Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 240  —  84. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um ákvörðun ráðherra um frjálsar veiðar á úthafsrækju.

     1.      Hver eru viðbrögð ráðherra við álitamálum um lögmæti ákvörðunar hans um að gefa ekki út heildarafla úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 með reglugerð og gefa þannig veiðar á úthafsrækju frjálsar, í ljósi minnisblaðs Ástráðs Haraldssonar hrl., dags. 9. júlí 2009, og álitsgerðar Karls Axelssonar hrl. og dósents í lagadeild Háskóla Íslands, dags. 26. ágúst 2010?
    Ráðherra gaf út heildaraflamark fyrir 15 íslenska nytjastofna 16. júlí sl. Úthafsrækja var þar ekki á meðal og hefur hann enga ákvörðun tekið um aðra skipan mála fram að þessu þrátt fyrir tilvitnað minnisblað og álitsgerð.

     2.      Hyggst ráðherra takmarka eða stöðva veiðar á úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 þegar veidd hafa verið 7.000 tonn eða meira, til samræmis við mat Hafrannsóknastofnunarinnar á veiðiþoli úthafsrækjustofnsins?
    Líkt og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar var ekki tekin ákvörðun um heildaraflamark í úthafsrækju í júlí sl. Engin ný ákvörðun hefur verið tekin um annað, en fylgst verður með gangi veiðanna líkt og hvað aðra stofna varðar.

     3.      Telur ráðherra að frjálsar veiðar á úthafsrækju geti talist sjálfbærar og ef svo er, hvaða rök búa að baki þeirri skoðun hans?
    Fyrir liggur að Hafrannsóknastofnunin mun taka til sérstakrar skoðunar grundvöll veiðiráðgjafar í úthafsrækju, henni mun ljúka á næstu mánuðum en þar verður litið m.a. til reynslu undanfarinna ára. Tugþúsund tonna munur er á ráðgjöf undanfarins áratugar og veiði sem hefur þannig verið miklu minni. Sé tekið mið af nýlegri stofnmælingu Hafrannsóknastofnunarinnar 2010 benda hins vegar niðurstöður til þess að úthafsrækjustofninn sé enn lítill og nýliðun slök, líkt og undanfarin ár þrátt fyrir þessa litlu veiði. Þótt almennt sé talið að veiðar hafi afgerandi áhrif á fiskstofna sem lítt eru bráð rándýra, eins og á við um þorsk, er ljóst af reynslu áranna að afrán þorsks eða aðrir þættir í umhverfinu skipta afgerandi máli fyrir rækjuna. Óheftar veiðar á rækju til langs tíma geta þó án efa leitt til ósjálfbærra veiða ef ekki er gripið inn í þegar þörf krefur. Þetta gildir að sjálfsögðu um alla fiskistofna. Hafrannsóknastofnunin hefur sem kunnugt er lagt fram tillögur um heildarafla á yfirstandandi ári og mun það liggja til grundvallar mati á stöðu stofnsins á næstu mánuðum og þar til fyrrgreindri skoðun á grundvelli veiðiráðgjafar lýkur.

     4.      Telur ráðherra að frjálsar veiðar á úthafsrækju séu líklegar til að hámarka arðsemi af slíkum veiðum?
    Telja verður að mikil aðlögun og uppbygging hljóti óhjákvæmlega að verða í þessari grein í ljósi þess að veiðarnar hafi verið svo litlar sem raun ber vitni sl. áratug en þá hrundu veiðarnar úr nær 30 þúsund tonnum niður í átta hundruð tonn. Á síðasta fiskveiðiári veiddu skip án aflahlutdeildar í úthafsrækju tæp 40% þess afla sem á land kom og segir það sína sögu. Þessi skip þurfa ekki að greiða leigu fyrir aflaheimildir sínar núna. Veruleg endurskipulagning fer því fram í þessu tilliti og mikilvægt er að það gerist á sem hagkvæmastan hátt.

     5.      Hvernig samræmist ákvörðun ráðherra um frjálsar veiðar á úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 stefnu ríkisstjórnarinnar um umgengni um auðlindir sjávar?
    Mat ráðherra er að sú ákvörðun að gefa ekki út heildaraflamark vegna veiða á úthafsrækju í júlí sl. sé ekki ósamræmi við þessi markmið. Í þessu sambandi er vísað til svara við öðrum hlutum fyrirspurnarinnar og að í stefnuyfirlýsingunni er m.a. tiltekið að ríkisstjórnin muni stuðla að vernd fiskistofna, stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda sjávar og skapa sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald og nýtingu auðlinda sjávar og hún telji brýnt að treysta í sessi siðræn viðhorf í umgengni við hafið og auðlindir sjávar í ljósi þess að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að umgangast hana af ábyrgð.