Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.

Þskj. 380  —  313. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    4. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Innleystur gengishagnaður af hvers konar innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt á því ári sem innlausn á sér stað skal færður til tekna og miðast við mismun á kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris frá 1. janúar 2010 eða síðar og á úttektar- eða greiðsludegi. Heimilt er að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan ársins.

2. gr.

    Við 8. mgr. 17. gr. laganna bætist: og sölu íbúðarhúsnæðis úr dánarbúi manns enda séu uppfyllt framangreind skilyrði um eignarhaldstíma og stærðarmörk.

3. gr.

    3. tölul. 1. mgr. B-liðar 30. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    12. tölul. 31. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Á eftir orðunum „og/eða þeirra félaga sem“ í 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: við tóku eða.

6. gr.

    Við 1. mgr. 59. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun má skjóta til yfirskattanefndar eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað „24,1%“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 22,9%.
     b.      Í stað „27%“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 25,8%.
     c.      Í stað „33%“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 31,8%.
     d.      Í stað „27%“ tvívegis í 4. tölul. 1. mgr. kemur: 25,8%.
     e.      Í stað „1. tölul.“ í 6. tölul. 1. mgr. kemur: 1.–3. tölul.
     f.      Í stað „1. tölul.“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: 1.–3. tölul.

8. gr.

    Á eftir 70. gr. laganna kemur ný grein, 70. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tekjuskattur manna með takmarkaða skattskyldu
sem afla meiri hluta tekna sinna hér á landi.

    Þeir menn sem búsettir eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr., en fá sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, eiga rétt á að vera skattlagðir líkt og þeir hefðu verið skattskyldir skv. 1. gr. allt tekjuárið, með þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum um opinber gjöld.
    Sama rétt eiga þeir menn sem skattskyldir eru skv. 1. gr., en hafa einungis verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins, hafi þeir dvalið í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda nemi tekjur þeirra frá Íslandi eigi minna en 75% heildartekna þeirra á tekjuárinu.
    Heimilt er hjónum og einstaklingum í staðfestri samvist og óvígðri sambúð sem búsett eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum að telja fram í samræmi við ákvæði 62. gr. ef annað þeirra eða bæði eiga rétt til skattlagningar skv. 1. eða 2. mgr. þessarar greinar, enda nemi tekjur frá Íslandi eigi minna en 90% samanlagðra tekna þeirra á tekjuárinu og þau séu skráð saman til heimilis við lok tekjuárs.
    Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar með reglugerð, m.a. um rétt maka, framtalsskil o.fl.

9. gr.

    Á eftir orðunum „Þróunarsjóður sjávarútvegsins“ í 1. tölul. 5. mgr. 71. gr. laganna kemur: Fiskræktarsjóður.

10. gr.

    Við 2. mgr. 94. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimilum og öðrum stöðum sem 2. málsl. tekur ekki til.

11. gr.

    Orðin „sem ekki var unnt að koma að innan tímamarka 99. gr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 101. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 112. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Eindagi er 15 dögum eftir gjalddaga, sbr. þó 5. mgr.

13. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (I.)


    Þrátt fyrir ákvæði 11. gr. laga nr. 128/2009, sem breytti 60. gr. laganna, er þeim aðilum sem atvinnurekstur stunda eða sjálfstæða starfsemi og selja þjónustu og fengið höfðu heimild ríkisskattstjóra til að miða tekjuuppgjör rekstrarins við innborganir vegna seldrar þjónustu, í stað þess að miða við unna og bókfærða þjónustu, í þeim tilvikum sem vinnuþáttur hinnar seldu þjónustu var almennt yfir 70% heimilt að færa til tekna á þremur árum uppsafnaða fjárhæð sem áður hafði verið frestað að færa til tekna, þ.e. á tekjuárunum 2010, 2011 og 2012.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir 1.–4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXVI í lögunum skal þeim rekstraraðilum sem fá eftirgefnar skuldir vegna greiðsluerfiðleika á árunum 2010 og 2011 vera heimilt í skattskilum sínum að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu. Skilyrði fyrir yfirfærslu skv. 1. málsl. er að skattaðili hafi fyrnt að fullu að teknu tilliti til 42. gr. allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum. Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014 og skattaðili taki ekki þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða sé skipt upp í fleiri félög.
    Standi eftir í árslok 2014 eftirgjöf skulda sem hærri er en 500 millj. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019. Sé eftirgjöf lægri en 500 millj. kr. í lok árs 2014 færist hún ekki til tekna.
    Eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.
    Að öðru leyti gildir 5.–8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXXVI.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Í stað „24,1%“ í a-lið 1. mgr. kemur: 22,9%.
     b.      Í stað „27%“ í b-lið 1. mgr. kemur: 25,8%.
     c.      Í stað „33%“ í c-lið 1. mgr. kemur: 31,8%.

15. gr.

    Við 3. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Afdráttur staðgreiðslu af þeim hluta sem telst vera laun skv. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal fara fram á því greiðslutímabili þegar uppgjör á sér stað eða eigi síðar en í lok þess árs sem ákvörðun um úthlutun er tekin.

16. gr.

    Við 2. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimilum og öðrum stöðum sem 2. málsl. tekur ekki til.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Á eftir tölunni „5.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 6.
     b.      Á eftir orðunum „Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Íbúðalánasjóður.
     c.      Á eftir orðunum „Framleiðnisjóður landbúnaðarins“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Þróunarsjóður sjávarútvegsins, Fiskræktarsjóður.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      3. og 4. málsl. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Til vaxta telst enn fremur innleystur gengishagnaður á staðgreiðsluári skv. 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003. Sama á við um innleystan gengishagnað sem fellur til frá einu greiðslutímabili til annars innan staðgreiðsluársins.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ekki skal telja gengishagnað skv. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003 til stofns til staðgreiðslu.

19. gr.

    1. málsl. 4. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Afdráttur staðgreiðslu af arði skal fara fram þegar hlutafélag greiðir arðinn eða eigi síðar en í lok þess árs þegar ákvörðun um úthlutun er tekin.

20. gr.

    Við 2. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimilum og öðrum stöðum sem 2. málsl. tekur ekki til.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga,
með síðari breytingum.

21. gr.

    C-liður 8. gr. laganna orðast svo: Hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga af álagningarstofni útsvars ár hvert:
     1.      er nemi 0,77% til jöfnunar vegna reksturs grunnskóla,
     2.      er nemi 0,95% til jöfnunar vegna málefna fatlaðra.
    Við skil á staðgreiðslu útsvars til sveitarfélaga samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, skal jafnframt gera Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skil á hlutdeild sjóðsins í staðgreiðslu útsvars, sundurliðað skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. þessa stafliðar.

22. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Til greiðslu jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlaða, sbr. 13. gr. a.

23. gr.

    Í stað orðanna ,,a-, b- og c-lið 8. gr.“ í a-lið 10. gr. laganna kemur: a- og b-lið og 1. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr.

24. gr.

    Í stað orðanna ,,Tekjum Jöfnunarsjóðs skv. c-lið 8. gr.“ í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: Tekjum Jöfnunarsjóðs vegna reksturs grunnskóla skv. 1. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr.

25. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, svohljóðandi:
    Stofnuð skal sérstök deild innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra skv. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. skulu renna í sérdeildina auk framlaga af fjárlögum vegna þjónustu við fatlaða.
    Tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra skv. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. að frádregnum kostnaði tengdum flutningi málaflokksins, að viðbættum beinum framlögum af fjárlögum, skal varið til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða með greiðslu framlaga til einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða. Framlögin skulu reiknuð á grundvelli fjölda einstaklinga og þjónustuþarfa þeirra í hverju sveitarfélagi og á hverju þjónustusvæði og skal kveðið nánar á um útreikning þeirra í reglugerð, sbr. 18. gr. Í reglugerðinni skal leitast við að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa. Í reglugerðinni skal jafnframt kveðið á um ráðstöfun framlaga vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingarkostnaðar.
    Stofnaður skal sérstakur fasteignasjóður innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem annast fasteignir sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Fasteignasjóðurinn fer með réttindi og skyldur er tengjast fasteignunum. Starfsemi fasteignasjóðsins skal miða að því að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga vegna fasteigna sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða. Í því skyni er fasteignasjóðnum heimilt að leigja sveitarfélögum og rekstrar- eða þjónustuaðilum fasteignir til afnota fyrir þjónustu við fatlaða. Enn fremur er fasteignasjóðnum heimilt að selja sveitarfélögum, rekstrar- og þjónustuaðilum, rekstrarfélögum félagslegs húsnæðis eða íbúum fasteignir og semja um greiðslukjör. Þá er fasteignasjóðnum heimilt að selja fasteignir á frjálsum markaði hafi sveitarfélög ekki þörf fyrir að nýta þær. Söluandvirði fasteigna og aðrar tilfallandi tekjur fasteignasjóðsins umfram gjöld skulu renna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. 1. mgr., og skulu þær nýttar til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða. Á sama hátt ber sérdeildin ábyrgð á rekstrarhalla fasteignasjóðsins sé um slíkt að ræða. Ráðherra er heimilt með samþykki Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja fasteignasjóðinn niður og skal eignum hans ráðstafað til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. 1. mgr.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um starfsemi fasteignasjóðsins að fenginni umsögn velferðarráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, svo sem um nýtingu tekna fasteignasjóðsins til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða, hvernig leigufjárhæðir skulu ákveðnar, um rekstrarform, stjórnun, leigu og sölu fasteigna og heimildir sveitarfélaga til þess að fela öðrum aðilum rekstur fasteignanna.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 23. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar ,,13,28%“ kemur: 14,48%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar ,,11,24%“ kemur: 12,44%.

27. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (XI.)
    Í fjárlögum skal tryggja sérstök framlög vegna tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga með eftirfarandi hætti:
     a.      Framlög á árunum 2011, 2012 og 2013 til að vega upp á móti veikri stöðu útsvarsstofnsins.
     b.      Framlög á árunum 2011, 2012 og 2013 vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
     c.      Framlög á árunum 2012 og 2013 vegna biðlista eftir þjónustu.
     d.      Framlög á árunum 2011, 2012 og 2013 vegna breytingarkostnaðar, tilfærslu, aðlögunar og útfærslu þjónustunnar.

    b. (XII.)
    Fram til ársins 2014 eru sveitarfélög bundin af því að 0,25 prósentustig af þeirri hækkun útsvars sem þeim er tryggð vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra renni beint til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða.

    c. (XIII.)
    Á árinu 2011 skulu greiðslur framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða taka mið af heimildarákvæði 6. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða hvað varðar sérstakt aðlögunartímabil þar sem beinar greiðslur til sveitarfélaga og þjónustusvæða byggjast að hluta til eða öllu leyti á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
28. gr.

    Við 3. mgr. 38. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skattrannsóknarstjóri ríkisins getur í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimilum og öðrum stöðum sem 2. málsl. tekur ekki til.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila
og einstaklinga í atvinnurekstri, með síðari breytingum.

29. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Lögaðilar og einstaklingar sem eru og hafa verið í atvinnurekstri og eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geta sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011.
     b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, geta sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum þessum vegna vangoldins virðisaukaskatts og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Hafni umboðsmaður skuldara umsókn einstaklings um greiðsluaðlögun skal umsókn samkvæmt þessari málsgrein afgreidd í samræmi við 1. mgr.

30. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. október 2011“ í 1. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: 1. júlí 2012.

31. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Sérstök niðurfelling á tekjuskatti lögaðila sem gjaldfallið hefur fyrir 1. janúar 2010.

    Hafi umsækjandi skv. 1. gr. fengið sértæka skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, er tollstjóra heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, enda telji tollstjóri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Umsækjanda ber að leggja fram þau gögn sem hin sértæka skuldaaðlögun byggist á ásamt öðrum þeim gögnum sem tollstjóri fer fram á.
    Hafi umsækjandi skv. 1. gr. ekki fengið sértæka skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009, um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, er tollstjóra heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, enda telji tollstjóri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Umsækjanda ber að leggja fram þau gögn sem tollstjóri fer fram á.
    Fallist tollstjóri á niðurfellingu tekjuskatts skv. 1. og 2. mgr. kemur slík niðurfelling til framkvæmdar þegar umsækjandi hefur uppfyllt öll önnur skilyrði laga þessara. Tollstjóri gefur út skuldabréf vegna þess hluta tekjuskatts sem ekki er felldur niður í samræmi við ákvæði 5. gr. Niðurfelling tekjuskatts kemur þó aldrei til greina ef skattkrafa er tilkomin vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á tekjuskatti vegna skattsvika.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

32. gr.

    Í stað orðanna „staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti“ í 4. mgr. 34. gr. laganna kemur: staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

33. gr.

    Í stað ártalsins „2009“ í 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 2010.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
34. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Markmið þessara laga er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.

35. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi gilda um fyrirtæki sem eru eigendur rannsóknar- eða þróunarverkefna sem staðfest hafa verið af Rannsóknamiðstöð Íslands skv. 5. gr. Háskólar og opinberar stofnanir teljast ekki fyrirtæki í skilningi laga þessara.

36. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      1., 2., 3., 4., 6., 10., 11. og 13. tölul. falla brott og breytist númeraröð annarra töluliða í samræmi við það.
     b.      5. tölul. orðast svo: Nýsköpunarfyrirtæki: Lögaðilar skv. 1. og 3. tölul. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem stunda rannsóknir eða þróun samkvæmt lögum þessum.
     c.      8. tölul. orðast svo: Rannsóknar- og þróunarkostnaður: Beinn kostnaður við verkefni sem hlotið hefur staðfestingu skv. 5. gr., svo sem vegna starfsmanna, tækja, húsnæðis, aðkeyptrar rannsóknar- og þróunarvinnu og annarra aðfanga sem eingöngu eru notuð við verkefnið.
     d.      9. tölul. orðast svo: Rannsóknir: Skipulagðar rannsóknir eða mikilvægar athuganir sem eru til þess fallnar að stuðla að öflun nýrrar þekkingar og hæfni til þróunar á nýjum afurðum, ferlum eða þjónustu eða til að koma til leiðar umtalsverðum endurbótum á afurðum, ferlum eða þjónustu sem er til staðar. Þær ná yfir sköpun þátta í flóknum kerfum, sem nauðsynlegir eru fyrir rannsóknir, einkum almennar tæknifullgildingar, þó ekki á frumgerðum sem tilgreindar eru í 10. tölul.
     e.      15. tölul. orðast svo: Þróun: Öflun, sameining, mótun og not fyrirliggjandi vísindalegrar, tæknilegrar, viðskiptalegrar eða annarrar viðeigandi þekkingar og færni í þeim tilgangi að vinna að áætlunum eða ráðstöfunum og hönnun fyrir nýjar, breyttar eða endurbættar afurðir, ferla eða þjónustu. Þetta kann einnig að fela í sér, til dæmis, aðra starfsemi sem hefur að markmiði hugmyndaskilgreiningar, áætlanir og skráningu nýrra afurða, ferla og þjónustu. Slík starfsemi kann að fela í sér gerð uppkasta, teikninga, áætlana og annarra skjala, enda séu þau ekki ætluð til notkunar í atvinnuskyni.
     f.      Við bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:
                  1.      Lítið fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 2 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 2 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008, þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
                  2.      Meðalstórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.
                  3.      Stórt fyrirtæki: Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008.

37. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Umsókn um staðfestingu á rannsóknar- eða þróunarverkefni skal berast Rannís eigi síðar en 1. september ár hvert.
    Umsókn skal afhent á því formi sem Rannís ákveður. Með umsókn skal fylgja greinargóð lýsing á verkefninu ásamt verk- og kostnaðaráætlun.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir málsliðir, svohljóðandi: Rannís ákvarðar hvort verkefni hlýtur staðfestingu samkvæmt lögum þessum. Skilyrði þess að verkefni hljóti staðfestingu er að það teljist rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögum þessum og einnig.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Staðfesting verkefna.

39. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Ef nýsköpunarfyrirtæki kaupir rannsóknar- eða þróunarvinnu af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun til nota í eigin staðfestu rannsóknar- eða þróunarverkefni hækkar hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti skv. 10. gr.

40. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Tvö eða fleiri ótengd nýsköpunarfyrirtæki geta staðið saman að verkefni og notið frádráttar skv. 10. gr. Í tilviki samstarfsverkefnis skulu upplýsingar um alla þátttakendur koma fram í umsókn skv. 4. gr. ásamt upplýsingum um áætlaða hlutdeild hvers og eins í rannsóknar- og þróunarkostnaði.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      1.–3. mgr. orðast svo:
                  Við mat Rannís á rannsóknar- og þróunarverkefnum má leita til ráðgefandi fagnefndar sem skipuð er þremur fulltrúum með reynslu af málefnum tengdum nýsköpun. Fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og Samtök atvinnulífsins tilnefna fulltrúa í fagnefndina.
                  Rannís skal innan tveggja mánaða frá móttöku umsóknar ákvarða hvort verkefni hlýtur staðfestingu skv. 5. gr. Tilkynna skal umsækjanda um þá ákvörðun.
                  Rannís skal tilkynna ríkisskattstjóra um þau rannsóknar- eða þróunarverkefni sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. og eigendur þeirra. Samstarfsverkefni skulu aðgreind sérstaklega og upplýst um alla þátttakendur í þeim.
     b.      4. mgr. fellur brott.

42. gr.

    Orðin „og/eða 6.“ í 1. málsl. 9. gr. laganna falla brott.

43. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Nýsköpunarfyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefnum sem hlotið hafa staðfestingu skv. 5. gr. á rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20 hundraðshlutum af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna enda sé um að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hjá hverju fyrirtæki skal vera 100.000.000 kr. á rekstrarári. Ef um er að ræða aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu skv. 6. gr. skal hámark kostnaðar samtals vera 150.000.000 kr. Ef um er að ræða samstarfsverkefni skv. 7. gr. skal sama hámark gilda fyrir verkefnið í heild en frádrætti skipt hlutfallslega milli fyrirtækjanna sem taka þátt í samstarfsverkefninu.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kostnaður sem fellur til vegna umsóknar til Rannís myndar ekki frádráttarrétt hjá nýsköpunarfyrirtæki.

44. gr.

    3. málsl. 11. gr. fellur brott.

45. gr.

    12.–14. gr. laganna falla brott.

46. gr.

    Í stað 2. mgr. 15. gr. koma fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Samanlagður styrkur frá opinberum aðilum að meðtöldum skattfrádrætti samkvæmt lögum þessum skal ekki fara yfir neðangreind hlutföll vegna sama rannsóknar- eða þrónuarverkefnis:
     1.      Þegar um lítil fyrirtæki er að ræða getur samanlagður kostnaður orðið hæstur 70% vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 80%. Samanlagður kostnaður vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 45% eða í tilviki samstarfsverkefnis 60%.
     2.      Þegar um meðalstór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður kostnaður orðið hæstur 60% vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 75%. Samanlagður kostnaður vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 35% eða í tilviki samstarfsverkefnis 50%.
     3.      Þegar um stór fyrirtæki er að ræða getur samanlagður kostnaður orðið hæstur 50% vegna rannsóknarverkefnis eða í tilviki samstarfsverkefnis 65% enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki. Samanlagður kostnaður vegna þróunarverkefnis getur hæstur orðið 25% eða í tilviki samstarfsverkefnis 40% enda sé um að ræða samstarfsverkefni milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu eða með a.m.k. einu litlu eða meðalstóru fyrirtæki.
    Skilyrði aukningar á styrkhæfi vegna sameiginlegra verkefna er að þau feli í reynd í sér samstarf milli a.m.k. tveggja óháðra fyrirtækja og eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     1.      ekkert eitt fyrirtæki fari með meira en 70% af hinum styrkhæfa kostnaði vegna samstarfsverkefnisins;
     2.      verkefnið verður að fela í sér samstarf í það minnsta eins lítils eða meðalstórs fyrirtækis eða vera milli landamæra, þ.e. rannsóknar- og þróunarstarfsemin verður að eiga sér stað innan í það minnsta tveggja EES-landa.
    Aukning á styrkhæfi er einnig heimil ef verkefnið felur í reynd í sér samstarf milli fyrirtækis og rannsóknarstofnunar, sértaklega í sambandi við samræmingu stefnumörkunar á sviði rannsókna og þróunar, og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
     1.      rannsóknarstofnunin fer með í það minnsta 10% af hinum styrkhæfa kostnaði;
     2.      rannsóknarstofnunin hefur rétt til að birta niðurstöður rannsóknarverkefnisins að því marki sem þær eru tilkomnar vegna rannsókna sem stofnunin hefur hrint í framkvæmd.
    Enn fremur er aukning heimil, fyrir rannsóknir eingöngu, ef niðurstöðum verkefnisins er dreift með almennum hætti á tækni- og vísindaráðstefnum eða með birtingu í vísinda- eða tækniritum eða í gegnum opin gagnasöfn (gagnagrunna þar sem hver sem er getur nálgast grunngögn úr rannsóknum), eða í gegnum ókeypis eða opinn hugbúnað.
    Undirverktaka skv. 3. og 4. mgr. telst ekki samstarf í skilningi laga þessara.

IX. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
47. gr.

    Við 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Af fólksbifreiðum leigðum út af bílaleigum, skráðum í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum, sem innflytjandi nýtir hér á landi tímabundið í eigin þágu enda vari dvöl bifreiðarinnar hér á landi ekki lengur en 42 daga í hvert sinn en aldrei lengur en 183 daga á hverju 12 mánaða tímabili. Hver sá sem nýtir sér heimild til tímabundins innflutnings samkvæmt þessum lið getur aldrei nýtt heimildina lengur en 42 daga á ári hverju.

48. gr.

    Við 3. mgr. 15. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kostnaðarliðir og gjöld sem um ræðir í 2. mgr. skulu innifalin í tollverði, án tillits til þess hvort kostnaðarliðirnir og gjöldin séu raunverulega greidd eða ekki, enda sé unnt að ákvarða þau á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

49. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Frá og með 1. janúar 2011 er tollstjóra heimilt er að endurgreiða vörugjald af ökutækjum sem hefur verið breytt þannig að ökutækið nýtir metan í stað bensíns eða dísilolíu og hefur verið skráð sem slíkt hjá Umferðarstofu.
    Fjárhæð endurgreiðslu vörugjalds skv. 1. mgr. skal vera 20% af kostnaði við breytinguna samkvæmt reikningi breytingaverkstæðis en þó ekki hærri en 100.000 kr. Vörugjald skal því aðeins endurgreitt að ökutæki sé yngra en sex ára við breytingu, miðað við framleiðsluár, og útbúið að lágmarki 80 lítra metangeymi.
    Eigandi ökutækis skal sækja um endurgreiðslu vörugjalds skv. 1. mgr. til tollstjóra á eyðublaði sem tollstjóri útbýr. Með umsókninni skal fylgja staðfesting Umferðarstofu um að ökutæki hafi verið breytt til þess að nýta metan og að faggilt skoðunarstöð ökutækja hafi vottað breytinguna. Jafnframt skal fylgja með vottorð faggiltrar skoðunarstöðvar um að ökutæki sé útbúið að lágmarki 80 lítra metangeymi.
    Ef ökutæki, sem hlotið hefur endurgreiðslu, getur ekki nýtt metan sem eldsneyti vegna þess að breytingarbúnaður eða einhver hluti hans hefur verið fjarlægður eða gerður óvirkur innan tveggja ára frá því að vörugjald var endurgreitt skal eigandi ökutækis tilkynna tollstjóra og Umferðarstofu um að búnaður hafi verið fjarlægður eða gerður óvirkur og greiða upp endurgreiðsluna að fullu. Skylda til að tilkynna tollstjóra og Umferðarstofu um að búnaður hafi fjarlægður eða færður til að nota á annað ökutæki hvílir á jafnframt á hverjum þeim sem annast slíkar breytingar fyrir einhvern annan.
    Vanræki aðili að tilkynna tollstjóra innan mánaðar um að breytingarbúnaður hafi verið fjarlægður eða gerður óvirkur á einhvern hátt á því tímabili sem tilgreint er í 4. mgr. skal eigandi ökutækis greiða upp endurgreiðsluna ásamt 50% álagi.
    Faggiltar skoðunarstofur ökutækja skulu kanna ástand og virkni metanbúnaðar við hverja reglubundna skoðun ökutækis.
    Heimild til endurgreiðslu vörugjalds skv. 1. mgr. gildir þangað til vörugjald hefur verið endurgreitt vegna breytinga á 1.000 ökutækjum. Eigendur ökutækja sem breytt hefur verið til þess að nýta metan í stað bensíns eða dísilolíu fyrir gildistöku þessa ákvæðis og hlotið hafa vottun frá faggiltri skoðunarstöð ökutækja samkvæmt reglum umferðarstofu geta jafnframt sótt um endurgreiðslu vörugjalda.
    Um eftirlit og kæruheimildir skulu gilda ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, með síðari breytingum, eftir því sem við getur átt.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum.
50. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2010“ í ákvæðum til bráðabirgða II, III, V og VI í lögunum kemur: 31. desember 2011.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991, með síðari breytingum.
51. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      C-liður 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Af stefnufjárhæð frá 30.000.000 kr. að 90.000.000
kr.
90.000 kr.

     b.      Á eftir c-lið 2. tölul. 1. mgr. koma tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
        d.    Af stefnufjárhæð frá 90.000.000 kr. að 150.000.000 kr.
150.000 kr.

        e.    Af stefnufjárhæð frá 150.000.000 kr. og fjárhæðum umfram það
250.000 kr.

     c.      C-liður 3. tölul. 2. mgr. orðast svo: Af áfrýjunarfjárhæð frá 30.000.000 kr. að
90.000.000 kr.
130.000 kr.

     d.      Á eftir c-lið 3. tölul. 2. mgr. koma tveir nýir stafliðir, svohljóðandi:
        d.    Af áfrýjunarfjáhæð frá 90.000.000 kr. að 150.000.000 kr.
200.000 kr.

        e.    Af áfrýjunarfjárhæð frá 150.000.00 kr. og fjárhæðum umfram það
300.000 kr.


52. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: þar á meðal gjald fyrir þingfestingu máls skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. og gjald fyrir kæru til Hæstaréttar, sem ákveðið skal eftir ákvæðum 3. tölul. 2. mgr. 1. gr. í stað gjalds skv. 1. tölul., enda sé í málinu deilt um hagsmuni sem afmarkaðir eru með tilgreindum fjárhæðum.


XIII. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum.

53. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „2.000 kr.“ í 3. málsl. 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: 3.200 kr.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um veiðieftirlitsgjald, nr. 33/2000, með síðari breytingum.
54. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „17.500 kr.“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: 22.000 kr.

55. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „1.800 kr.“ í 3. gr. laganna kemur: 5.000 kr.

56. gr.

    Í stað fjárhæðarinnar „16.500“ í 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: 29.000 kr.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um yfirskattanefnd, nr. 30/1992, með síðari breytingum.
57. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist: í almennri póstsendingu eða rafrænt.

