Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 32. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 348  —  32. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um kynningarstarf vegna hvalveiða.

     1.      Hvernig hefur verið háttað kynningu á málstað og sjónarmiðum stjórnvalda í hvalveiðimálum á árunum 1999–2009, sbr. þingsályktun á 123. löggjafarþingi (92. mál), hverjir hafa markhóparnir verið og hverjir hafa skipulagt kynningarstarfið og annast það?
    Kynning á málstað Íslands varðandi hvalveiðimál hefur farið fram bæði gagnvart stjórnvöldum og fjölmiðlum víða um heiminn í gegnum árin. Málið hefur verið tekið upp í viðræðum við stjórnvöld erlendra ríkja við ýmis tækifæri og ýmsir þættir afstöðu Íslands þannig kynntir, bæði fyrir stjórnmálamönnum og embættismönnum. Áhersla hefur verið lögð á Bandaríkin í þessu efni. Einnig hefur málstaður Íslands verið kynntur fyrir forráðamönnum ýmissa fyrirtækja sem stunda verslun við Ísland. Þetta hefur bæði verið gert á vettvangi þar sem hvalveiðimál hafa einungis verið eitt umræðuefni af mörgum og þar sem hvalveiðimál hafa verið aðalumræðuefnið.
    Varðandi fjölmiðla hafa ráðherrar og ýmsir embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu og öðrum ráðuneytum kynnt hvalveiðimál, og málefni þeim tengd fyrir blaðamönnum víða að. Hefur málstað Íslands þannig verið komið á framfæri við almenning ýmissa landa, t.d. í gegnum dagblöð, netmiðla, útvarps- og sjónvarpsútsendingar. Þessir fjölmiðlar eru allt frá því að vera staðbundnir í ákveðnum borgum til þess að nást um allan heim, svo sem CNN, BBC World og BBC World Service.
    Við kynningu á málstað Íslands hefur verið lögð áhersla á rétt Íslands til nýtingar á náttúruauðlindum sínum með sjálfbærum hætti. Upplýsingum um stöðu ólíkra hvalastofna hefur jafnframt verið komið á framfæri.
    Skipulagning og framkvæmd kynningarstarfsins hefur undanfarið verið í höndum starfsmanna ráðuneytisins og hefur verið unnið í samvinnu við önnur ráðuneyti og stofnanir þess.

     2.      Hversu miklir fjármunir hafa runnið til slíkrar kynningar af fjárlögum hvers árs á þessu tímabili, af ráðstöfunarfé ráðherra og úr einstökum sjóðum sem ráðherra ber ábyrgð á, og hvernig hefur þeim verið varið, flokkað eftir árum, svo sem til ráðgjafar- og almannatengslafyrirtækja heima og erlendis, samtaka sem berjast fyrir hvalveiðum, í auglýsingar (hvar?), til annars kynningarefnis (hvers?), ferða á ráðstefnur (hverjar?), annars ferðakostnaðar (hvers?) o.s.frv., bæði af fjárlagalið 05-190-1.33 og öðrum liðum ráðuneytisins?
    Eins og að framan greinir hafa stjórnvöld notað þau tækifæri sem gefast til að kynna málstað Íslands um sjálfbæra nýtingu sjávarlífvera, þ.m.t. hvala. Kynning á málstað Íslands um nýtingu á sjávarspendýrum telst til almennrar kynningar ráðuneytisins á verkefnum á verkefnasviði þess. Það er því ekki í bókhaldi ráðuneytisins haldið sérstaklega utan um kostnað við þær kynningar frekar en aðrar almennar kynningar. Á eftirfarandi töflu má sjá kostnað ráðuneytisins á árunum 2006–2010 vegna aðildargjalda í Alþjóðahvalveiðiráðinu og ferðakostnað vegna fundasóknar á fundi ráðsins, einnig kostnað vegna aðildargjalda og fundasóknar á fundi Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, kostnað ráðuneytisins vegna kynningar sem fram fór um nokkurra ára bil í Bandaríkjunum á nýtingu Íslands á auðlindum hafsins – en þeirri kynningu var hætt í árslok 2008 – auk tveggja styrkja sem greiddir voru á árunum 2006 og 2007 til tveggja erlendra samtaka sem styðja stefnu Íslands á þessu sviði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.