Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.

Þskj. 236  —  212. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    4. mgr. 103. gr. laganna orðast svo:
    Ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Gilda þá öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, við slitameðferðina með sama hætti og við gjaldþrotaskipti en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. sömu laga skal vera 24 mánuðir í stað sex mánaða.

2. gr.

    2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum orðast svo: Við greiðslustöðvunina skal beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laganna, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lög nr. 44/2009 öðluðust gildi, en slitameðferðin skal þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild stendur, sbr. 1. tölul. Ákvæði IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gilda ekki um slíka greiðslustöðvun sem hér um ræðir, en þó skal aðstoðarmaður hafa eftirlit með ráðstöfunum skilanefndar skv. 103. gr. laganna. Áður en heimild fyrirtækisins til greiðslustöðvunar rennur út geta skilanefnd og slitastjórn sameiginlega gert kröfu um að fyrirtækið verði tekið til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul., með dómsúrskurði, enda séu uppfyllt efnisskilyrði 3. tölul. 2. mgr. 101. gr. laganna. Slík krafa skal í síðasta lagi lögð fram á þeim degi er heimild fyrirtækisins til greiðslustöðvunar rennur út. Um meðferð slíkrar kröfu fer að öðru leyti eftir 3. mgr. 101. gr. laganna. Fallist dómur á kröfuna skal það standa óraskað sem gert hefur verið í greiðslustöðvun fyrirtækisins eftir gildistöku laga nr. 44/2009. Að því leyti sem rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðast almennt af þeim degi er úrskurður um slitameðferð gengur skal á sama hátt miða við gildistökudag þeirra laga. Frá því að beiðni um slitameðferð eftir almennum reglum berst dómara og þar til endanlegur úrskurður er kveðinn upp gilda reglur um slitameðferð til bráðabirgða um fyrirtækið. Heimild til greiðslustöðvunar lýkur sjálfkrafa þegar endanlegur úrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slitameðferðar er kveðinn upp.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga af hálfu skilanefnda og slitastjórna Landsbanka, Kaupþings og Glitnis vegna dóma sem kveðnir voru upp af áfrýjunardómstóli í Frakklandi 4. nóvember 2010. Af dómunum má draga þá ályktun að fyrir hendi kunni að vera ákveðin réttaróvissa er lúti að upphafi slitameðferðar fjármálafyrirtækja eftir almennum reglum sem ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 161/2002 tekur til. Einnig kom fram í dómunum að tilvísun til riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, væri ekki nægjanlega skýr í gildandi ákvæði laganna.
    Þar sem verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir bú bankanna og þar með kröfuhafa þeirra þykir nauðsynlegt að eyða öllum vafa um aðkomu dómstóla að slitameðferðinni og tryggja að enginn vafi geti leikið á því að formskilyrðum tilskipunar 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sé fullnægt. Í tilskipuninni er talið felast mikið hagræði, enda talið að endurskipulagning og slit fjármálafyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og útibú í öðru aðildarríki fari einungis eftir lögum eins ríkis, en ekki margra. Tilskipunin leggur grundvöllinn að samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um endurskipulagningu fjárhags og slit fjármálafyrirtækja og byggist á meginsjónarmiðum um einingu (e. principle of unity), algildi (e. principle of universality) og jafnræði (e. principle of non-discrimination).
    Þá eru með frumvarpinu tekin af öll tvímæli um að öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, gildi við slitameðferð fjármálafyrirtækja og þar með öll þau réttarúrræði sem þar koma fram og er ætlað að jafna stöðu kröfuhafa.
    Markmið breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu er því að tryggja jafnræði kröfuhafa fjármálafyrirtækja, annars vegar með því að tryggja viðurkenningu slitameðferðarinnar innan Evrópska efnahagssvæðisins í samræmi við ákvæði tilskipunar 2001/24/EB og hins vegar með því að tryggja að einstakar ráðstafanir séu tvímælalaust riftanlegar eins og væri við gjaldþrotaskipti.