XVI. KAFLI
Gildistaka.
58. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:
    1., 2., 5. og 6. gr., e- og f-liður 7. gr. og 10.–13., 17.–18., 29.–33., 50. og 51.–57. gr. öðlast þegar gildi.
    3., 4. og 34.–46. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010.
    A–d-liðir 7. gr. og 8.–9., 14.–15. og 19. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011 og koma til framkvæmda við álagningu 2012 og á staðgreiðsluárinu 2011 eftir því sem við á.
    10., 16., 20. og 28. gr. öðlast þegar gildi og taka ákvæði þeirra jafnt til mála sem rannsókn er þegar hafin í og þeirra sem verða tekin til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.
    21.–27. og 47.–49. gr. öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Tilefni lagasetningar.
    Í frumvarpi því sem hér er kynnt er að finna tillögur að breytingum á mörgum lögum af margvíslegu tilefni. Hér skulu nefndar þær helstu. Í fyrsta lagi eru breytingar sem tengjast tilflutningi á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga eins og breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Í öðru lagi eru breytingar sem varða rýmkun á þeim skattalegu úrræðum sem fyrirtæki geta nýtt sér í dag. Þær breytingar varða annars vegar skattalega meðferð á eftirgjöf skulda (bráðabirgðaákvæði XXXVI í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt) og hins vegar heimild til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattskuldum frá fyrri árum (lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri) í því skyni að auðvelda fjármálastofnunum og öðrum kröfuhöfum fjárhagslega endurskipulagningu lífvænlegra atvinnufyrirtækja. Í þriðja lagi eru tillögur að breytingum á nýsamþykktum lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, til frekari eflingar þeirri starfsemi til hagsbóta fyrir íslenskt efnahagslíf auk frekari skilgreininga og niðurfellingar á hlutabréfaafslætti til handa einstaklingum og lögaðilum þar sem hann er ekki talinn standast reglur evrópska efnahagssamningsins um ríkisaðstoð. Í fjórða lagi er tillaga um framlengingu á gildandi bráðabirgðaákvæði VI í lögum nr. 129/ 1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem felur það í sér að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10%, eða út árið 2010. Um er að heimildarákvæði fyrir lífeyrissjóðina, sem ætti að nýtast þeim sem enn eru með verulega neikvæða stöðu eftir hrunið, jafnvel þrátt fyrir skerðingu réttinda sjóðfélaga á undanförnum tveimur árum. Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra í því skyni að einfalda og flýta fyrir málsmeðferð gagnvart þeim aðilum sem eru til rannsóknar. Að lokum eru í frumvarpinu ýmsar minni en þó mikilvægar breytingar, m.a. vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA, tilkomu nýrra umhverfisvænna orkugjafa eins og metans, framlengingar á niðurfellingu stimpilgjalds vegna skilmálabreytinga lána hjá fólki í greiðsluerfiðleikum, hækkunar gjalda sem Fiskistofa innheimtir o.fl. Hér á eftir er nánari umfjöllun um helstu breytingar frumvarpsins.

II. Meginefni frumvarpsins.
Tekjuskattur ríkisins og tekjustofnar sveitarfélaga.
    Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma varðandi tilfærslu þjónustu við fatlaða, dags. 6. júlí 2010, er gert ráð fyrir því að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Samkvæmt samkomulaginu færist fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á framkvæmd þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og miðar samkomulagið að því að yfirfærslan eigi sér stað 1. janúar 2011.
    Flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hefur lengi verið til umræðu. Með breytingu á gildandi lögum um málefni fatlaðra, árið 1996, samþykkti Alþingi að setja inn bráðabirgðaákvæði við lögin þar sem þáverandi félagsmálaráðherra var falið að undirbúa yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga. Í kjölfarið skipaði félagsmálaráðherra nefndir til þess að undirbúa málið en samkomulag tókst ekki um yfirfærsluna og var verkefnið lagt til hliðar á vordögum árið 2000.
    Á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga 16. febrúar 2007 var að nýju ákveðið að hefja formlega viðræður um að sveitarfélög landsins tækju við verkefnum er vörðuðu málefni fatlaðra og aldraðra. Í framhaldi af þessari ákvörðun var 23. mars 2007 skipuð verkefnastjórn til þess að fjalla um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarmála. Var verkefnastjórninni jafnframt falið að stýra vinnu tveggja nefnda sem fjallað hafa um verkaskiptingu á sviði málefna fatlaðra annars vegar og hins vegar á sviði þjónustu við aldraða.
    Hinn 13. mars 2009 var undirrituð viljayfirlýsing milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Meginmarkmið tilfærslu þjónustunnar er að stuðla að samþættingu félagslegrar þjónustu við íbúa sveitarfélaganna og stuðla þannig að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á slíkri þjónustu að halda í daglegu lífi. Þykja sveitarfélögin að mörgu leyti betur í stakk búin en ríkið til að laga félagslega þjónustu að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum fólks. Í viðauka 2 við fyrrgreinda viljayfirlýsingu kemur fram að tekjustofnar sveitarfélaga verði hækkaðir til að standa straum af kostnaði við þau verkefni sem sveitarfélögin taka við og að endanlegar tillögur um fjármögnun verði unnar í tengslum við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Jafnframt segir að beita eigi jöfnunaraðferðum til að tryggja að tekjuaukningin endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa í sveitarfélögum og mismunandi þjónustuþarfa. Í viðaukanum er einnig kveðið á um það að mynda skuli þjónustusvæði um rekstur þjónustu og er miðað við að þau hafi að lágmarki átta þúsund íbúa. Í undantekningartilvikum er þó heimilt að víkja frá þessu.
    Ríkisstjórn Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu 6. júlí 2010 samkomulag um fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Markmið samkomulagsins er að færa ábyrgð á fjármögnun þjónustunnar frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma. Í samkomulaginu kemur fram að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2 prósentustig gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Hækkun útsvarstekna hjá sveitarfélögunum er áætluð um 10 milljarðar kr. vegna þessarar breytingar á útsvarshlutfallinu. Tekjur ríkissjóðs lækka jafnmikið og er þá aukinn hlutur ríkissjóðs í greiðslu útsvars til sveitarfélaga meðtalinn.
    Af fyrrgreindum 1,2 prósentustigum renna 0,95 prósentustig til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en 0,25 prósentustig beint til sveitarfélaganna og eru þau bundin af því fram til ársins 2014 að ráðstafa þeim fjármunum til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða. Auk þess verði framlög af fjárlögum á næstu árum m.a. vegna nýs fyrirkomulags þjónustu sem nefnist notendastýrð persónulega aðstoð og vegna biðlista eftir þjónustu. Skulu framlög af fjárlögum renna til sérstakrar deildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Sameiginlegt mat á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar fer fram árið 2014, en samhliða endurmatinu er stefnt að því að útsvarshlutfall vegna þjónustu við fatlaða verði endurskoðað og að framlög af fjárlögum falli niður þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari. Fyrir árslok 2010 verður síðan undirritað frekara samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða, þar sem markmið og forsendur yfirfærslunnar eru skilgreind og einstakir efnisþættir útfærðir nánar, svo sem fasteignamál og jöfnunaraðgerðir.
    IV. kafli frumvarpsins er liður í þeirri breytingu sem yfirfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga hefur í för með sér. Lýtur IV. kafli aðallega að breytingu á III. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, en kaflinn fjallar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ákvæði þessi eru samin í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og byggjast í fyrsta lagi á viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá 13. mars 2009, í öðru lagi á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaga er undirritað var 6. júlí 2010 og í þriðja lagi á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða.
    Samhliða frumvarpi þessu mun félags- og tryggingamálaráðherra leggja fram lagafrumvarp til breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, með síðari breytingum.

Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila.
    Fyrr á þessu ári var samþykkt sem ákvæði til bráðabirgða XXXVI við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, tiltekinn afsláttur af skattskyldu á eftirgjöf skulda umfram rekstrartöp hjá lögaðilum og þeim mönnum sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í ákvæðinu fólst heimild til að tekjufæra einungis 50% af fengnum eftirstöðvum af eftirgjöf skulda vegna tekjuáranna 2009–2011 allt að samtals 50 millj. kr. og 75% af eftirgjöf umfram samtals 50 millj. kr. á framangreindu tímabili. Einnig er heimilt að fyrna eignir sérstaklega á móti eftirgjöfinni. Að lokum er heimilt að færa eftirgjöf skulda sem þannig er metin til tekna með jöfnum fjárhæðum í skattframtölum næstu þriggja ára.
    Nokkur gagnrýni hefur komið fram á þetta úrræði í þá veru að það hamli í ákveðnum tilvikum fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja vegna þeirrar tekjuskattsskuldbindingar sem myndast við eftirgjöfina. Í ljósi þess er í þessu frumvarpi lögð til breyting á þessu ákvæði í átt til frekari rýmkunar. Lagt er til að heimilt verði að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og möguleg rekstrartöp á tímabilinu, fyrningar og niðurfærslu miðað við rekstrarniðurstöðu þessara ára. Það er þó skilyrði að allar fyrnanlegar eignir hafi verið fyrndar að fullu að teknu tilliti til 42. gr. og mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum hafi verið nýttar. Þá er einnig sett það skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010 –2014 og að ekki sé um að ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Að loknu þessu fimm ára tímabili eða í árslok 2014 er heimilt að færa þann hluta eftirgjafarinnar sem er umfram 500 millj. kr. til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019, en sé eftirgjöf þannig metin 500 millj. kr. eða lægri fellur hún niður. Þannig verður til eins konar frítekjumark við 500 millj. kr. Það skal þó tekið fram að eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.

Greiðsluuppgjör á gjaldföllnum skattskuldum.
    Síðastliðið vor samþykkti Alþingi lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri en úrræðunum sem í þeim fólust var ætlað að vera hvati fyrir aðila í atvinnurekstri til að koma vanskilum á opinber gjöld í skil. Lögin fela í sér einskiptis aðgerð þannig að umsækjandi fær heimild til að greiða eldri vanskil með útgáfu vaxtalauss skuldabréfs til fimm ára gegn því að opinber gjöld sem gjaldfalla á tímabilinu 1. janúar 2010 til 1. júlí 2011 séu í skilum. Þetta úrræði hefur mælst mjög vel fyrir og þegar hafa á fjórða hundrað aðilar sótt um greiðsluuppgjör. Þar af hafa verið greiddar um 500 millj. kr. til þess að uppfylla skilyrði laganna við umsókn og um 1.500 millj. kr. af ógreiddum opinberum gjöldum verða settar á skuldabréf til næstu fimm ára. Gildandi úrræði hvetur einnig til skila á skattframtölum og dregur þar með úr áætlunum.
    Til að tryggja enn frekar aðkomu stjórnvalda til aðstoðar rekstraraðilum í skuldavanda og ná jafnframt til þeirra sem hættir eru rekstri vegna efnahagsástandsins er lagt til að þau skilyrði sem eru í gildandi lögum verði rýmkuð. Í frumvarpinu er m.a. lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til að fella niður hluta af tekjuskatti lögaðila sem fallið hefur í gjalddaga fyrir 1. janúar 2010 að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Með þessu móti verða til staðar frekari úrræði fyrir hina mismunandi hópa sem skulda opinber gjöld vegna atvinnureksturs en vilja koma hlutunum í skil.
    Verði frumvarpið að lögum mun umsækjandi um greiðsluuppgjör, sem uppfyllir skilyrði laganna um frest til greiðsluuppgjörs, njóta eftirtalinna ívilnana gagnvart uppgjöri á kröfunni sem fer fram eftir 1. júlí 2011:
          Ekki eru lagðir dráttarvextir á hina ógreiddu skattkröfu sem varð til fyrir 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011.
          Hin ógreidda skattkrafa er sett á skuldabréf til fimm ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og fer fyrsta greiðsla fram 1. júlí 2012.
          Skuldabréfið er án vaxta en verðtryggt, miðað við vísitölu neysluverðs í júlí 2011.
          Tollstjóra verði heimilt að fella niður hluta af álögðum tekjuskatti lögaðila og einstaklinga í rekstri sem stafa frá tímabilum því fyrir 1. janúar 2010 en þetta er nýmæli. Heimildin er bundin við þá aðila sem enn eru í rekstri.
    Heimild tollstjóra til að fella niður hluta af álögðum tekjuskatti er afar sérstök en hér er um tímabundna heimild að ræða sem ætlað er að koma til móts við þann vanda sem rekstraraðilar standa nú frammi fyrir. Eingöngu er átt við vangoldinn tekjuskatt sem gjaldfallinn var fyrir 1. janúar 2010 en heimildin á ekki við um önnur vangoldin gjöld eða skatta sem falla undir lög þessi. Heimildin á jafnt við um rekstraðila sem sótt hafa um sértæka greiðsluaðlögun til fjármálastofnana á grundvelli laga nr. 107/2009, og þeirra sem ekki hafa gert það. Sú krafa er gerð að umsækjanda sem fengið hefur sértæka skuldaaðlögun afgreidda sé skylt að leggja fram öll þau gögn er varða rekstur fyrirtækisins, þar á meðal þær forsendur er liggja að baki niðurfellingu krafna hjá fjármálastofnunum.
    Tollstjóri ber að hafa hlutlæg viðmið í huga við mat á því hvort lögaðili sé í atvinnurekstri eður ei. Umsækjandi verður að vera með virkt virðisaukaskattsnúmer nema hann sé undanþeginn skilum á virðisaukaskatti og vera skráður á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra 1. júlí 2011. Jafnframt ber að hafa í huga þau sjónarmið við ákvörðun tollstjóra um niðurfellingu tekjuskatts að fyrst og fremst sé hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Hliðstætt úrræði er að finna í 4. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því undanskildu að ekki er gerð krafa um að umsækjandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi til þess að tollstjóri gefi út skuldabréf skv. 5. gr. laganna. Hins vegar verður að gera þá kröfu að vangoldinn tekjuskattur sé ekki tilkominn vegna endurákvörðunar á grundvelli skattsvika umsækjanda. Við mat á því hvort hagsmunum ríkissjóðs sé betur borgið með niðurfellingu tekjuskatts að hluta ber að líta til þess hvort gripið hafi verið til nauðsynlegra ráðtafana til að tryggja rekstur fyrirtækisins ásamt því að meta lífvænleika þess til framtíðar.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.
I. Aðdragandi.
    Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, kemur fram að með því sé kveðið á um tiltekið form ríkisaðstoðar við nýsköpunarfyrirtæki og því beri með vísan til 61. og 62. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að tilkynna eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um áformaða ríkisaðstoð. Í athugasemdunum kemur fram að samhliða framlagningu frumvarpsins á Alþingi var ætlunin að tilkynna ESA formlega um hið fyrirhugaða ríkisaðstoðarkerfi. Loks er áréttað að í samræmi við málsmeðferðarreglur ESA sé ekki unnt að hefja veitingu ríkisaðstoðarinnar fyrr en að fenginni staðfestingu stofnunarinnar á lögmæti ríkisaðstoðarinnar.
    Lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, öðluðust gildi í ársbyrjun 2010 en ekki tókst að tilkynna ESA um frumvarpið áður en Alþingi samþykkti það og staðfesting ESA lá því ekki fyrir þegar lögin tóku gildi. Þannig gafst ekki tækifæri til þess að bera efni frumvarpsins undir stofnunina áður en það varð að lögum.
    ESA var tilkynnt með formlegum hætti um lögin í áföngum í júní og september 2010 og hefur stofnunin haft kerfið til skoðunar síðan þá.
    Núgildandi lög fela annars vegar í sér beinan stuðning í formi skattfrádráttar hjá nýsköpunarfyrirtækjum og hins vegar óbeinan stuðning til nýsköpunarfyrirtækja í formi skattafsláttar til einstaklinga og lögaðila sem fjárfesta í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja. Þessi úrræði eiga samkvæmt gildandi lögum að koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011.
    Eftirlitsstofnun EFTA sendi íslenskum stjórnvöldum upplýsingabeiðni í nóvember 2010 vegna núgildandi laga þar sem látnar eru í ljós ýmsar athugasemdir við það ríkisaðstoðarkerfi sem í þeim felst. Í kjölfarið hafa átt sér stað samskipti við stofnunina þar sem fram hefur komið að skattafsláttur til einstaklinga og lögaðila muni líklega standa í vegi fyrir því að kerfið verði samþykkt sem lögmæt ríkisaðstoð, en samþykki ESA er sem fyrr segir forsenda þess að heimilt sé að hrinda kerfinu í framkvæmd við álagningu 2011.
    Athugasemdir ESA lúta í fyrsta lagi að því að stofnunin telur að ýmsum skilgreiningum laganna sé ábótavant og ekki standist ákvæði EES-samningsins að útiloka opinber hlutafélög og önnur hlutafélög í eigu opinberra aðila frá gildissviði laganna. Slíkt feli í sér ólögmæta mismunun gegn hlutafélögum í opinberri eigu.
    Í öðru lagi liggur fyrir sú afstaða ESA að ívilnunin sem felst í skattafslætti til lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum feli í sér sjálfstæða beina ríkisaðstoð til þessara lögaðila sem ólíklegt er að verði réttlætt á grundvelli undanþáguákvæða 61. gr. EES-samningsins.
    Í þriðja lagi telur stofnunin að ekki sé unnt að setja þak á hinn óbeina stuðning til nýsköpunarfyrirtækja sem felst í því að nýsköpunarfyrirtæki verða álitlegri fjárfestingarkostur en önnur félög sökum skattafsláttarins. Af þeirri ástæðu verði líklega erfitt að staðfesta skattafslátt vegna hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum þótt hann taki einungis til einstaklinga.
    Stjórnvöld hafa átt í viðræðum við eftirlitsstofnun EFTA í því skyni að finna lausn á framangreindum atriðum. Ljóst er að ráða má bót á fyrstnefnda atriðinu, þ.e. að opinber fyrirtæki verði ekki útilokuð, með breytingu á lögunum. Sömuleiðis má endurbæta skilgreiningar og líta í því sambandi til leiðbeinandi reglna ESA, frá febrúar 2007, um ríkisaðstoð til rannsóknar-, þróunar- og nýsköpunarverkefna (State aid for research and development and innovation). Erfitt er hins vegar að sjá að afslættir fyrir lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum muni verða samþykktir. Þriðja atriðið, afslættir fyrir einstaklinga sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, gæti fengist samþykkt en líkur eru á því að ESA verði að taka lögin í heild til ítarlegrar skoðunar, eða formlegrar rannsóknar, haldi íslenska ríkið fast við að sá þáttur komi til framkvæmda við álagningu árið 2011.
    Verði málið sett í formlega rannsókn mun endanleg niðurstaða ekki liggja fyrir fyrr en 6–10 mánuðum síðar. Niðurstaða slíkrar rannsóknar gæti orðið neikvæð og fari svo yrði íslenskum stjórnvöldum skylt að endurkrefja veitta ríkisaðstoð.
    Sú leið er fær að draga fyrrnefnda tilkynningu um ríkisaðstoð til baka og tilkynna nýtt kerfi til ESA sem einungis innihéldi frádrátt fyrir nýsköpunarfyrirtæki vegna skilgreindra nýsköpunarverkefna. Slíkt kerfi gæti mögulega komið til framkvæmda við álagningu ársins 2011 að fengnu samþykki ESA. Með vísan til þess að þannig fram sett ríkisaðstoðarkerfi væri mjög í anda þeirra leiðbeininga sem ESA hefur sett fram gæti samþykki ESA legið fyrir innan tiltölulega skamms tíma.
    Rannís hefur nú þegar móttekið um 100 umsóknir frá nýsköpunarfyrirtækjum sem óska staðfestingar samkvæmt lögunum. Rannís hefur ekki getað afgreitt umsóknirnar vegna þess að samþykki ESA liggur ekki fyrir. Verði lögunum breytt til samræmis við kröfur ESA má reikna með því að unnt verði að afgreiða þessar umsóknir lítið breyttar.

