Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 102. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 109  —  102. mál.
Meðflutningsmaður.




Tillaga til þingsályktunar



um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum.

Flm: Kristján Þór Júlíusson, Tryggvi Þór Herbertsson, Höskuldur Þórhallsson,
Birkir Jón Jónsson, Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson,
Árni Johnsen, Ragnheiður E. Árnadóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller, Birgir Ármannsson,


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Guðlaugur Þór Þórðarson, Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson,
Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Siv Friðleifsdóttir,
Vigdís Hauksdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar viðræður við Alcoa á Íslandi og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group (BMG) með það að markmiði að ljúka samningum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík á grundvelli viljayfirlýsingar stjórnvalda, Norðurþings, Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar frá 22. október 2009. Markmiðið verði að skapa ný störf, verja störf og afla þjóðarbúinu mikilvægra gjaldeyristekna.

Greinargerð.


    Öllum er ljóst að mikill vandi steðjar að íslensku þjóðinni, atvinnuleysi, verkefnaskortur fyrirtækja og bágt efnahagsástand. Atvinnuleysi sviptir fyrirvinnur tekjumöguleikum með hörmungum sem koma niður á allri fjölskyldunni, ekki síst börnunum. Atvinnuleysi veikir stoðir fjölskyldunnar sem er grunnstoð hvers þjóðfélags. Því verður að berjast gegn atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum og skapa störf. Verkefnaskortur íslenskra fyrirtækja er nú í hámarki. Fyrirtæki, m.a. í byggingariðnaði, fara í þrot og atvinnutæki eru seld úr landi. Brýnt er að styðja við ný verkefni sem geta skapað fyrirtækjum lífvænlegt umhverfi. Efnahagur landsins er nú nánast í gjörgæslu og því brýnt að afla þjóðinni tekna og gjaldeyris.
    Frá því í maí 2005 hefur Alcoa lýst áhuga sínum á atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi. 1. mars 2006 var undirrituð viljayfirlýsing fyrirtækisins og ríkisstjórnar Íslands um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa álver á Bakka við Húsavík. Verkefnið er enn í ferli og í það hafa verið lagðir miklir fjármunir. Verkefnið mun, ef af verður, skapa 450–500 störf í Norðurþingi, um 200 á Eyjafjarðarsvæðinu og 900–1.050 afleidd störf á landsvísu. Ljóst er að það mun styrkja alla innviði samfélagsins í Norðurþingi, m.a. heilbrigðisþjónustu sem nú stendur frammi fyrir niðurskurði með tilheyrandi atvinnuleysi og fólksflótta. Ótti íbúa svæðisins er mikill vegna þessa sem sést á því að fimmtudaginn 7. október var haldinn 1.300 manna fundur í Íþróttahöllinni á Húsavík vegna ótta um framtíð heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslum. Meðal heimamanna er stuðningur við þá atvinnuuppbyggingu sem hér er rædd yfirgnæfandi
    22. október 2009 undirrituðu stjórnvöld, Norðurþing, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit viljayfirlýsingu um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum. Starfshópur sem hefur starfað samkvæmt viljayfirlýsingunni skilaði skýrslu síðastliðið vor með yfirliti yfir mögulega fjárfesta. Samkvæmt skýrslunni voru Alcoa og BMG metin álitlegustu kostirnir af þeim fyrirtækjum sem höfðu áhuga á fjárfestingum í Þingeyjarsýslum. Þessi staða er óbreytt nú.
    Vinna að orkuöflun, sem nú liggur að mestu niðri, hefur skipt miklu fyrir Húsvíkinga þar sem mikill fjöldi þeirra var í störfum hjá Jarðborunum meðan eðlilegur gangur var í borunum. Mikil orka finnst á svæðinu og hefur það komið fram í svörum við fyrirspurnum hér á Alþingi, m.a. á 131. löggjafarþingi (þskj. 328, 222. mál), þar sem fram kemur að varlega áætlað séu virkjanleg um 600 MW í Þingeyjarsýslum. Rannsóknir eru hins vegar alltaf að batna og Þeistareykjasvæðið er nú talið öflugra en áður. Á Þeistareykjum eru nú tilbúin um 50 MW, í Bjarnarflagi er tilbúin mikil orka og nýverið var opnuð í Vítismó ein öflugasta hola landsins með afli upp á allt að 27 MW. Það eru því miklir möguleikar til atvinnuuppbyggingar á þessu svæði og brýnt að stjórnvöld leggist hér á árarnar með fólki og fyrirtækjum.
    Áður hefur verið bent á mikilvægi þessa verkefnis fyrir Norðausturland og þjóðarbúið allt og enn eykst mikilvægi þess við það ástand sem að framan var rakið, í atvinnu- og efnahagsmálum. Enn stendur óhaggað að fjöldi starfa mun skapast við undirbúning virkjunarframkvæmda og byggingu álversins, línulagnir, hafnargerð o.fl. Störf þessi munu skapast heima í héraði og í raun um land allt. Verkefni á borð við þetta mun auka hagvöxt á framkvæmdatíma auk þess sem landsframleiðsla til framtíðar verður meiri en áður. Útflutningsverðmæti munu aukast eftir að verksmiðjan hefur störf. Án hagvaxtar er vandasamt að auka þjónustu ríkisins við almenning eða viðhalda því sem við höfum nú. Verkefni þetta er því brýnt og til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og landsmenn alla.