Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 129  —  120. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum.

Flm.: Jónína Rós Guðmundsdóttir, Logi Már Einarsson,
Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að halda áfram, í samvinnu við heimamenn og orkufyrirtæki, að vinna markvisst að því að hægt verði að nýta jarðvarma í Þingeyjarsýslum til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Áhersla verði lögð á að ljúka sem fyrst nauðsynlegri forvinnu þannig að unnt verði að ganga til samninga við orkukaupendur um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í Þingeyjarsýslum þegar í byrjun næsta árs.
    Mikilvægt er að velja einn eða fleiri trausta, ábyrga og fjárhagslega sterka aðila til samstarfs um atvinnuuppbyggingu sem byggist á hagnýtingu orkunnar frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum. Lögð verði áhersla á að orkan verði nýtt til að skapa sem flest bein, varanleg störf í Þingeyjarsýslum.

Greinargerð.


    Lengi hefur verið unnið að því að nýta þá jarðvarmaorku sem er að finna í Þingeyjarsýslum. Ýmis fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að nýta orkuna á svæðinu til atvinnuuppbyggingar og er þetta það svæði sem Landsvirkjun horfir einkum til varðandi byggingu nýrra virkjana.
    Atvinnuástand í Þingeyjarsýslum þarf að stórbæta eins og víðar á landinu og því er afar mikilvægt að nýta þá endurnýjanlegu orku sem er sannanlega til staðar á svæðinu sem allra fyrst. Uppbygging og atvinnustarfsemi sem því fylgir mun stórefla atvinnumöguleika og hagvöxt þar og á landinu öllu.
    Stjórnvöld þurfa áfram að vinna markvisst með heimamönnum að því að efla samkeppnishæfni svæðisins og að undirbúa það fyrir þá uppbyggingu sem fylgir orkunýtingunni. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. vinna að markaðssetningu á orkunni og hafa ýmsir sýnt áhuga á að nýta hana til ýmiss konar iðnaðarstarfsemi svo að ekki ætti að vera flókið að ljúka þessu mikilvæga verkefni sem allra fyrst.