II. Meginefni breytinganna.
    Hér að framan er fjallað um aðdraganda þess að lagðar eru til breytingar á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þau samskipti við eftirlitsstofnun EFTA sem þar er vísað til urðu til þess að talið er óumflýjanlegt að leggja til eftirtaldar breytingar á lögunum:
          að hlutabréfaafsláttur til handa einstaklingum og lögaðilum vegna fjárfestinga í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum verði felldur brott þar sem hann samræmist ekki reglum um ríkisaðstoð í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
          að nýsköpunarverkefni hljóti staðfestingu af Rannís samkvæmt lögunum í stað nýsköpunarfyrirtækja eins og nú er,
          að rannsóknir og þróun verði skilgreind með sama hætti og gert er í leiðbeinandi reglum ESA um ríkisstyrki vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar frá 7. febrúar 2007,
          að skýrlega sé kveðið á um það í lögunum hvaða hámarksreglur gilda um samanlagða opinbera styrki til verkefna á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar eins og áskilið er í sömu leiðbeiningarreglum ESA.
    Til viðbótar við framangreint er lögð til sú breyting að lögin feli í sér frekari skattalegar ívilnanir en nú er til nýsköpunarfyrirtækja. Þær eru:
          að heimild til frádráttar frá álögðum tekjuskatti nýsköpunarfyrirtækja hækki úr 15% í 20%,
          að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til almennrar viðmiðunar á frádrætti hækki úr 50 millj. kr. í 100 millj. kr.,
          að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði til viðmiðunar frádrætti hækki úr 75 millj. kr. í 150 millj. kr. þegar um aðkeypta rannsóknar- og þróunarþjónustu er að ræða frá ótengdu fyrirtæki, háskóla eða rannsóknastofnun,
          að fallið verði frá því að við ákvörðun á skattalegu tapi samkvæmt lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, skuli einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem verkefni í eigu þess hlaut staðfestingu vegna skattfrádráttar.

Breytingar á lífeyrislögunum.
    Í lok árs 2008 í kjölfar efnahagshrunsins var lögfest að tillögu efnahags- og skattanefndar bráðabirgðaákvæði þess efnis, sbr. lög nr. 171/2008, að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997 verði 15% í stað 10%, fyrir árið 2008, sem er frávik frá almennu reglunni í 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Þetta frávik frá almennu reglunni var síðan framlengt fyrir árið 2009, sbr. lög nr. 130/2009. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er lagt til að sama gildi um árið 2010, þ.e. vikmörk í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997 verði áfram 15% í stað 10%. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér en líkt og á síðasta ári er útlit fyrir að einhverjir sjóðir séu með neikvæða stöðu yfir 10%.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu um að gerðar verði sömu kröfur til menntunar og kunnáttu þeirra sem fara með sjóðastýringu lífeyrissjóða og gerðar eru til sjóðstjóra verðbréfasjóðanna með breytingu á ákvæði 4. mgr. 34. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þ.e. að hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.

Breytingar á heimildum skattrannsóknarsstjóra.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra í því skyni að einfalda og flýta fyrir málsmeðferð gagnvart þeim aðilum sem eru til rannsóknar. Í þeim felst m.a. að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á einkaheimilum eða á öðrum þeim stöðum sem heimildir skattalaga taka ekki til.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins heimild til leitar og haldlagningar gagna vegna rannsóknar án undangengins úrskurðar héraðsdóms á starfsstöðum og í birgðageymslum framtalsskyldra aðila. Eru þær heimildir í 2. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 3. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Um þær rannsóknaraðgerðir gilda að öðru leyti ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
    Samkvæmt 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 skal við rannsóknaraðgerðir hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins gætt að ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt, einkum varðandi réttarstöðu grunaðra manna á rannsóknarstigi. Þótt leiða megi að því líkur að á grundvelli þessa ákvæðis hafi skattrannsóknarstjóri ríkisins nú þegar heimild til að fara með úrskurðarbeiðni fyrir héraðsdóm hefur myndast sú venjubundna framkvæmd að mál séu kærð til lögreglu sé talin þörf á leit á heimilum eða á öðrum stöðum en starfsstöðvum eða birgðageymslum framtalsskyldra aðila, til að mynda sökum þess að starfsstöð er í reynd á heimili eða rökstuddur grunur er um að gögn er varða ætluð brot sé þar að finna. Hefur lögregla þá farið fram með úrskurðarbeiðni fyrir héraðsdómi á grundvelli kæru frá skattrannsóknarstjóra ríkisins og lögregla í framhaldinu framkvæmt leit og haldlagningu í samráði við skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í kjölfar leitar hefur málinu á ný verið vísað til skattrannsóknarstjóra ríkisins til áframhaldandi rannsóknar.
    Með þessu fyrirkomulagi er máli í reynd vísað til opinberrar rannsóknar til þess eins að unnt sé að leita úrskurðar um leit og haldlagningu. Hefur þetta leitt til óhagræðis með því að máli er þá vísað til opinberrar rannsóknar á frumstigi og því fyrirliggjandi að máli þurfi að vísa á ný til áframhaldandi rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Hefur þetta leitt til óhagræðis með því að forræði rannsóknarinnar og aðgerðarinnar sjálfrar hefur þótt óljóst af hálfu þess sem hún beinist gegn auk þess sem þetta fyrirkomulag hefur leitt til lengri málsmeðferðartíma en ella.
    Með því að tekin séu af tvímæli um það að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað eftir úrskurði héraðsdóms um leit og haldlagningu er gert ráð fyrir að meðferð máls verði skilvirkari, leiði til aukins hagræðis og einföldunar fyrir rannsóknaraðila jafnt og þá aðila sem aðgerðin beinist gegn.
    Við framkvæmd húsleitar í kjölfar úrskurðar er gert ráð fyrir því að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað aðstoðar lögreglu við framkvæmd leitarinnar í samræmi við 5. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er gert ráð fyrir að gildandi heimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins til leitar og haldlagningar gagna á starfsstöð og í birgðageymslum verði óbreyttar.
    Gert er ráð fyrir því að umrædd ákvæði öðlist þegar gildi og taki jafnt til mála sem rannsókn er þegar hafin í og þeirra sem síðar verða tekin til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Ýmsar breytingar.
    Þá inniheldur frumvarpið ýmsar minni breytingar sem rétt er að nefna.
     Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að endurgreiða vörugjöld allt að 100.000 kr. vegna ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu en breytt er til þess að ganga fyrir metani. Er þessari tillögu ætlað að flýta fyrir þeirri þróun að metan verði notað í daglegum samgöngum á Íslandi. Með því hraða fjölgun á notendum metans er vonast til þess að söluaðilar og framleiðendur metans sjái sér aukinn hag í því að fjölga áfyllingarstöðvum um allt land. Sú þróun gæti orðið til þess að þeir sem eru að endurnýja ökutæki sín sjái raunhæfan kost í því að kaupa sér ökutæki sem gengur fyrir metani í stað hefðbundins jarðefnaeldsneytis. Jafnframt er vonast til að tillagan verði til þess að fyrr en ella verði metani í auknu mæli safnað úr lífrænum úrgangi til nota á ökutæki með þeim jákvæða umhverfislega ávinningi sem af því hlýst. Reiknað er með að tillagan komi til með að kosta ríkissjóð 100 millj. kr. yfir tveggja ára tímabil.
     Stimpilgjald. Í gildandi lögum er að finna tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfa er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Í frumvarpinu er lagt til að þessar undanþágur verði framlengdar um eitt ár, eða til ársloka 2011. Í báðum tilvikum er það skilyrði fyrir undanþágu stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu að sömu aðilar séu útgefendur að hinu nýja skjali (þ.e. skilmálabreytingu eða nýju veðskuldabréfi) og eru jafnframt kröfuhafi og skuldari samkvæmt viðkomandi fasteignaveðskuldabréfi sem hið nýja skjal nær til. Getur það jafnt náð til upphaflegra aðila að viðkomandi fasteignaveðskuldabréfi sem og aðila sem tekið hafa að fullu yfir skyldur upphaflegra aðila. Jafnframt er það skilyrði að hið nýja skjal sé gefið út vegna tiltekins áður útgefins fasteignaveðskuldabréfs og það vísi beint í það. Eins er um að ræða undanþága frá greiðslu stimpilgjalda við skilmálabreytingar bílalána. Þessi framlenging þykir nauðsynleg í ljósi þeirra greiðsluerfiðleika sem enn blasa við mörgum heimilum vegna hækkunar bíla- og fasteignalána sem rekja má til lækkunar krónu og verðbólguáhrifa.
     Tekjufærsla á óinnleystum gengishagnaði. Samkvæmt gildandi lögum myndar óinnleystur gengishagnaður af innlánsreikningum skattskyldar tekjur hjá rétthafa. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að tekjufærsla gengishagnaðar á innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt eigi sér ekki stað fyrr en við úttekt af reikningum og þannig sé horfið frá því að telja áfallinn óinnleystan gengishagnað af innlánsreikningum til tekna.
     Erfðafjárskattur af söluhagnaði íbúðarhúsnæðis. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði manns verði sú sama hvort sem salan fer fram út úr dánarbúi eða af erfingjum sjálfum.
     Vaxtabætur. Samkvæmt gildandi lögum mynda gjaldfallin vaxtagjöld rétt til vaxtabóta óháð því hvort greiðsla hefur farið fram. Þetta hefur leitt til þess, m.a. í tilviki frystinga á afborgunum og vöxtum, að vextirnar hafa í einhverjum tilvikum myndað rétt til vaxtabóta. Þá hefur einnig ríkt ákveðið ósamræmi milli lánastofnana varðandi það hvort réttur til vaxtabóta myndist í slíkum tilvikum. Því er lagt til í þessu frumvarpi að til vaxtagjalda sem mynda stofn til vaxtabóta teljist einungis greiddir vextir og verðbætur á afborganir og vexti en ekki gjaldfallnir.
     Skattlagning einstaklinga með búsetu erlendis. Í frumvarpinu er að finna tillögu þar sem gert er ráð fyrir að einstaklingar sem búsettir eru erlendis muni geta átt rétt til þess að verða skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi, stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi. Samkvæmt túlkunum Evrópudómstólsins á reglum ESB-réttar um frjálsa för launþega, sem eiga sér hliðstæðu í EES-samningnum, getur það komið í hlut ríkis að veita einstaklingum í slíkri stöðu sama skattalega hagræði og veitt er aðilum með ótakmarkaða skattskyldu í ríkinu. Slíkir einstaklingar njóti yfirleitt ekki skattalegra ívilnana í búseturíki sínu af þeirri ástæðu að meiri hluti tekna þeirra er upprunninn og skattlagður erlendis.
     Dreifing tekjufærslu skv. 60. gr. Ein af tillögum frumvarpsins lýtur að því að þeim sem frestuðu tekjufærslu skv. 60. gr. laganna eins og hún hljóðaði fyrir breytingu skv. 11. gr. laga nr. 128/2009 verði heimilað að færa til tekna á þremur árum þá fjárhæð sem tekjufærslu hafði áður verið frestað á, í stað þess að færa frestunarfjárhæðina til tekna í einu lagi í skattframtali 2011.
    Dómsmálagjöld. Með lögum nr. 13/2009 var gerð sú breyting á ákvæðum laganna um aukatekjur ríkissjóðs að fjárhæð dómsmálagjalda var hækkuð auk þess sem gjöldin voru tengd við þá hagsmuni sem deilt er um í málunum og miðuð við stefnufjárhæð eða áfrýjunarfjárhæð í máli.
    Í framhaldi af umræðu um að styrkja þurfi dómstólana til að takast á við síaukinn málafjölda var komið á samvinnu milli dómsmálaráðuneytisins, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands þar sem unnið var að því að greina hvernig bregðast mætti, með heildstæðum hætti, við því mikla viðbótarálagi sem dómstólarnir stæðu nú frammi fyrir auk þess að leita leiða til að fjármagna þær úrbætur. Í þeirri umræðu sem fram fór í þessu samráði kom fram að í sumum málum er deilt um fjárhæðir af stærðargráðu sem ekki hafa áður sést í dómsmálum. Þykir því eðlilegt að fjölgað verði gjaldaþrepum við greiðslu dómsmálagjalda. Er hér því lagt til að bætt verði við tveimur nýjum gjaldaþrepum en hæsta gjaldaþrepið nú miðast við stefnufjárhæð eða áfýjunarfjárhæð frá 30 millj. kr. og yfir. Er hér lagt til að gjaldaþrepið verði 30 millj. kr. að 90 millj. kr. og svo tvö ný stig, þ.e. frá 90 millj. kr. að 150 millj. kr. og svo frá 150 millj. kr. og af fjárhæð umfram þá fjárhæð. Gera má ráð fyrir að um eitt þúsund mál er varða ágreining á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi eftir að berast dómstólum og meiri hluti þeirra geti fallið í efsta gjaldaþrepið. Þannig gætu dómsmálagjöldin vegna þessara mála orðið um 180 millj. kr. í stað 15 millj. kr. eins og núverandi lög kveða á um.
     Gjöld innheimt af Fiskistofu. Lagt er til að gjöld sem Fiskistofa innheimtir á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum, verði hækkuð. Þannig er gert ráð fyrir því að gjöldin sem innheimt eru við útgáfu leyfa til veiða í atvinnuskyni, vegna eftirlits um borð í fiskiskipum og flutnings á veiðiheimildum milli skipa verði hækkuð til samræmis við hækkanir sem orðið hafa undanfarin ár en gjöld þessi voru ákveðin á árunum 2000–2002 og hafa verið óbreytt frá þeim tíma. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að markaðar tekjur Fiskistofu hækki um 22,4 millj. kr.
    Auk framangreindra ákvæða frumvarpsins eru í því nokkrar breytingar sem fyrst og fremst miða að bættri skattframkvæmd.

