Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 23:23:22 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka fram í upphafi andsvarsins að það er ekki ætlun meiri hluta nefndarinnar að troða hv. þingmanni inn í Nissan Micra [Hlátur í þingsal.] en ég þakka þingmanninum fyrir jákvæðar undirtektir við þeim breytingum sem gerðar voru á málinu í meðförum nefndarinnar. Það er m.a. vegna þess að við búum sannarlega í mjög dreifbýlu landi eins og hv. þingmaður nefndi. Sjónarmið um aðstæður eiga einmitt ekki síst við í sveitunum og þegar kemur að búrekstrinum vegna þess að þar er oft býsna óljóst á milli annars vegar atvinnutækja og hins vegar bifreiða. Í fyrra kerfi var reynt að koma til móts sérstaklega við bændur með afslætti af bifreiðum sem taldar voru landbúnaðartæki en það reyndust síðan vera tæki sem voru mest seld hér í þéttbýlinu, stórir pallbílar, og nutu sérstakrar fyrirgreiðslu.

Ég tel hins vegar fulla ástæðu til og veit að það stendur vilji til þess hjá hæstv. fjármálaráðherra að skoða sérstaklega hvort búreksturinn geti notið svipaðs fyrirkomulags eins og er með rekstrarbíla almennt sem gæti þá að nokkru leyti komið til móts við þær sérstöku aðstæður sem eru í sveitum.