2. Helstu atriði frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á 4. mgr. 103. gr. laganna sem lögfestir með skýrum hætti vísun til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er varðar riftun á ráðstöfunum auk fleiri atriða.
    Í öðru lagi er lögð til breyting sem felur í sér að fjármálafyrirtæki sem falla undir sérreglur ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009, verði með dómsúrskurði tekin til slitameðferðar sem um gilda almennar reglur, í stað þess að slíkt gerist sjálfkrafa þegar heimild til greiðslustöðvunar hefur runnið sitt skeið á enda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 103. gr. laganna sem ætlað er að árétta að öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þar á meðal ákvæði 138. gr. um afléttingu kyrrsetningar, skuli gilda við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Ekki felst í þessu efnisbreyting frá gildandi rétti heldur er um það að ræða að tekin eru af öll tvímæli um að þegar svo háttar til við slitameðferð fjármálafyrirtækis sem í ákvæðinu greinir gildi allar reglur riftunarkafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Um 2. gr.


    Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir vafa um að ákvæði laganna varðandi slitameðferð fjármálafyrirtækja samrýmist ákvæðum tilskipunar 2001/24/EB eru lagðar til breytingar á 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V.
    Breytingunum er m.a. ætlað að færa dómstólum það hlutverk að taka ákvörðun um að hefja slitameðferð fjármálafyrirtækis eftir almennum reglum. Sú sérstaka greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja sem komið var á með lögum nr. 129/2008 hófst með úrskurði dómara og ágreiningsefni er varða framkvæmd hennar heyra undir dómstóla. Engin breyting varð á því með gildistöku laga nr. 44/2009 22. apríl 2009 og hefur svo verið frá þeim tíma. Sem fyrr segir er frumvarpinu ætlað að árétta áframhaldandi hlutverk dómstóla við slitameðferð eftir almennum reglum hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem undir bráðabirgðaákvæðið falla. Þá þykir nauðsynlegt að taka af allan vafa um að úrskurður dómstóla um að fyrirtæki skuli tekið til slitameðferðar eftir almennum reglum skuli gilda og hafa réttaráhrif frá þeim degi er lög nr. 44/2009 öðluðust gildi.
    Loks er áréttað í greininni að frá því að beiðni um slitameðferð berst dómstólum og þar til endanlegur úrskurður hefur verið kveðinn upp skulu reglur um slitameðferð gilda til bráðabirgða um fyrirtækið. Þannig skapast ekki réttaróvissa fari svo að úrskurður dómara verði ekki kveðinn upp fyrr en eftir að heimild fjármálafyrirtækis til greiðslustöðvunar lýkur.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum.

    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga af hálfu skilanefnda og slitastjórna Landsbankans, Kaupþings og Glitnis vegna dóma sem kveðnir voru upp af áfrýjunardómstóli í Frakklandi 4. nóvember sl., en af þeim má draga þá ályktun að skapast hafi ákveðin réttaróvissa er lýtur að upphafi slitameðferðar fjármálafyrirtækja. Þar sem verulegir hagsmunir eru í húfi þykir nauðsynlegt að eyða öllum vafa um aðkomu dómstóla að slitameðferðinni og tryggja að formskilyrðum tilskipunar 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sé fullnægt.
    Annars vegar er um að ræða breytingu á 4. mgr. 103. gr. laganna, sem lögfestir með skýrum hætti vísun til XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er varðar riftun á ráðstöfunum auk fleiri atriða. Hins vegar er lögð til breyting sem felur í sér að fjármálafyrirtæki sem falla undir sérreglur bráðabirgðaákvæðis V við lögin, sbr. bráðabirgðaákvæði II við lög nr. 44/2009, verði með dómsúrskurði tekin til slitameðferðar sem um gilda almennar reglur, í stað þess að slíkt gerist sjálfkrafa þegar heimild til greiðslustöðvunar hefur runnið sitt skeið á enda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.