III. Samráð og mat á áhrifum frumvarpsins.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið um þá málaflokka frumvarpsins sem undir þau heyra. Að auki var haft samráð um einstaka hluta frumvarpsins við embætti ríkisskattstjóra, embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, embætti ríkislögreglustjóra, Samband íslenskra sveitarfélaga, tollstjóra, Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Komið hefur fram gagnrýni á núgildandi ákvæði og er því lögð til sú breyting á tekjufærslu gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt sem er í eigu einstaklinga utan atvinnurekstrar að hún eigi sér stað við úttekt af reikningum og þannig sé horfið frá því að telja áfallinn óinnleystan gengishagnað af innlánsreikningum til tekna. Jafnframt verði hið sama látið taka til hvers konar krafna í erlendri mynt.

Um 2. gr.


    Skattskyldu manns lýkur við andlát og þá tekur við skattskylda dánarbús hans. Þetta hefur leitt til þess að sé íbúðarhúsnæði selt áður en dánarbúinu er slitið hafa um söluhagnað af þeirri sölu gilt sömu ákvæði og varðandi söluhagnað lögaðila en ekki þau ákvæði sem gilda um sölu manns á íbúðarhúsnæði. Þannig hefur skapast mismunur á skattlagningu í þessum efnum eftir því hvenær sala á íbúðarhúsnæðinu hefur farið fram. Hér er lögð til sú breyting að meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði manns verði sú sama hvort sem salan fer fram út úr dánarbúi eða af erfingjum sjálfum.

Um 3. og 4. gr.


    Lagt er til að ákvæði tekjuskattslaga um hlutabréfaafslátt til handa einstaklingum og lögaðilum vegna fjárfestingar í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum verði felld brott þar sem þau eru ekki talin standast reglur Evrópska efnahagssamningsins um ríkisaðstoð. Vísað er til umfjöllunar í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 5. gr.


    Borið hefur á þeim misskilningi að ákvæðið um skiptingu hlutafélaga eigi eingöngu við í þeim tilvikum að nýstofnuð félög taki við öllum eignum og skuldum en það var ekki tilgangurinn með þeirri breytingu sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 128/2009. Hér er því lögð til orðalagsbreyting þessu til frekari skýringar.

Um 6. gr.


    Fyrir þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 136/2009, er embætti skattstjóra og ríkisskattstjóra voru sameinuð í eitt skattumdæmi, voru beiðnir um annað rekstrarár afgreiddar af skattstjórum. Synjun á beiðni um annað reikningsár var síðan hægt að kæra til ríkisskattstjóra. Eftir að landið varð að einu skattumdæmi var þessi kæruleið ekki lengur fyrir hendi. Hér er því lagt til að synjun ríkisskattstjóra á beiðni skattaðila um annað reikningsár verði kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Um 7. og 14. gr.


    Í a–d-liðum 7. gr. og 14. gr. er að finna tillögur að breytingum til lækkunar á tekjuskattshlutfalli manna samhliða hækkun á heimiluðu hámarkshlutfalli útsvars um 1,2% skv. 26. gr. frumvarpsins. Þessi breyting er tilkomin vegna verkefnatilflutnings á málefnum fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaganna.
    Þá er í e- og f-lið 7. gr. lögð til leiðrétting á tilvísunum.

Um 8. gr.


    Ákvæðið lýtur að skattlagningu einstaklinga sem bera takmarkaða skattskyldu á Íslandi skv. 3. gr. laganna en fá meiri hluta tekna sinna frá Íslandi og einnig þeirra sem skattskyldir eru skv. 1. gr. en dvelja erlendis hluta af tekjuárinu og eru samkvæmt núgildandi lögum skattlagðir í samræmi við hlutfall dvalartíma á landinu. Ákvæðinu er einungis ætlað að taka til þeirra sem nýta sér rétt sinn til frjálsrar farar innan Evrópska efnahagssvæðisins, auk Færeyja og Sviss. Samkvæmt ákvæðinu geta þessir einstaklingar átt rétt á öllum þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum um tekjuskatt og öðrum lögum um opinber gjöld, enda sýni þeir fram á að skattskyldar tekjur þeirra erlendis nemi ekki meira en fjórðungi heildartekna þeirra á tekjuárinu. Jafnframt veitir ákvæðið heimild til samsköttunar hjóna í þeim tilvikum þegar í það minnsta níutíu hundraðshlutar samanlagðra tekna þeirra eru upprunnar frá Íslandi og sé annað hjónanna tekjulítið eða tekjulaust skapast með þessu réttur þess einstaklings til persónuafsláttar á Íslandi sem hitt hjónanna getur nýtt í samræmi við ákvæði laganna.
    Með ákvæðinu munu einstaklingar sem búsettir eru erlendis geta átt rétt til þess að verða skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi, stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi. Samkvæmt túlkunum Evrópudómstólsins á reglum ESB-réttar um frjálsa för launþega, sem eiga sér hliðstæðu í EES-samningnum, getur það komið í hlut ríkis að veita einstaklingum í slíkri stöðu sama skattalega hagræði og veitt er aðilum með ótakmarkaða skattskyldu í ríkinu. Slíkir einstaklingar njóti yfirleitt ekki skattalegra ívilnana í búsetríki sínu af þeirri ástæðu að meiri hluti tekna þeirra er upprunninn og skattlagður á erlendis.

Um 9. og 17. gr.


    Í 9. gr. og c-lið 17. gr. er lagt til að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Þróunarsjóði sjávarútvegsins og Fiskræktarsjóði verði bætt við upptalningu laganna um aðila sem undanþegnir eru skattskyldu af fjármagnstekjum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Þróunarsjóður sjávarútvegsins eru þegar undanþegnir álagningu fjármagnstekna og þykir því eðlilegt að undanþiggja þá staðgreiðslu að sama skapi. Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og hliðstæður öðrum sjóðum sem undanþegnir eru skattskyldu fjármagnstekna.
    Í a- og b-lið 17. gr. eru lagðar til leiðréttingar á tilvísunum innan laganna auk þess sem lagt er til að sú leiðrétting verði gerð á lögunum að Íbúðalánasjóður verði undanþeginn staðgreiðslu skatts á vaxtatekjur og fjármagnstekjur með sama hætti og gildir um hliðstæða sjóði sem undanþegnir eru skattskyldu fjármagnstekna en Íbúðalánasjóður er undanþeginn greiðslu fjármagnstekjuskatts samkvæmt tekjuskattslögum.

Um 10., 16., 20. og 28. gr.


    Í greinunum eru tekin af tvímæli um það að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti sjálfstætt í þágu rannsóknar máls leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna. Tekur heimildin til leitar á heimilum og í öðrum húsakynnum en þeim sem ákvæði 2. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 3. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 94/ 1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, taka til. Um framkvæmd leitar og haldlagningu gagna fer að öðru leyti eftir lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Um 11. gr.


    Ákvæðið fjallar um heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar að beiðni skattaðila. Skal beiðnin byggjast á nýjum upplýsingum og gögnum sem ekki var unnt að koma að innan 30 daga frá dagsetningu auglýsingar ríkisskattstjóra um að álagningu sé lokið. Komið hefur í ljós að afmörkun þessi við kærufrest er of takmarkandi og því er lagt til að hún verði felld brott.

Um 12. gr.


    Lagt er til að bætt verði við ákvæði um eindaga í 112. gr. laganna til að taka af öll tvímæli í þeim efnum.

Um 13. gr.


    Með ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að þeim sem frestuðu tekjufærslu skv. 60. gr. laganna, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu skv. 11. gr. laga nr. 128/2009, verði heimilað að færa til tekna á þremur árum þá fjárhæð sem tekjufærslu hafði áður verið frestað á, í stað þess að færa frestunarfjárhæðina til tekna í einu lagi í skattframtali 2011.
    Í ákvæði til bráðabirgða II er að finna tillögu að breytingu á ákvæði til bráðabirgða XXXVI í tekjuskattslögum en þar er um að ræða ákvæði um skattalega meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Lagt er til að heimilt verði að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafar sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu og getur skattaðili hagað frádrætti miðað við rekstrarniðurstöðu þessara ára. Það er þó skilyrði að allar fyrnanlegar eignir hafi verið fyrndar að fullu að teknu tilliti til 42. gr. og mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum hafi verið nýttar. Þá er einnig sett það skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010–2014 og að ekki sé um ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Að loknu þessu fimm ára tímabili eða í árslok 2014 færist sá hluti eftirgjafar sem eftir stendur, þó að hámarki 500 millj. kr., ekki til tekna. Það sem umfram er 500 milljónir króna er heimilt að færa til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019. Eftirgefnar skuldir sem á einhvern hátt tengjast refsiverðri háttsemi skattaðila skal tekjufæra án nokkurs frádráttar.

Um 15. og 19. gr.


    Núgildandi ákvæði um afdrátt staðgreiðslu af arði hafa verið talin óskýr. Lagt er til að tekin verði af öll tvímæli um að meginreglan sé sú að skyldan til afdráttar skapist þegar arðurinn er greiddur. Fari greiðslan ekki fram á sama ári og ákvörðun um úthlutun er tekin skal þó miða við að afdráttur og skil staðgreiðslu fari fram innan þess árs sem ákvörðun er tekin. Er það í samræmi við það að þeir sem fá arði úthlutað ber að tekjufæra hann á því ári sem ákvörðun um úthlutun er tekin.

Um 18. gr.


    Í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til með 1. gr. frumvarpsins er hér lagt til að sú breyting verði gerð á tekjufærslu gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt að hún eigi sér stað við úttekt af reikningum og þannig horfið frá því að telja áfallinn óinnleystan gengishagnað af innlánsreikningum til tekna. Jafnframt verði hið sama látið taka til hvers konar krafna í erlendri mynt.

Um 21. gr.


    Hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvarstekjum sveitarfélaga af álagningarstofni útsvars ár hvert vegna reksturs grunnskóla er óbreytt, þ.e. 0,77%.
    Í greininni er lagt til að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái 0,95% af álagningarstofni útsvars ár hvert til jöfnunar vegna málefna fatlaðra. Nauðsynlegt er að auka tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga með þessum hætti svo að hann geti staðið undir þeim skyldum og auknu kröfum sem til hans verða gerðar af hálfu sveitarfélaga eftir yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.
    Í greininni er lagt til að tekjur sjóðsins af útsvari séu sérgreindar á þann veg að tiltekið sé hvað hátt hlutfall skuli fara til jöfnunar vegna reksturs grunnskóla annars vegar og hins vegar til jöfnunar vegna málefna fatlaðra. Með slíkri sérgreiningu verður skýrleikinn meiri og gagnsæi stjórnsýslunnar aukið.
    Áfram er gert ráð fyrir því að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði gerð skil á hlutdeild sjóðsins í staðgreiðslu útsvars þegar skil á staðgreiðslu útsvars til sveitarfélaga fara fram samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum, en lagt er til að við skil á staðgreiðslunni verði fjármunirnir sundurliðaðir, þ.e. annars vegar vegna jöfnunar til reksturs grunnskóla og hins vegar til jöfnunar vegna málefna fatlaðra. Rökin eru þau sömu og í málsgreininni hér að framan, en auk þess er slík sérgreining til vinnuhagræðingar.

Um 22. gr.


    Í 9. gr. laganna er talið upp í fjórum liðum hvernig tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skuli varið. Í ákvæðinu er lagt til að bætt verði við nýjum lið, e-lið, þar sem sérstaklega er tilgreint að tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skuli varið til jöfnunarframlaga vegna þjónustu við fatlaða en um nánari útfærslu er vísað til 13. gr. a laganna, sbr. 25. gr. frumvarpsins. Er ákvæðið í samræmi við d-lið 9. gr. laganna þar sem framlög til reksturs grunnskóla eru tilgreind sem sérstakur flokkur jöfnunarframlaga.

Um 23. gr.


    Ekki er gert ráð fyrir beinni hlutdeild Sambands íslenskra sveitarfélaga í tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra, sbr. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr., sbr. 21. gr. frumvarpsins, sbr. þó skýringar við 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins.

Um 24. gr.


    Lagt er til að 13. gr. laganna breytist til samræmis við hina nýju grein laganna, 13. gr. a, sbr. 25. gr. frumvarpsins, en í henni er vísað til þeirrar sérgreiningar sem kemur fram í 1. og 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr., sbr. 21. gr. frumvarpsins, um tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga annars vegar vegna reksturs grunnskóla og hins vegar vegna þjónustu við fatlaða.

Um 25. gr.


    Í 1. mgr. ákvæðisins er lagt til að stofnuð verði sérstök deild innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða. Er það í samræmi við 11. lið í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða er undirritað var 6. júlí 2010. Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skv. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. laganna, sbr. 21. gr. frumvarpsins, renna í sérdeildina auk tímabundinna framlaga af fjárlögum vegna þjónustu við fatlaða, sbr. nýtt ákvæði til bráðabirgða, XI, sbr. 27. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra skv. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. að frádregnum kostnaði tengdum flutningi málaflokksins, að viðbættum beinum framlögum af fjárlögum, skuli varið til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða með greiðslu framlaga einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða. Framlögin skulu reiknuð á grundvelli fjölda einstaklinga og þjónustuþarfa þeirra í hverju sveitarfélagi og á hverju þjónustusvæði fyrir sig og skal nánar kveðið á um útreikning þeirra í reglugerð. Í reglugerðina skal setja ákvæði um úthlutun framlaga úr sérdeildinni. Skal leitast við að tryggja að tekjuaukning einstakra sveitarfélaga og þjónustusvæða endurspegli kostnaðarmun vegna ólíks fjölda fatlaðra íbúa og þjónustuþarfa þeirra. Heimilt er að ákveða sérstakt aðlögunartímabil þar sem framlög byggjast að hluta á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010. Heimilt er að ákveða í reglugerð að verja tilteknum hluta tekna sérdeildarinnar til að veita sveitarfélögum aðstoð vegna stofnkostnaðar fasteigna. Þau sveitarfélög og þjónustusvæði sem mundu án slíkra framlaga bera hlutfallslega háan kostnað vegna fasteigna njóta að öllu jöfnu forgangs við úthlutun. Jafnframt skal setja sérstök ákvæði í reglugerðina um ráðstöfun framlaga vegna notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, biðlista eftir þjónustu og breytingarkostnaðar. Þá er í 2. mgr. m.a. kveðið á um úthlutun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á fjármagni skv. 2. tölul. 1. mgr. c-liðar 8. gr. að frádregnum kostnaði tengdum flutningi málaflokksins til málefna fatlaðra. Til þess kostnaðar telst einkum kostnaður vegna umsýslu Jöfnunarsjóðs en þó einnig mögulegur umsýslukostnaður Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna málaflokksins á landsvísu. Gert er ráð fyrir að aðilar, þ.e. sjóðurinn og sambandið, geri sérstakt samkomulag um fjárhæð framlaga í þessu efni.
    Í 3. mgr. ákvæðisins er lagt til það nýmæli að stofnaður verði sérstakur fasteignasjóður í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Skulu allar fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða renna til sjóðsins. Hið sama gildir um önnur réttindi og skyldur ríkisins tengd fasteignum sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða. Gert er ráð fyrir að fasteignasjóðurinn taki yfir allar eignir, réttindi og skyldur Framkvæmdasjóðs fatlaðra, en sá sjóður verður lagður niður í ákvæði til bráðabirgða VII í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, með síðari breytingum, sem lagt er fram á þessu þingi. Í sama ákvæði er einnig lagt til að fasteignasjóður í umsjón Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga taki við réttindum og skyldum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Skal starfsemi fasteignasjóðsins miða að því að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga vegna fasteignamála hvað þjónustu við fatlaða varðar. Tekjur fasteignasjóðsins umfram gjöld skulu renna til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skulu nýttar til jöfnunar vegna þjónustu við fatlaða. Á sama hátt ber sérdeildin ábyrgð á rekstrarhalla fasteignasjóðsins, sé um slíkt að ræða. Í ákvæðinu er jafnframt kveðið á um það að ráðherra sé heimilt með samþykki Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja fasteignasjóðinn niður og ráðstafa eignum hans til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ráðherra setji að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga reglugerð þar sem nánar er kveðið á um starfsemi fasteignasjóðsins. Í reglugerðinni skal m.a. fjallað um rekstrarform og stjórnun, leigu og sölu fasteigna og heimildir sveitarfélaga til þess að fela öðrum aðilum rekstur fasteignanna.

Um 26. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að efri og neðri viðmiðunarmörk útsvars í 23. gr. laganna breytist vegna verkefnatilflutningsins. Lagt er til að efri mörkin hækki úr 13,28% í 14,48% og neðri mörkin úr 11,24% í 12,44%. Að öðru leyti vísast til þess sem segir hér að framan um samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða er undirritað var 6. júlí 2010 þar sem kemur fram að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2 prósentustig gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins.

Um 27. gr.


    Í a-lið er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er varðar sérstök framlög ríkisins af fjárlögum vegna tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Er ákvæðið í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga sem undirritað var 6. júlí 2010. Í samkomulaginu eru tilgreindar fjárhæðir framlaganna sem eru mismunandi milli ára auk sundurliðaðs fjárhagsramma. Framlögin taka verðlagsbreytingum fjárlaga.
    Af þeim 1,2 prósentustigum sem hlutdeild sveitarfélaganna eykst um í álagningarstofni útsvars renna 0,95 prósentustig til sérdeildar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en 0,25 prósentustig beint til sveitarfélaganna. Í b-lið er lagt til að lögfest verið að sveitarfélögin nýti þá fjármuni sem af þessari hækkun hlýst til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæða þannig að tryggt sé að fjármunirnir séu ekki notaðir til annars. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaða er undirritað var 6. júlí 2010 kemur fram að stefnt skuli að því að framlög af fjárlögum falli niður þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari frá og með árinu 2014. Á þeim grundvelli er lagt til að ákvæðið gildi til sama tíma.
    Í c-lið er kveðið á um að greiðslur framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2010 til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða taki mið af heimildarákvæði 6. gr. samkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða hvað varðar sérstakt aðlögunartímabil þar sem beinar greiðslur til sveitarfélaga og þjónustusvæða byggjast að hluta til eða að öllu leyti á framreiknuðum rekstrarkostnaði ársins 2010.

Um 29. gr.


    Lagt er til að núgildandi úrræði um greiðsluuppgjör nái einnig til lögaðila og einstaklinga sem hafa verið í atvinnurekstri. Jafnframt er lagt til að einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara geti einnig sótt um greiðsluuppgjör vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Um 30. gr.


    Hér er lagt til að að afborganir af skuldabréfi því sem gefið verður út hefjist 1. júlí 2012 í stað 1. október 2011.

Um 31. gr.


    Lagt er til að tollstjóri fái heimild til að fella niður að hluta ógreiddan tekjuskatt sem lagður er á fyrir 1. janúar 2010. Heimildin gerir ráð fyrir því að úrræðið, sem eingöngu á við um lögaðila sem enn eru í atvinnurekstri, eigi jafnt við um þá sem gert hafa samninga við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu og þá sem ekki hafa farið þá leið. Áréttað er að tollstjóri geti kallað eftir öllum þeim upplýsingum og gögnum frá umsækjendum sem hann telur nauðsynleg til þess að unnt sé að leggja mat á það hvort hagsmunum ríkissjóðs sé best borgið með niðurfellingu tekjuskatts að hluta.

Um 32. gr.


    Í frumvarpi sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi (2008–2009) til breytinga á lögum nr. 129/1997, 219. mál, þskj. 297, og varð að lögum nr. 171/2008 með gildistöku 1. janúar 2011, var lagt til að gert yrði að skilyrði að þeir sem sinntu eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða hefðu staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Hið rétta er að standast þarf próf í verðbréfaviðskipum í samræmi við 53. gr. laga um fjármálafyrirtæki, en þar er kveðið á um að starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Undir framangreindan 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki falla öll viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, þ.m.t. eignastýring og rekstur verðbréfasjóða. Hefur þessu ákvæði verið beitt með þeim hætti að Fjármálaeftirlitið hefur krafist þess að allir sjóðstjórar verðbréfasjóða hafi staðist prófið. Þar sem lífeyrissjóðir falla ekki undir lög um fjármálafyrirtæki, en samanlögð fjárhæð þeirra verðbréfasafna sem voru í sjóðastýringu lífeyrissjóðanna var í mörgum tilvikum mun hærri en hjá verðbréfasjóðum var þessi breyting lögð til. Ekki var talið óeðlilegt að gerðar væru sömu kröfur til menntunar og kunnáttu þeirra sem færu með sjóðastýringu lífeyrissjóða og gerðar eru til sjóðstjóra verðbréfasjóðanna. Með ákvæðinu er því gerð leiðrétting á ákvæði 4. mgr. 34. laga nr. 129/1997.

Um 33. gr.


    Lagt er til að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997 verði 15% áfram í stað 10%, eða út árið 2010, en í ákvæðinu kemur fram að mörkin geti numið allt að 15% sem er frávik frá almennu reglunni í 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Vísast hér til röksemda sem fram koma í áliti efnahags- og skattanefndar þegar umrætt bráðabirgðaákvæði var sett, sbr. lög nr. 171/2008. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér en líkt og á síðasta ári er útlit fyrir að einhverjir sjóðir séu með neikvæða stöðu yfir 10%.

Um 34. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um markmið laganna. Breytingartillagan tekur mið af því að í frumvarpinu er lagt til að ákvæði um skattafslátt til einstaklinga og lögaðila, vegna hlutabréfakaupa, falli brott.

Um 35. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um gildissvið laganna. Breytingarnar sem lagðar eru til á ákvæðinu eru þær að gildissviðið verði takmarkað við fyrirtæki sem eru eigendur að staðfestum rannsóknar- eða þróunarverkefnum. Óbreytt er að háskólar og opinberar stofnanir geta ekki talist fyrirtæki í skilningi laganna en það sama á ekki við um félög í eigu hins opinbera. Leiðir þá breytingartillögu af leiðbeindandi reglum ESA um styrki til rannsókna og þróunar og nýsköpunar.

Um 36. gr.


    Lagt er til að skilgreiningar á átta hugtökum verði felldar brott úr núgildandi lögum. Skilgreiningar á hugtökunum aukning hlutafjár, hlutabréfakaup, skattaðili, skattafsláttur og verkferlar falla brott vegna þess að lagt er til að ákvæði um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa falli brott. Hugtökin framlag til nýsköpunar og nýsköpun falla brott vegna breytinga á ákvæðum laganna um skattfrádrátt nýsköpunarfyrirtækja og hugtakið opinbert hlutafélag fellur brott vegna þess að ekki er lagt til að þau félög verði lengur undanskilin gildissviði laganna.
    Þær breytingar sem lagðar eru til á hugtökunum rannsóknar- og þróunarkostnaður, rannsóknir og þróun eru þær að skilgreiningum á þessum hugtökum er breytt til samræmis við leiðbeinandi reglur ESA um styrki til rannsókna og þróunar og nýsköpunar. Hugtökin rannsóknir og þróun eru þýðingar á þeim hugtökum úr umræddum leiðbeinandi reglum. Til nánari útskýringa á hugtakinu „þróun“ gildir samkvæmt reglunum að þróun nothæfra frumgerða og reynsluverkefna telst með þegar frumgerðin er lokagerð afurðarinnar og of dýrt er að framleiða eintak sem eingöngu á að nota til kynningar eða til að sýna fram á samræmi. Ef frumgerðin eða reynsluverkefnið er selt eða gefur á annan hátt af sér tekjur skulu þær dregnar frá styrkhæfum kostnaði.
    Framleiðsla og prófanir á tilraunaeintökum, framleiðslu ferla og þjónustu eru einnig styrkhæf, að því gefnu að þau nýtist ekki í söluhæfar lokagerðir. Venjubundnar endurbætur á framleiðsluferlum eða aðferðum teljast ekki til þróunar. Sama gildir um endurbætur á þjónustu og starfsemi jafnvel þótt þær leiði til umbóta.
    Loks er bætt við ákvæðið skilgreiningum á litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum en þær eru nauðsynlegar vegna þeirra reglna sem gilda um samanlagt hámark á opinberum styrkjum til rannsóknar- og þróunarverkefna samkvæmt sömu leiðbeinandi reglum. Í skilgreiningum á litlum, meðalstórum og stórum fyrirtækjum er vísað til I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 frá 6. ágúst 2008 þar sem tilgreindir eru tilteknir flokkar aðstoðar sem samrýmast sameiginlega markaðnum til beitingar 61. og 62. gr. samningsins um EES. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 800/2008 er birt sem fylgiskjal við lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi, sbr. 27. gr. þeirra laga. Í viðaukanum er að finna ítarlegri skilgreiningar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, m.a. með tilliti til yfirráða og eignatengsla milli fyrirtækja. Til frekari skýringa má vísa til „notendaleiðbeininga fyrir SME“ sem framkvæmdasstjórn ESB gaf út árið 2006 til upplýsingar fyrir atvinnurekendur og aðgengilegar eru á íslensku á vef framkvæmdastjórnarinnar.

