Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 103. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 230  —  103. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um skuldir sveitarfélaga hjá Íbúðalánasjóði.

    Svar ráðherra byggist á upplýsingum frá Íbúðalánasjóði.
     1.      Hversu mikið skulda sveitarfélögin Íbúðalánasjóði vegna kaupa þeirra á félagslegu húsnæði?
    Sveitarfélögin skulda um 44 milljarða kr. vegna kaupa á 3.863 eignum til félagslegra nota.

Fjárhæðir í krónum.
Kjördæmi Uppreiknaðar eftirstöðvar (30.9.2010) Vanskil Fasteignamat
Reykjavík norður og suður 20.738.909.128 0 26.696.315.000
Suðvestur 8.295.464.849 0 11.819.010.000
Norðvestur 4.513.253.556 1.267.255 4.196.592.000
Norðaustur 5.122.791.229 0 6.355.244.000
Suður 5.244.335.654 6.200.356 7.196.104.000
Samtals 43.914.754.416 7.467.611 56.263.265.000

Kjördæmi
Hlutfall af heildaruppreiknuðum eftirstöðvum (30.9.2010)
Reykjavík norður og suður 47%
Suðvestur 19%
Norðvestur 10%
Norðaustur 12%
Suður 12%

     2.      Hversu há upphæð er í vanskilum hjá sjóðnum vegna slíkra kaupa og hvernig skiptist upphæðin milli kjördæma?
    
Vanskilafjárhæðin er tæpar 7,5 millj. kr. sem skiptist í 6,2 millj. kr. í Suðurkjördæmi og tæpar 1,3 millj. kr. í Norðvesturkjördæmi (sjá töflu í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar).

     3.      Hefur einhver hluti slíkra skulda verið afskrifaður og ef svo er, hversu háar eru afskriftirnar samtals, í hvaða kjördæmum hafa skuldir verið afskrifaðar og hversu háar upphæðir í hverju þeirra?

Sveitarfélag Ár Fjárhæð í millj. kr.
Vesturbyggð 2002 83,7
Ísafjarðarbær 2003 og 2006 38
Hríseyjarhreppur 2005 36,9
Bolungarvíkurkaupstaður 2009 73
Samtals 231,6

    Í Vesturbyggð voru afskrifaðar skuldir að fjárhæð tæpar 84 millj. kr. árið 2002. Árið 2003 voru afskrifaðar 13 millj. kr. hjá Ísafjarðarbæ og aftur rúmar 25 millj. kr. í árslok 2006. Árið 2005 voru afskrifaðar tæpar 37 millj. kr. hjá Hríseyjarhreppi þegar það sveitarfélag var sameinað Akureyrarkaupstað. Árið 2009 voru afskrifaðar 73 millj. kr. hjá Bolungarvíkurkaupstað.
    Skuldir sveitarfélaganna eru afskrifaðar eftir að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaganna hefur óskað eftir því vegna erfiðrar fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags og með samþykki ráðuneytisins eins og lög og reglugerðir kveða á um.

     4.      Liggja inni beiðnir hjá Íbúðalánasjóði um afskriftir lána sveitarfélaga og ef svo er, í hvaða kjördæmum og um hversu háar upphæðir er að ræða?
    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga óskaði eftir því við Íbúðalánasjóð í janúar 2009 að sjóðurinn felldi niður helming skulda Bolungarvíkurkaupstaðar við sjóðinn vegna félagslega íbúðakerfisins, en alls nema þær 146 millj. kr. Stjórn sjóðsins féllst á að afskrifa 73 millj. kr. og að 73 millj. kr. yrðu „frystar“ í eitt ár. Að því tímabili loknu yrði málið tekið til endurskoðunar í samráði við eftirlitsnefndina og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Nú liggur fyrir ósk frá Bolungarvíkurkaupstað um að ljúka afskrift á þeirri fjárhæð sem eftir stendur, alls 81 millj. kr. Niðurstaða í því máli liggur ekki fyrir.