihlutans að taka þessar erfiðu og óvinsælu ákvarðanir hvort sem það er niðurskurðarmegin eða tekjumegin. Hér erum við að fjalla um tekjuhluta fjárlaganna og skattahækkanir og það verður að segjast að við í meiri hlutanum reyndum að stíga eins varlega til jarðar og mögulegt var og horfa til þeirra matarhola sem fyrirfinnast í okkar samfélagi til að sjá með hvaða hætti við gætum minnkað það fjárlagagat sem við stöndum frammi fyrir. Það voru tæplega 200 milljarðar kr. sem fjárlagahallinn var að loknu árinu 2008 en við horfum fram á það að verulegur árangur hefur náðst í þessum hluta og við horfum fram á jákvæðan frumjöfnuð á næsta ári. Vissulega er alltaf vont að þurfa að hækka skatta en ég ítreka að meiri hlutinn reyndi að stíga niður af mestu skynsemi.

Ég velti því fyrir mér hvort fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Birkir Jón, sé í hjarta sínu ósammála því að þeir sem sterkast standa í okkar samfélagi eigi að leggja meira af mörkum núna en ella til þess að við náum endum saman. Það er grunnnálgun okkar jafnaðarmanna við útfærslu á þessum sköttum. Og eins vont og það er að þurfa að hækka skatta, eins óvinsælt og það er að þurfa að leita til almennings til að ná endum saman í ríkisrekstrinum þá var horft til þess t.d. að tekjutengja barnabætur, tekjutengja vaxtabætur og að þeir sem eiga yfir 75 milljónir nettó í hreinni eign leggi meira til samfélagsins. Er fulltrúi Framsóknarflokksins ósammála þessari nálgun sem lagt er upp með af hálfu okkar jafnaðarmanna?