Um 37. gr.


    Ein meginbreytingin sem lögð er til á reglum um skattfrádrátt til nýsköpunarfyrirtækja er sú að framvegis muni Rannís taka ákvörðun um staðfestingu einstakra nýsköpunarverkefna en ekki nýsköpunarfyrirtækja eins og kveðið er á um í núgildandi 2. mgr. 4. gr. laganna. Þær breytingar sem lagðar eru til á 4. gr. skýrast af þessu og einnig því að ákvæði um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa falla brott.

Um 38. gr.


    Þar breytingar sem lagðar eru til á 5. gr. laganna taka einnig mið af því að Rannís muni framvegis staðfesta rannsóknar- eða þróunarverkefni. Þá er einnig lagt til að sú sérregla sem felst í ákvæði 2. mgr. 5. gr. falli brott úr 5. gr. en verði tekin upp endurbætt í 6. gr. laganna. Reglan eins og hún er sett fram í 2. mgr. 5. gr. samræmist ekki leiðbeinandi reglum ESA að öllu leyti enda er í ákvæðinu ekki tekið fram að kaupa þurfi þjónustuna af ótengdu fyrirtæki eins og reglurnar kveða á um.

Um 39. gr.


    Lagt er til að núgildandi 6. gr. laganna falli brott enda fjallar það ákvæði um staðfestingu vegna hlutafjáraukningar. Þess í stað er lagt til að í 6. gr. verði tekið upp endurbætt ákvæði um viðbótarfrádráttarrétt vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarvinnu. Samkvæmt nýja ákvæðinu verður að vera um rannsóknar- eða þróunarþjónustu að ræða í tilviki aðkeyptrar þjónustu og hún verður að vera keypt af ótengdu fyrirtæki, háskóla eða stofnun. Í þessu felst að þjónusta sem keypt er af dótturfyrirtæki eða fyrirtæki sem á annan hátt er tengt kaupanda gegnum eignarhald skapar ekki rétt til viðbótarfrádráttar. Um viðbótarfrádráttarréttinn er fjallað í 1. mgr. 10. gr. laganna.

Um 40. gr.


    Sú breyting sem lögð er til á 7. gr. laganna felst í því að gert er að skilyrði að fyrirtæki sem eru aðilar að samstarfsverkefni verða að vera ótengd til að verkefni skapi rétt til frádráttar frá álögðum tekjuskatti þeirra.

41. gr.

    Lagt er til að orðalagi 8. gr. sem fjallar um málsmeðferð verði breytt til samræmis við aðrar breytingartillögur á lögunum. Að auki er lagt til að ákvæði 1. mgr. 8. gr. verði gert skýrara. Þannig er lagt til að kveðið verði á um fjölda þeirra fulltrúa sem sitja í fagnefnd en lagt er til að þeir verði þrír. Þá er skýrt að hvaða leyti fagnefndin kemur að málsmeðferðinni þ.e. að hún geti verið ráðgefandi við mat á verkefnum. Loks er lagt til að fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og Samtök atvinnulífsins tilnefni fulltrúana í fagnefndina.

Um 42. gr.


    Breytingartillöguna leiðir af því að lagt er til að ákvæði um skattafslátt vegna hlutabréfakaupa falli brott.

Um 43. gr.


    Þær breytingar sem eru lagðar til á 1. mgr. 10. gr. eru annars vegar orðalagsbreytingar til samræmis við aðrar breytingartillögur en hins vegar eru lagðar til verulegar hækkanir á skattfrádrætti til nýsköpunarfyrirtækja. Þannig er lagt til að sérstakur frádráttur frá álögðum tekjuskatti hækki úr 15% í 20%, einnig að almennt hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti hækki úr 50 millj. kr. í 100 millj. kr. Loks er hámark kostnaðar vegna aðkeyptrar rannsóknar- eða þróunarþjónustu hækkað úr 75 millj. kr. í 150 millj. kr.

Um 44. gr.


    Lagt er til að fallið verði frá því að við ákvörðun á skattalegu tapi skuli einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem staðfesting vegna skattfrádráttar nýsköpunarverkefnis var veitt. Að óbreyttu getur yfirfæranlegt tap svipt félag rétti til skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar en skilja má ákvæðið eins og það stendur núna svo að lögaðila verði einungis greiddur út frádrátturinn ef skattalegt tap er á árinu. Frádrátturinn verði ekki greiddur út vegna yfirfæranlegs taps sem félagið átti áður en það fékk staðfestingu vegna skattfrádráttar. Nái tillaga þessi fram að ganga má skilja ákvæðið þannig að félag njóti alltaf frádráttarins hvort sem til skattgreiðslu kemur eða ekki, óháð því hvort skattalegt tap hafi verið á árinu eða skattleysi stafi af yfirfæranlegu tapi.

Um 45. gr.


    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um opinberar styrkveitingar og útseldar rannsóknir þar sem í 46. gr. frumvarpsins er rakið með ítarlegum hætti hvaða takmarkanir gilda, samkvæmt leiðbeinandi reglum ESA um styrki vegna rannsóknar og þróunar og nýsköpunar, varðandi samanlagða styrki frá opinberum aðilum. Þá er lagt til að fellt verði brott ákvæði er kveður á um staðfestingu Rannís á nýsköpunarfyrirtækjum en ekki nýsköpunarverkefnum eins og breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu ganga út á. Að auki er lagt til að fellt verði brott ákvæði um skattafslátt til einstaklinga og lögaðila vegna hlutabréfakaupa.

Um 46. gr.


    Lagðar eru til verulegar breytingar á ákvæðinu sem fela í sér að rakið er með ítarlegum hætti hvaða takmarkanir gilda, samkvæmt leiðbeinandi reglum ESA, um styrki vegna rannsókna og þróunar og nýsköpunar, varðandi samanlagða styrki frá opinberum aðilum. Mikilvægt er að undirstrika að þær hámarksreglur sem raktar eru í ákvæðinu gilda fyrir verkefni í heild allan þann tíma sem verkefnið stendur yfir en ekki fyrir almanaksárið eins skattfrádráttur samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

Tafla sem sýnir styrkhæfi
(sbr. leiðbeiningarreglur ESA).
Lítið fyrirtæki Meðalstórt fyrirtæki Stórt fyrirtæki
Grunnrannsóknir 100% 100% 100%
Rannsóknir 70% 60% 50%
Rannsóknir sem fela í sér:
          samstarf milli fyrirtækja; fyrir stór fyrirtæki: milli landa eða í það minnsta eitt lítið eða meðalstórt fyrirtæki
eða
          samstarf fyrirtækis með rannsóknarstofnun;
eða
          dreifing niðurstaðna.
80% 75% 65 %
Þróun 45% 35% 25%
Þróun sem felur í sér:
          samstarf milli fyrirtækja; fyrir stór fyrirtæki: milli landa eða í það minnsta eitt lítið eða meðalstórt fyrirtæki
eða
          samstarf fyrirtækis með rannsóknarstofnun.
60% 50% 40%


Um 47. gr.


    Með greininni er lagt til að aðilum sem búsettir eru á Íslandi verði gert heimilt að leigja og flytja inn bílaleigubíla frá bílaleigum á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og nota hér á landi tímabundið. Undanþágan er svo takmörkuð við það að hver einstök bifreið má ekki vera á landinu lengur en 42 daga í hvert sinn og hún má ekki vera á landinu lengur en 183 daga á hverju ári. Hver einstaklingur getur einungis nýtt sér þessa heimild í 42 daga á ári hverju. Er breytingin lögð til vegna athugasemda sem ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert við núverandi bann við tímabundnum tollfrjálsum innflutningi aðila, sem búsettir eru hérlendis, á ökutækjum. Nú þegar er aðilum sem ekki eru búsettir á Íslandi heimilt að flytja inn ökutæki tímabundið tollfrjálst en það verður að teljast hæpið að aðilar búsettir hér á landi muni nýta sér þessa heimild. Mögulegur ávinningur af því að leigja ökutæki erlendis frá tímabundið yrði tæpast meiri en sem nemur flutningskostnaði hingað til lands.

Um 48. gr.


    Í úrskurði ríkistollanefndar í máli nr. 6/2009 frá 7. janúar 2010 var komist að þeirri niðurstöðu að tollstjóra skorti lagaheimild til þess að taka mið af vátryggingakostnaði við ákvörðun tollverðs þegar innflytjandi hefur ekki vátryggt vöru við innflutning og þannig ekki greitt slíkan kostnað. Ákvæði reglugerðar, nánar tiltekið 3. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, gangi lengra en gildandi lög og skorti þannig lagastoð. Í lögunum sé einungis gert ráð fyrir að slíkur kostnaður sé hluti tollverðs hafi hann raunverulega stofnast og þannig greiddur af innflytjanda eða að greiðsluskylda hvíli á innflytjanda vegna tilkomu slíks kostnaðar. Reglugerðarákvæðinu hefur verið fylgt í framkvæmd en þar segir að kostnaðarliðir og gjöld sem um ræðir í 2. mgr. 15. gr. gildandi tollalaga, þ.e. flutningskostnaður, gjöld fyrir fermingu, affermingu eða aðra meðferð vöru vegna flutnings til innflutningsstaðar og vátryggingarkostnaður í tengslum við flutning vöru til innflutningsstaðar, skulu innifalin í tollverði, án tillits til þess hvort kostnaðarliðirnir og gjöldin séu raunverulega greidd eða ekki, enda sé unnt að ákvarða þau á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða. Ljóst er að allir þessir kostnaðarliðir, sem innflytjandi hefur greitt eða ber að greiða, eru lagðir á viðskiptaverð við ákvörðun tollverðs samkvæmt skýrum fyrirmælum 2. mgr. 15. gr. gildandi laga. Samkvæmt fyrrnefndum úrskurði ríkistollanefndar skortir skýr fyrirmæli í lögum þannig að heimilt sé að ákvarða skattstofn út frá sams konar kostnaðarliðum þótt til þeirra hafi ekki verið stofnað eða í þeim tilfellum þegar slíkur kostnaður er ekki gefinn upp á tollskjölum. Er því lagt til að nýjum málslið verði bætt við 3. mgr. 5. gr. til að tryggja lögmæti þeirrar framkvæmdar sem viðhöfð hefur verið á síðustu árum. Áfram skuli einnig miðað við að þessir kostnaðarliðir verði áætlaðir á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

Um 49. gr.


    Í 1. mgr. ákvæðisins er lagt til að tollstjóra verði falið að annast endurgreiðslur vegna ökutækja sem breytt er til þess að nota metan í stað bensíns eða dísilolíu. Umferðarstofa hefur þegar mótað reglur um metanbreytingar og skráningu slíkra breytinga í bifreiðaskrá. Lagt er til að sé þeim reglum framfylgt af hálfu breytingaverkstæða og skoðunarstöðva verði endurgreiðsla heimil. Lagt er til að fjárhæð endurgreiðslu skuli vera 20% af kostnaði við breytinguna samkvæmt reikningi breytingaverkstæðis en þó ekki hærri en 100.000 kr. Samkvæmt upplýsingum frá breytingaverkstæðum er kostnaður við breytingar frá 400.000 kr. til 800.000 kr. og er því talið ólíklegt að endurgreiðslur verið undir 100.000 kr. Lagt er til að endurgreiðsla verði þó takmörkuð við ökutæki sem eru sex ára eða yngri við skráningu breytingarinnar og að ökutækið sé búið metangeymi sem sé að lágmarki 80 lítra. Sú stærð samsvarar orkuinnihaldi um 20 lítra af bensíni. Er þetta gert til þess að þeim fjármunum sem varið er til endurgreiðslunnar sé sem best varið. Ökutæki eigi þannig eftir nokkur ár af líftíma sínum og hafi möguleika á því að nota metan í lengri vegalengdir.
    Í reglum Umferðarstofu um metanbreytingar er gert ráð fyrir að skoðunarstöðvar votti að breyting hafi átt sér stað og í framhaldi af því fái ökutæki skráða athugasemd í bifreiðaskrá um að því hafi verið breytt til þess að ganga á metani og er því í 3. mgr. lagt til að staðfesting á skráningu Umferðarstofu fylgi með umsókninni. Jafnframt er lagt til að skoðunarstofa votti að stærð metangeymis ökutækis sé að lágmarki 80 lítrar.
    Í 4. og 5. mgr. er að finna ákvæði sem kveða á um viðurlög við því að metanbúnaður sé gerður óvirkur eða hann tekinn úr ökutæki.
    Í 6. mgr. er lagt til að skoðunarstofur ökutækja skuli kanna ástand og virkni metanbúnaðar við hverja reglubundna skoðun ökutækis. Er þetta í samræmi við reglur umferðarstofu um metanbreytingar.
    Í 7. mgr. er lagt til að vörugjald verði endurgreitt vegna breytinga á 1.000 ökutækjum. Takmarkað framboð er á breytingum og er því gert ráð fyrir að það taki um tvö ár að breyta 1.000 ökutækjum, nema aðilum fjölgi verulega á markaðnum. Þegar 1.000 ökutækjum hefur verið breytt kemur endurgreiðslan til með að falla niður. Í greininni er jafnframt lagt til að eigendur ökutækja sem þegar hefur verið breytt geti sótt um endurgreiðsluna. Hafi orðið eigendaskipti á ökutæki í millitíðinni er ekki gert ráð fyrir að eigandi ökutækisins á þeim tíma sem því var breytt hljóti endurgreiðsluna þar sem líklegt verður að teljast að breytingarkostnaður hafi endurspeglast í söluverði þess.
    Að lokum er svo lagt til að ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, um eftirlit og kæruheimildir gildi um endurgreiðslurnar eftir því sem við getur átt.

Um 50. gr.


    Hér er lagt til að framlengdur verði gildistími bráðabirgðaákvæða sem heimila niðurfellingu stimpilgjalds af skilmálabreytingum fasteignaveðskuldabréfa og nýrra bréf sem gefin eru út af Íbúðalánasjóði til 1. júlí 2010, ásamt bílalánum einstaklinga. Samkvæmt gildandi bráðabirgðaákvæðum hefði heimildin runnið út í lok þessa árs.

Um 51. gr.


    Lagt er til að við kaflann um dómsmálagjöld í lögum um aukatekjur ríkissjóðs bætist tvö stig bæði í héraði og Hæstarétti, þ.e. fyrir héraðsdómi af stefnufjárhæð frá 90 millj. kr. að 150 millj. kr. greiðist 150 þús. kr. og fyrir stefnufjárhæð frá 150 millj. kr. og umfram þá fjárhæð 250 þús. kr. og fyrir Hæstarétti frá 90 millj. kr. að 150. millj. kr. 200 þús. kr. og frá 150 millj. kr. og umfram það 250 þús. kr.

Um 52. gr.


    Í málum er varða dómsmálagjöld vegna mála sem rekin eru fyrir dómstólum á grundvelli laga um skipti á dánarbúum o.fl. og laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er m.a. deilt um réttmæti krafna sem lýst er í þrotabú og oft er deilt um verulega fjárhagslega hagsmuni. Er því talið rétt að þegar þingfest er mál fyrir dómi á grundvelli framangreindra laga þar sem svo háttar til að deilt er um hagsmuni sem afmarkaðir eru með ákveðnum fjárhæðum taki þingfestingargjald sem og kærugjald til Hæstaréttar mið af þessum hagsmunum á sama hátt og er almennt um einkamál.

Um 53. gr.


    Gert er ráð fyrir að gjald sem greiða þarf fyrir hverja tilkynningu um flutning aflamarks sem framkvæmd er af Fiskistofu verði hækkað. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu skili um 16,5 millj. kr. en við þessa breytingu má áætla að tekjur verði um 19,2 millj. kr. eða hækkun um 2,7 millj. kr. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 54. gr.


    Gert er ráð að gjald sem greiða þarf fyrir veitingu veiðileyfis verði hækkað, sbr. 1. gr. laga nr. 33/2000. Samkvæmt frumvarp til fjárlaga 2011 er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu skili um 15 millj. kr. en við þessa breytingu má áætla að tekjur verði um 22,2 millj. kr. eða hækkun um 7,2 millj. kr. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 55. gr.


    Gert er ráð að gjald sem greiða þarf fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar milli skipa verði hækkað. Í frumvarpi til fjárlaga 2011 er ekki áætlað sérstaklega vegna þessarra tekna. Við þessa breytingu má áætla að tekjur verði um 0,6 millj. kr. eða hækkun um 0,6 millj. kr. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 56. gr.


    Gert er ráð fyrir að gjald sem útgerðir skipa greiða fyrir hvern dag, eða hluta dags, sem eftirlitsmaður er um borð í skipi sem hefur leyfi Fiskistofu til að vinna afla um borð eða þegar eftirlitsmaður Fiskistofu er um borð í skipi á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum verði hækkað. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að tekjur af gjaldinu skili um 24,9 millj. kr. en við þessa breytingu má áætla að tekjur verði um 24,9 millj. kr. eða hækkun um 11,9 millj. kr. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 57. gr.


    Sú efnisbreyting sem lögð er til samkvæmt þessu ákvæði er að hverfa frá fortakslausri skyldu til að senda úrskurði yfirskattanefndar í ábyrgðarbréfi og þess í stað verði þeir að jafnaði sendir í almennum pósti eða rafrænt. Er þetta í takt við þær breytingar sem orðið hafa á því umhverfi og starfsháttum sem stjórnsýslan byggist á í dag þar sem rafræn samskipti verða æ algengari. Breyting þessi er einnig til samræmis við þær breytingar sem nýlega hafa verið gerðar á 5. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um 58. gr.


    Ákvæðið fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á ýmsum
lagaákvæðum um skatta og gjöld.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum sem skipta má í nokkra efnishluta. Í fyrsta lagi eru breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Í öðru lagi eru breytingar sem snúa að rýmkun á skattalegum úrræðum fyrir fyrirtæki, annars vegar vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda og hins vegar vegna heimildar til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattaskuldum frá fyrri árum. Í þriðja lagi eru breytingar á lögum um nýsköpunarfyrirtæki til frekari eflingar þeirri starfsemi, auk niðurfellingar hlutabréfaafsláttar. Í fjórða lagi er lagt til að framlengt verði bráðabirgðaákvæði um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem felur í sér að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10% út árið 2010. Í fimmta lagi eru breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra til að einfalda og hraða málsmeðferð gagnvart aðilum sem eru til rannsóknar. Að lokum eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru tilkomnar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), tilkomu umhverfisvænna orkugjafa og framlengingar á niðurfellingu stimpilgjalds vegna skilmálabreytinga lána hjá fólki í greiðsluerfiðleikum.
    Í fyrsta hluta frumvarpsins eru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Lagt til að lögum um tekjuskatt verði breytt þannig að tekjuskattshlutfallið verði lækkað um 1,2% og á móti er lagt til að lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði breytt þannig að heimilað hámarkshlutfall útsvars hækki um 1,2%. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti lækki um 10,2 milljarða kr. og að tekjur sveitarfélaga vegna útsvarstekna hækki samsvarandi. Nokkrar aðrar breytingar eru auk þess gerðar á lögunum vegna yfirfærslunnar og er gerð ítarleg grein fyrir kostnaðaráhrifum þeirra í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpi til laga um málefni fatlaðra sem flutt er samhliða þessu frumvarpi. Því er að öðru leyti vísað til þeirrar umsagnar vegna heildarkostnaðaráhrifa vegna yfirfærslunnar.
    Í öðrum hluta frumvarpsins eru lagðar til breytingar er snúa að rýmkun á skattalegum úrræðum fyrir fyrirtæki, annars vegar vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda og hins vegar vegna heimildar til greiðsluuppgjörs á gjaldföllunum skattaskuldum fyrri ára.     
    Í fyrsta lagi er til bráðbirgða lagt til að heimilt verði að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 þann hluta eftirgjafar skulda sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu og getur skattaðili hagað frádrætti miðað við rekstrarniðurstöðu þessara ára. Skilyrði er að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010–2014 og að ekki sé um ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Að loknu þessu fimm ára tímabili eða í árslok 2014 færist sá hluti eftirgjafar sem eftir stendur, þó að hámarki 500 m.kr., ekki til tekna. Það sem umfram er 500 m.kr. er heimilt að færa til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019.
    Í öðru lagi er lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til að fella niður hluta af tekjuskatti lögaðila og einstaklinga í rekstri sem fallið hefur í gjalddaga fyrir 1. janúar 2010. Hér er um frekari ívilnun að ræða frá lögum um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum en auk þess lagt til að umsækjandi um greiðsluuppgjör njóti ívilnana gagnvart uppgjöri á kröfunni sem fer fram eftir 1. júlí 2011 þannig að ekki eru lagðir dráttarvextir á hina ógreiddu skattkröfu sem varð til fyrir 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 og að ógreidd skattrafa er sett á skuldabréf til fimm ára með jöfnum mánaðarlegum afborgunum og fer fyrsta greiðsla fram 1. júlí 2012. Skuldabréfið verði án vaxta en verðtryggt, miðað við vísitölu neysluverðs í júlí 2011.
    Í þriðja hluta frumvarpsins er lagt til að lögum um nýsköpunarfyrirtæki verði breytt í samræmi við athugasemdir frá ESA auk þess sem lagðar eru til frekari skattalegar ívilnanir en nú er. Hlutabréfaafsláttur til handa einstaklingum og lögaðilum er felldur brott þar sem hann er ekki talinn standast reglur evrópska efnahagssamningsins um ríkisaðstoð. Hámark rannsóknar- og þróunarkostnaðar til viðmiðunar frádrætti frá tekjuskatti er hækkað úr 50 m.kr. í 100 m.kr. og í þeim tilvikum þar sem um aðkeypta þjónustu frá viðurkenndum aðilum er að ræða hækki hámarkið úr 75 m.kr. í 150 m.kr. Þá er lagt til að fallið verði frá því að við ákvörðun á skattalegu tapi samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skuli einungis líta til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem verkefni í eigu þess hlaut staðfestingu vegna skattfrádráttar. Þá er lagt til að í stað 15% hlutfalls frádráttar af rannsóknar- og þróunarkostnaði verði hlutfallið hækkað í 20%. Ekki hefur verið lagt sérstakt mat á hvaða áhrif þessar breytingar hafa á tekjur ríkissjóð, en gert er ráð fyrir að þau verði óveruleg.
    Í fjórða hluta frumvarpsins er lagt til að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10% út árið 2010. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér en líkt og á síðasta ári er útlit fyrir að einhverjir sjóðir séu með neikvæða stöðu yfir 10%. Jafnframt er lagt til að gerðar verði sömu kröfur til menntunar og kunnáttu þeirra sem fara með sjóðastýringu lífeyrissjóða og gerðar eru til sjóðstjóra verðbréfasjóðanna, þ.e. að hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum.
    Í fimmta hluta frumvarpsins eru lagðar til breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra til að einfalda og hraða málsmeðferðum gagnvart aðilum sem eru til rannsóknar og felst meðal annars í því að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á einkaheimilum eða á öðrum þeim stöðum sem heimildir skattalaga taka ekki til. Gert ráð fyrir að með þessum breytingum verði meðferð máls skilvirkari og þær leiði til aukins hagræðis og einföldunar fyrir rannsóknaraðila jafnt sem þá aðila sem aðgerðin beinist gegn.
    Auk þess sem að framan er talið er lagt til að nokkrar breytingar verði gerðar á ýmsum óskyldum lögum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að endurgreiða vörugjöld allt að 100 þús. kr. vegna ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu en breytt er til þess að ganga fyrir metani. Nokkuð erfitt er að meta hvaða kostnaðarauka þetta mun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð en í áætlunum er miðað við að það geti orðið allt að 100 m.kr. á tveggja ára tímabili.
    Í öðru lagi er lagt til að tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds þegar skilmálum fasteignaveðskuldabréfum er breytt eða ný veðskuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila verði framlengdar um eitt ár, eða til ársloka 2011.
    Í þriðja lagi er lagt til tekjufærsla gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt eigi sér stað við úttekt af reikningi og þannig horfið frá því að áfallinn óinnleystur gengishagnaður teljist til tekna.
    Í fjórða lagi er lagt til að meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði verði sú sama hvort sem salan fer fram úr dánarbúi eða af erfingjum sjálfum.
    Í fimmta lagi er lagt til að til vaxtagjalda sem mynda stofn til vaxtabóta teljist einungis greiddir vextir og verðbætur á afborganir og vexti en ekki gjaldfallnir.
    Í sjötta lagi er lagt til að skattaleg meðferð einstaklinga sem starfa og hafa tekjur sínar hluta ársins á Íslandi og að hluta til á Evrópska efnahagssvæðinu, auk Færeyja og Sviss, verði samræmdar þannig að ef meiri hluti tekna verður til á Íslandi njóti þeir skattalegs hagræðis á hér á landi hvort sem þeir eru búsettir hérlendis eða erlendis.
    Í áttunda lagi er til bráðabirgða lagt til að frestaðar tekjufærslur verði hægt að færa til tekna á næstu þremur árum í stað þess að frestfjárhæðin færist til tekna í einu lagi í skattframtali 2011 eins og núverandi lög gera ráð fyrir.
    Í níunda lagi er lagt til að fjölgað verði gjaldaþrepum við greiðslu dómsmálagjalda og að bætt verði við tveimur nýjum gjaldaþrepum. Hæsta gjaldaþrepið í dag miðast við stefnufjárhæð eða áfýjunarfjárhæð frá 30 m.kr. og yfir. Er hér lagt til að gjaldaþrepið verði 30 m.kr. að 90 m.kr. og svo tvö ný stig þ.e. frá 90 m.kr. að 150 m.kr. og svo frá 150 m.kr. og af fjárhæð umfram þá fjárhæð. Áætlanir gera ráð fyrir að með þessum breytingum hækki dómsmálagjöld úr 15 m.kr. á ári í 180 m.kr. á ári og tekjuauki fyrir ríkissjóð verði um 165 m.kr. árlega sem gert er ráð fyrir að nýttar verði til að fjölga dómurum við Hæstarétt og héraðsdómstólana.
    Í tíunda lagi er lagt til að gjöld sem innheimt eru í samræmi við lög um stjórn fiskveiða og lög um veiðieftirlitsgjald verði hækkuð. Þetta eru gjöld vegna útgáfu leyfa til veiða í atvinnuskyni, vegna eftirlits um borð í fiskiskipum og vegna flutnings á veiðiheimildum milli skipa. Þessar hækkanir eru tilkomnar til að mæta hækkunum á almennu verðlagi frá því að gjöldin voru síðast hækkuð og er gert ráð fyrir því að tekjuauki ríkisins vegna þessa verði tæpar 23 m.kr. á ári.
    Samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins má gera ráð fyrir að tekjutap ríkissjóðs vegna breytinga á tekjuskattshlutfallinu nemi tæpum 10,2 milljörðum kr. Er það annars vegar vegna lækkunar tekjuskattshlutfallsins og hins vegar vegna útsvarsgreiðslu ríkissjóðs til sveitarfélaga en sveitarfélögum er lögum samkvæmt tryggt útsvar af tekjuskattsskyldum tekjum með því að ríkissjóður greiðir að hluta eða fullu útsvar þeirra sem hafa tekjur undir ákveðnum mörkum. Á móti er gert ráð fyrir að niður falli bein framlög í fjárlögum til starfrækslu málaflokksins sem nema um 10 milljörðum kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er reiknað með að vegna annarra breytinga en vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra komi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð nema hvað reiknað er með um 100 m.kr kostnaðarauka vegna endurgreiðslu á vörugjöldum.